Könnun á hugmyndum fólks innan EU um sjúklingaöryggi

Öryggi sjúklinga verður áfram í fókus hjá okkur og í framhaldi af greininni Hættur í heilbrigðiskerfinu viljum við nú benda á skýrslu sem er nýbúið að birta á vefsíðu Evrópusambandsins. Hún fjallar um könnun sem gerð var í september og október sl. á þekkingu og hugmyndum fólks innan sambandsins varðandi sjúklingaöryggi. 

Helmingur svarenda telur skaða líklegan
Það fyrsta sem sló mig í niðurstöðum könnunarinnar var að helmingur aðspurðra valdi svarmöguleikann „frekar líklegt“ þegar spurt var hvort fólk teldi líklegt eða ólíklegt að það gæti orðið fyrir skaða innan heilbrigðiskerfisins. Það er mun hærra hlutfall en ég bjóst við og vakti hjá mér þá spurningu hvort heilbrigðisstarfsmenn hafi ranga mynd af hugmyndum almennings um heilbrigðiskerfið. Ekki er að efa það að nær allir heilbrigðisstarfsmenn vilja gera sitt besta og ég þori að fullyrða að enginn vill valda sjúklingi skaða. Það er því rökrétt, þegar betur er að gáð, að fólk sem vinnur í þessu umhverfi, sinnir vinnunni sinni af bestu getu og horfir á aðra gera slíkt hið sama, komi síður auga á skipulagsgallana sem gera heilbrigðiskerfið hættulegt.

Fæstir tilkynna skaða sem þeir verða fyrir
Rúmlega 25% svarenda játuðu því að þeir sjálfir eða einhver innan fjölskyldu þeirra hefði orðið fyrir skaða í heilbrigðiskerfinu. Miðað við niðurstöður „To Err is Human“ og tölur Evrópusambandsins um fjölda sjúklinga sem verða fyrir skaða innan sjúkrahúsa kemur það ekki á óvart. Hinsvegar höfðu aðeins 28% af þeim sem töldu sig hafa orðið fyrir skaða tilkynnt hann eða leitað skýringa. Leiddar eru líkur að því í skýrslunni að þetta komi m.a. til af því að fólk veit ekki hvert það á að leita. Nærri 30% aðspurðra vissu t.d. ekki hvaða stofnun bæri ábyrgð á sjúklingaöryggi í heimalandi þeirra.

Sjónvarpið er áhrifaríkasti miðillinn
Í skýrslunni er undirstrikað mikilvægi þess að dreifa upplýsingum og leiðbeiningum um hvernig best sé að bregðast við telji fólk sig hafa orðið fyrir einhverskonar skaða innan heilbrigðiskerfisins. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er líklegast að sjónvarpsauglýsingar eða -þættir mundu ná athygli flestra því 73% aðspurðra nefndu sjónvarpið þegar spurt var hvaðan fólk hefði þekkingu sína á sjúklingaöryggi.
Ég vona í örvæntingu að stærri hluti þeirrar þekkingar sé kominn úr fræðsluefni og ábyrgum fréttum heldur en þáttum eins og Bráðavaktinni og House eða æsifréttamennsku!

Starfsfólkið skiptir mestu máli
Þegar fólk var beðið að velja það sem því fyndist mikilvægast í góðri heilbrigðisþjónustu völdu flestir (52%) vel menntað og þjálfað starfsfólk. Næst á eftir kom áhrifarík meðferð, sem 39% völdu, en u.þ.b. 28% aðspurðra nefndu enga biðlista, nútíma tækjabúnað og virðingu fyrir sjúklingnum. 
 
Mikill munur milli landa
Ríki innan Evrópusambandsins eru ákaflega misvel á vegi stödd hvað varðar efnahag og stjórnkerfi. Það kom mér því ekki á óvart að þekking og skoðanir almennings á sjúklingaöryggi eru mjög mismunandi eftir löndum. Þannig telur fólk í Búlgaríu, Póllandi, Grikklandi, Ungverjalandi, Lettlandi og Litháen mun líklegra að það verði fyrir skaða í heilbrigðiskerfinu heldur en þeir sem búa í Austurríki, Finnlandi, Frakklandi, Þýskalandi eða Svíþjóð. 

Mikill munur milli þjóðfélagshópa
Mér fannst hinsvegar mjög athyglisvert að sjá mun á svörum eftir því hvaða atvinnu fólk stundaði, hversu langa skólagöngu það átti að baki og hvort það var í fjárhagserfiðleikum. Á heildina litið má segja að þeir sem eru lítið menntaðir og/eða standa illa fjárhagslega beri minna traust til heilbrigðiskerfisins, séu ólíklegri til að tilkynna ef þeir verða fyrir skaða en líklegri til að leita beint til lögfræðinga ef þeir ákveða að bregðast við skaðanum.
Því miður kemur ekki á óvart að þeir sem betur eru settir í þjóðfélaginu fái betri heilbrigðisþjónustu. Ekki heldur að þeir sem minna mega sín reikni með að þurfa harðari sókn eftir rétti sínum en hinir. Sorglegt en satt. 

03.05.10 Edda Aradóttir ea@ro.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *