Jóla-ljósa-fókus

 
Jólin eru oft kölluð hátíð ljóssins og hjá þeim sem lifa í tækniheimi, eins og myndgreiningarfólk gerir, tengist ljósið að sjálfsögðu rafmagni, perum, leiðslum og tölvum! Þegar allt þetta kemur saman getur árangurinn orðið afar skemmtilegur.

Ljós og alvöru ljós

#img 1 #Það er hverjum manni hollt að bæta sífellt við þekkingu sína og á þessum árstíma er upplagt að læra dálítið um sögu ljólaljósanna og hvernig þau virka.
Undanfarar rafmagnsljósanna voru að sjálfsögðu kertin en sem sannir tæknimenn höfum við engan áhuga á þeim. Það mætti svosem velta ögn fyrir sér eðlis- og efnafræði í sambandi við bruna, árangri af mismunandi efnum í kveik og bera saman ýmsa eiginleika tólgar, bývax og stearínkerta en við skulum bara vinda okkur strax í alvöru ljós! 

Jólaljós frá tímum Edisons

Það var um miðja nítjándu öld sem rafmagn varð nógu aðgengilegt til að farið væri að nota rafljós til skrauts og yndisauka. Fyrsti maðurinn sem vitað er til að hafi skreytt jólatré heimilisins með rafljósum var Edward H. Johnson, viðskiptafélagi Thomas Edison, sem lét sérsmíða fyrir sig perur til þessara nota og
#img 2 #dundaði sér svo við að tengja víra þar til 80 rauð, hvít og blá ljós voru komin á tréð.
Fyrstu fjöldaframleiddu jólaseríurnar komu á markað um aldamótin 1900 og það er General Electric sem getur státað af að hafa framleitt þær.
Þetta og margt fleira má lesa um í Wikipediu og fyrir þá sem þyrstir í meira um tæknina að baki ljólaljósunum er til önnur grein á sama vefsetri, auk þess sem upplýsingar á HowStuffWorks standa alltaf fyrir sínu. 

Ljós og orka

#img 3 #Lengi vel voru rafmagnsljós til jólaskreytinga ekkert sem almúginn hafði efni á en á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum voru þau þó orðin algengari en kertaljósin um 1930. Reikna má með að Íslendingar hafi byrjað að nota rafmagns-jólaljós fljótt eftir að önnur raflýsing varð algeng hérlendis, þ.e. um 1940, en fjárhagur og búseta væntanlega ráðið miklu um útbreiðslu þeirra.
Enn óar sumum við rafmagnsreikningnum eftir hátíðirnar þó nútíma jólaljós séu stórum sparneytnari en gömlu glóðarperurnar. Díóðuljósin (LED) verða sífellt algengari og þau nota aðeins brotabrot af þeirri orku sem aðrar gerðir þurfa. Úti í heimi láta einhverjir snillingar jólaljósin ganga fyrir sólarorku en þar sem dagsbirtan á Íslandi um jólaleytið spannar aðeins um fjórar klukkustundir og sólin nær varla, eða ekki, að kíkja upp fyrir fjallstindana er hætt við að það gæti gengið illa hjá okkur. 

Ljós föndur og leikir
#img 4 #
Sannir tæknimenn vilja að sjálfsögðu gera græjurnar sínar jólalegar og það er hægt að sameina skemmtilegu jólaföndri… að setja saman sína eigin USB tengdu jólaseríu!!
Fleira skemmtilegt er til fyrir tækniföndrara,  til dæmis teikning af pínulitlu jólatré úr LED ljósum og „kubbabatteríi“.
Jólaljós og tölvuleikir geta líka farið afskaplega vel saman, til dæmis ef maður tengir allar mörgþúsundogeitthvað perurnar á húsinu sínu við Guitar Hero.

Tónlist, tölvur og margar perur

#img 5 #Síðast en ekki síst er verðugt verkefni fyrir íslenska tækninörda að gera jólaljósin utan á húsum sínum að tölvustýrðum hátækni jóla-ljósasýningum með dúndrandi tónlist, eins og kollegar þeirra erlendis eru að dunda sér við. Í einni af þeim rosalegri sér Trans-Siberian Orchestra um undirspilið en önnur, nokkuð ólík, blikkar í takt við teknó útgáfu af Amazing Grace!


Gleðileg jól!
21.12.10 Edda Aradóttir
edda@raforninn.is  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *