Kjarabarátta lækna.

Læknar hafa verið samningslausir síðan í mars síðastliðnum og Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir samninga ekki takast vegna þess að læknar vilji ekki taka á sig kjaraskerðingu. Læknar sem starfa hjá ríkinu séu einfaldlega launþegar og einokunaraðstaða ríkisins geri fólki erfitt fyrir.

Fólk vill geta lifað af grunnlaunum.
Tilboð og gagntilboð hafa verið í gangi milli lækna og ríkisins, t.d. bauð ríkið 3% hækkun á yfirvinnutaxta þegar læknar neituðu að ganga að tilboði um fasta krónutöluhækkun (20.300 kr.). Birna bendir á að viðhorf fólks til vinnu hafi verið að breytast og fæstir séu sáttir við að vinna allan sólarhringinn til að ná mannsæmandi launum. Fólk vilji hafa val um hvort það vinni eins og vitlaust, t.d. til að afla meiri tekna um einhvern ákveðinn tíma, eða eigi sér líf utan vinnu. Þessari viðhorfsbreytingu fylgi krafa um að grunnlaun dugi til lífsviðurværis. 

Ákveðinn taxti fyrir hvert ár í háskólanámi?
Birna veltir upp þeirri spurningu hvort ekki ætti að vera ákveðinn launataxti fyrir hvert ár sem fólk hefur stundað háskólanám. Hún er þeirrar skoðunar að ekki eigi að skipta máli hvað fólk lærir, hvort sem það er franska, ljósmóðurfræði, lögfræði eða læknisfræði. Háskólanám sem er metið jafngilt, t.d. skv. lánareglum Lánasjóðs Íslenskra námsmanna, hljóti að kosta námsmanninn jafnmikla vinnu og peninga, sama hvaða grein hann leggur stund á. Þannig eigi fólk að geta gengið að ákveðnum taxta, í samræmi við árafjölda í háskóla, þegar það kemur út á vinnumarkaðinn en síðan sjái kröfur vinnumarkaðarins um frekari launabreytingar. 

Læknar læra í fleiri ár en aðrir.
Margir sem koma úr háskólanámi, Birna nefnir þann sem hefur lært frönsku og uppeldis- og kennslufræði sem dæmi, hefja strax störf sem fullnuma sérfræðingar með ábyrgð á eigin símenntun. Læknir verður hinsvegar að byrja á eins árs sértækri starfsþjálfun áður en hann fær lækningaleyfi og eftir það fara nær allir læknar í sérhæft starfsnám á viðurkenndum stöðum og það nám tekur 5 – 7 ár í viðbót. Birnu finnst eðlilegt að læknar fái laun í samræmi við þennan fjölda námsára. 

Einokunaraðstaða ríkisins.
Birna bendir á að flöt krónutöluhækkun launa þýði einfaldlega að þeir sem séu búinir að vinna lengst og mest beri minnst úr býtum. Langtum flestir læknar hafi mest af launum sínum beint frá ríkinu og iðulega sé sett svo mikil vinna á þá að engin leið sé að ljúka fyrirliggjandi verkefnum á dagvinnutíma, manneskja sem sé við vinnu á skurðstofu allan daginn hafi t.d. ekki tíma til að skrifa vottorð og læknabréf, skipuleggja vinnu næsta dags eða svara erindum sem berist í gegnum síma. Margir læknar bregði því á það örþrifaráð, til að geta veitt sjúklingum sínum eðlilega þjónustu, að vinna 1 – 2 klst. yfirvinnu dag hvern þó þeir fái hana ekki borgaða. Birna leggur áherslu á að ef um annann vinnustað væri að ræða viðgengist ekki að koma svona fram við launþega en einokunaraðstaða ríkisins geri allar samningaviðræður erfiðar. 

Nauðsynlegt að grípa til aðgerða.
Birna segir að til séu dæmi um að læknar hafi farið í harðar aðgerðir til að ná fram ásættanlegum kjarasamningum en stefnan núna hafi verið sú að ná samningum fram á vor, án vandræða. Hún segir hinsvegar meiri hug í læknum núna en hún viti dæmi um áður og ef ekki berist ásættanlegt samningstilboð frá ríkinu á næsta samningafundi, sem boðaður hefur verið 1. október næstkomandi, aukist líkurnar á að farið verði í harðar aðgerðir strax.

Læknar leika sér ekki að mannslífum.

Birna vill láta koma skýrt fram að læknar muni alltaf sinna skyldum sínum og finnist sjálfsagt að á þeim hvíli ríkari skylda en öðrum um vinnu í verkföllum og við aðrar óvenjulegar aðstæður. Enginn vilji leika sér að mannslífum og allra síst læknar. 

Skrifað eftir samtali við Birnu Jónsdóttur.
22.09.08 Edda Aradóttir
edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *