Krabbamein ekki algengara hjá myndgreiningarfólki en öðrum

Margir sem starfa við myndgreiningu fá öðru hverju spurningar um hvort þetta sé ekki hættulegt starf, hvort við verðum ekki fyrir geislun og hvort gerðar hafi verið einhverjar rannsóknir á því hvort krabbamein sé algengara hjá myndgreiningarstarfsmönnum en öðrum. Reyndar hafa flestir ekki einu sinni fyrir því að spyrja, ganga hreinlega út frá því sem vísu að heilsufarsleg áhætta fylgi starfinu.

Stór samantekt birt nýlega
Nýlega voru birtar niðurstöður samantektar um tíðni krabbameins hjá myndgreiningarfólki fyrr og nú, unnar af Shinji Yoshinaga og samstarfsmönnum hans, þar sem farið var yfir faraldsfræðilegar rannsóknir sem tóku til yfir 270 000 röntgenlækna og geislafræðinga víða um heim. Niðurstaðan var í örstuttu máli sú að starfsmenn sem byrjuðu í myndgreiningargeiranum fyrir árið 1950 áttu mun frekar á hættu að fá krabbamein en almenningur á sama tíma en í dag bendir ekkert til þess að krabbamein sé algengara hjá myndgreiningarfólki en öðrum þjóðfélagsþegnum. 

Niðurstöðurnar voru birtar í vefútgáfu tímaritsins „Radiology“, þann 16. september síðastliðinn, áður en nokkuð birtist á prenti um þetta efni, og ágrip af þeim er aðgengilegt án áskriftar.
Einnig birtist grein um þetta hjá Minnu frænku (Auntminnie.com) þann 21.09.04
(Munið að notandanafn hjá Minnu frænku er ókeypis og skráning einföld)

Fleiri fá niðurstöður í svipuðum dúr
Félag bandarískra geislafræðinga (ARRT) ásamt „National Cancer Institute“ og háskólanum í Minnesota hefur allt frá árinu 1982  verið með stóra rannsókn í gangi á tíðni krabbameins hjá geislafræðingum þar í landi. Upplýsingar um þessa rannsókn er að finna á vefsetrinu radtechstudy.org og virðist í fljótu bragði vera það sama uppi á teningnum og hjá Yoshinaga og félögum, heilsufarsáhættan var raunveruleg fyrir áratugum síðan en ekkert bendir til þess að svo sé hvað varðar myndgreiningarfólk nútímans. 

Ekki í meiri hættu en aðrir
Við ættum því að geta svarað spurningum um sérstaka krabbameinshættu í starfinu neitandi og notað tækifærið til að minnka geislahræðslu almennings.

04.10.04 Edda Aradóttir. edda@raforninn.is    

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *