KÍ fólk á Akureyri – maí 2004


Heimsókn starfsfólks röntgendeildar K.Í. til Akureyrar

Fimmtudaginn 13. maí, kl. 16:00 var loksins lagt af stað í langþráða ferð til Akureyrar. Undirbúningur hafði staðið lengi yfir og allir orðnir fullir tilhlökkunar. Fyrir dyrum stóð að heimsækja röntgendeildina á F.S.A. og svo að sletta aðeins úr klaufunum og skoða okkur um á Norðurlandi.
Ferðalangarnir voru 10 talsins og var ekið á einkabílum. Ferðin sóttist vel norður, stoppað á nokkrum stöðum til að rétta úr sér og tímajafna (sumir keyra hraðar en aðrir!). Upphaflega var áætlunin að snæða kvöldverð í Varmahlíð en þegar þangað kom leist okkur ekki betur en svo á matseðilinn að við ákváðum að bruna á Akureyri og vita hvort ekki væri betri viðgjörningur þar. Við komuna á Akureyri byrjuðum við á því að ná í lykla að íbúðunum sem við ætluðum að gista í og fengum okkur svo kvöldverð á La vita é bella sem er ítalskur veitingastaður (eins og nafnið gefur til kynna) í hjarta Akureyrar. Þar fengum við bæði afbragðs þjónustu og ljúffengan mat. Eftir það var haldið í Furulund 10 sem var samastaður okkar næstu fjórar nætur.

Föstudagurinn rann upp með dumbungsveðri og ekkert bólaði á 17 stiga hitanum sem veðurstofan hafði spáð fyrr í vikunni. Þetta kom þó ekki í veg fyrir að sótt var dýrindis brauð í bakaríið og allir snæddu saman góðan morgunverð.

#img 1 #Við mættum á sjúkrahúsið kl. 09:30 og þar tók á móti okkur fríður flokkur sem sýndi okkur aðstöðuna á röntgendeildinni og gaf okkur svo svolítið meira að borða. Allir voru sammála um að deildin er sérlega vel skipulögð og góð vinnuaðstaða í alla staði og þar sem eitthvað vantaði á stóðu yfir breytingar til betri vegar.
Næstu klukkutímana hlýddum við á áhugaverða fyrirlestra frá báðum stöðum. Pedró Riba og Björn Sigurðsson fræddu okkur um upphaf myndatöku á Akureyri, Bryndís Eysteinsdóttir lýsti starfseminni hjá K.Í., Börkur Aðalsteinsson ræddi vítt og breitt um gæðamál í brjóstamyndatöku og Baldur kynnti niðurstöður og árangur úr hópskoðun. Allt voru þetta mjög fræðandi og áhugaverðir fyrirlestrar, ekki síst erindi Björns um upphaf röntgenrannsókna á Akureyri.
Þegar fyrirlestrunum var lokið fengum við skoðunarferð um sjúkrahúsið og skoðuðum m.a. slysadeildina og barnadeildina sem er sérlega falleg og svo skemmtilega vildi til að ekkert barn lá þar inni þegar við komum.
Að þessu loknu var svo frjáls tími fram að kvöldmat og fór hver í sína áttina.

Kl. 18:00 kom hópurinn saman á ný í fordrykk og spjall fyrir kvöldverðinn sem skyldi snæddur á Friðrik V (fimmta). Þar bar margt á góma, ástandið í stjórnmálum á Íslandi, brúðkaup Friðriks danaprins og þar fram eftir götunum.
Hjá Friðrik V var vel tekið á móti okkur. Maturinn var ljúffengur og þjónustan góð. Höfðu það margir á orði að hafa sjaldan eða aldrei smakkað jafn gott nautakjöt. Þarna sátum við svo fram undir miðnætti og spjölluðum saman yfir matnum en þá fór að síga svefn á brá hjá sumum og fólk fór að tínast heim í bólið enda langur dagur framundan á laugardeginum.

Laugardaginn 15. maí var haldið snemma dags út Eyjafjörð og stefnan sett á Hrísey. Fyrst skoðuðum við þó byggðasafnið á Dalvík en þar er m.a. stofa Jóhanns Risa. Þar var margt merkilegra muna að sjá og hreint ótrúlegt að sjá t.d. skó og hringi Jóhanns.
Undir hádegið lá svo leið okkar út í Hrísey þar sem snæddur var léttur hádegisverður. Í Hrísey er gaman að koma og margt sérstakt þar og öðru vísi en í landi. T.d. ferðast Hríseyingar mest um á dráttarvélum og reiðhjólum og flestar götur eru steinlagðar en ekki malbikaðar. Frá Hrísey héldum við svo inn í Hrafnagil og skoðuðum Jólahúsið og
#img 2 #ekki er hægt að segja annað en að það hafi verið undarlegt að fara inn úr vorblíðunni inn í hangikjötslykt og jólatónlist.
Um kvöldið var svo vínsmökkun á la Börkur og eftir það snæddum við pítsu og horfðum á Evróvision. Eins og gefur að skilja voru fjörug skoðanaskipti um gæði laga og úrslitin. Það var þó allt í góðu og engin slagsmál. Allir fóru svo snemma í bólið því það var ræs kl. 07:00 á sunnudaginn.

Þegar búið var að ræsta íbúðirnar í Furulundinum á sunnudagsmorgun og borða morgunverð var lagt af stað og var næsti
#img 3 #viðkomustaður Drangey á Skagafirði. Þangað komumst við heilu og höldnu undir handleiðslu Jóns Drangeyjarjarls og sonar hans Kolbeins. Aðkoman að eyjunni hafði skemmst mikið í vetrarveðrunum og var að sögn kunnugra óvenju slæm. Þó fóru flestir alla leið upp og niður aftur og voru sammála um að þetta hefði verið hápunktur ferðarinnar.

Nú var degi tekið að halla og komið að því að halda heim á leið. Eitt er víst að þessi ferð verður okkur sem hana fórum ógleymanleg fyrir margar sakir. Ekki bara kynntumst við kollegunum á Akureyri og hlýddum á fróðleg erindi heldur kynntumst við hvert öðru betur og undir öðrum formerkjum en við dagleg störf á vinnustað. Minningarnar úr þessari ferð eiga eftir að ylja okkur lengi og við munum skemmta okkur við að rifja upp atvik úr ferðalaginu um ókomna tíð. Við viljum líka þakka Hólmfríði og öllu hennar fólki á F.S.A. fyrir höfðinglegar móttökur í alla staði og að hjálpa okkur að gera þessa ferð að veruleika því án þeirra hjálpar hefði hún ekki orðið.
 
Bestu kveðjur.
Starfsfólk röntgendeildar Krabbameinsfélags Íslands. 
   

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *