Keila og aftur keila


Elstu hlutir sem minna á keilu (Bowling) fundust í gröf egypsks barns sem jarðað var um 5200 árum fyrir Krist. Einnig hafa Pólýnesar iðkað keimlíkan leik í aldaraðir en nútíma keila mun hafa þróast út frá þýskri trúarathöfn.

Úr kirkjunum í krárnar

#img 1 #Á þriðju öld fyrir Krist bar hver einasti bóndakarl í Þýskalandi hefðbundna kylfu sem kallaðist Kegel. Þjóðfélagið var víst ekki sérlega siðmenntað og öruggara að geta rotað mann og annan ef þörf krafði. Prestar fundu upp á því að láta menn stilla Kegel kylfu sinni upp innan við dyr sóknarkirkunnar og mátu síðan syndabyrði og Guðsótta hvers og eins út frá því hvort hann gat fellt Kegel sína með steini sem velt var fram kirkjugólfið.
Sá sem hitti vel var talinn Guðs lamb og syndlaus með öllu. Þetta má auðveldlega yfirfæra á helstu snillinga í Geislakeilu og telja þá afbragð annarra manna (og kvenna).
Keilan færðist svo út úr kirkjunum og varð vinsæll útileikur þar sem notuð var trékúla og þrjár til sautján keilur komu í stað Kegel kylfunnar. Frá Þýskalandi barst leikurinn til Austurríkis, Spánar, Sviss, Belgíu og Hollands og þróaðist í innanhússkeppni á brautum úr tré eða sólbökuðum leir. Í Þýskalandi kölluðust þessir staðir Kegelbahn og bar eða krá var ómissandi viðbót.

Þróun leiksins
Áfram valt keilukúlan út um Evrópu og barst til Ameríku með hollenskum innflytjendum, um 1650. Þeir spiluðu “nine-pin” þar sem kúlunni var velt eftir mjög löngum, breiðum
#img 2 #planka og takmarkið var að hitta níu háar og mjóar keilur sem var raðað í tígul. Líklegt er talið að útgáfa með tíu keilum og annarri uppröðun, lík þeirri sem notuð er í Geislakeilunni, hafi þróast út frá hinni hollensku “nine-pin” keilu.
Gildu flöskulaga keilurnar voru fundnar upp um 1850, til að bæta möguleikana og hækka skorið. Nú á tímum er til afbrigði af keilu sem kallast “Candlestick Bowling” þar sem notaðar eru mjórri og hærri keilur.

Samtök og reglur
Fyrstu samtök keiluklúbba (National Bowling Association) voru stofnuð í Ameríku árið
#img 3 #1875 og tilgangur þeirra var að setja staðlaðar reglur og útrýma veðmálum í tengslum við keilukeppnir. Þessi samtök urðu skammlíf en grunnreglur keilu byggja að lang mestu leyti á reglum sem þau settu. Önnur samtök fylgdu í kjölfarið og með hækkandi verðlaunafé heyrðu veðmál að mestu sögunni til. Það var eitt af því sem hóf keilu til vegs og virðingar en lengi vel var hún litin sömu augum og fjárhættuspil, þ.e. ekki talin við hæfi siðprúðs fólks.
Um aldamótin 1900 var keila loks talin nógu sómasamleg til að konur gætu tekið þátt í leiknum án þess að sverta mannorð sitt fyrir lífstíð og fyrstu samtök keilu-kvenna voru stofnuð 1916.

Alþjóðleg íþrótt
#img 4 #

Keilukúlan valt í hring og lenti aftur í Evrópu upp úr 1900. Svíar voru fyrstir til að taka upp Amerísku “ten-pin” útgáfuna. Norðmenn, Danir, Finnar, Þjóðverjar og Hollendingar fylgdu í kjölfarið og þessar sex þjóðir, ásamt Bandaríkjamönnum, stofnuðu fyrstu alþjóða keilusamtökin (the International Bowling Association) árið 1926. Bretar fengu keilu í bónus með síðari heimsstyrjöldinni en stríðsátök voru ekki nauðsynleg til að dreifa íþróttinni, hún barst víða og er enn í sókn. Talið er að yfir 100 milljónir manna í um 90 þjóðlöndum stundi keilu

Keila á Íslandi
Keiluíþróttin fór hægt af stað á Íslandi en ekki er ólíklegt að einhverjir hafi kynnst henni í tengslum við herstöðina í Keflavík. Með tilkomu Keiluhallarinnar í Öskjuhlíð, árið 1985, varð til grundvöllur fyrir markvissa keiluiðkun og nú er til viðbótar kominn keilusalurinn  Keila í Mjódd, og Keilusalurinn Akranesi er einnig mörgum að góðu kunnur. Vönduð vefsíða, keila.is, sem haldið er úti af áhugamönnum opnar leiðir að mörgu um keilu á Íslandi.

Áhugamönnum um Geislakeilu er til gamans bent á eftirfarandi vefsíður:

Skilgreining á íþróttinni: http://en.wikipedia.org/wiki/Bowling

Myndskeið: http://ourworld.compuserve.com/homepages/kennmelvin/kVideo.htm

Góð ráð: http://www.gonebowlin.com/timstips.html 

27.02.06 Edda Aradóttir  edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *