Klínískar leiðbeiningar f. myndgreiningu

 
Kynning á nýjum klínískum leiðbeiningum í myndgreiningu:

Á vef Landlæknisembættisins segir: “Klínískar leiðbeiningar (clinical guidelines) eru kerfisbundnar leiðbeiningar (ekki fyrirmæli) um ákvarðanir sem lúta að klínískum vandamálum í læknisfræði. Þær taka mið af bestu þekkingu á hverjum tíma og eru lagðar fram í því skyni að veita sem besta meðferð með sem minnstri áhættu án óhóflegs kostnaðar”. Embættið hefur haft forgöngu um klínískar leiðbeiningar af ýmsu tagi. Til er nefnd á Landspítala Háskólasjúkrahúsi um gerð klínískra leiðbeininga.

Fyrir alllöngu síðan eða nokkrum árum var settur á laggirnar vinnuhópur
og í hann tilkvaddir bæði röntgenlæknar og heimilislæknar. Verkefni þessa hóps var að semja klínískar leiðbeiningar fyrir röntgengreiningu.
Ásmundur Brekkan, prófessor, var formaður hópsins. Mjög var litið til sambærilegra leiðbeiningar er gefnar hafa verið út af breska læknafélaginu 1998 við samningu hinna íslensku leiðbeininga, en þær litu dagsins ljós á neti Landlæknisembættisins 11. september 2000.

Eðli svona leiðbeininga er að sjálfsögðu það að þær þarf stöðugt að uppfæra og endurnýja. Fram kom beiðni af hálfu Landlæknisembættisins og formanns verkefnisins (upphafsleiðbeingarnar) að verkefni þetta skyldi í framtíðinni vera í höndum Félags íslenskra röntgenlækna. Ábyrgð gagnvart leiðbeiningunum er því nú í höndum félagsins.
Verandi í stjórn FÍR fékk ég því það verkefni að hafa umsjón með þessari endurskoðun. Sú vinna er að sjálfsögðu í höndum fleiri aðila sem tengjast starfsemi röntgendeilda almennt og sérsviða innan fagsins. Leiðbeiningarnar skiptast í kafla I og II. Fyrri kaflinn er almennur og þar fjallað um eðli myndgreiningar, aðferðir og tæki, kostnað og geislavarnir. Síðari kaflinn er sértækur og tekur til einstakra rannsókna, skýringa á þeim og ábendinga.

Vegna geislavarnarsjónarmiða í læknisfræði var meðlimum í Evrópusambandinu gert að búa til klínískar leiðbeiningar í myndgreiningu: “Referral guidelines criteria for imaging adapted by the European Commission and experts representing European Radiology and Nuclear Medicine”. Þær leiðbeiningar eru byggðar á grunni þeirra bresku (The Royal College of Radiologists), en þó verulega endurbættar og margir kaflar endurgerðir.

Við endurgerð þeirra íslensku voru þessar leiðbeiningar mjög svo hafðar til hliðsjónar auk annars efniviðar. Að öðru leyti vísa ég í leiðbeiningarnar sjálfar sem er að finna bæði á neti Landspítala og Landlæknisembættisins.

Með kveðju:

24. nóvember 2003, Kolbrún Benediktsdóttir formaður Félags íslenskra röntgenlækna.


    

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *