ISMRM 2005


Segulómun sækir fram

#img 1 #Nú í byrjun maímánaðar fóru þrír starfsmenn myndgreiningardeildar FSA, geislafræðingarnir Elvar Örn Birgisson og Fanney Harðardóttir ásamt Orra Einarssyni röntgenlækni, á ráðstefnu í segulómun sem haldin var á Miami í Bandaríkjunum. Ráðstefna þessi er á vegum ISMRM (International Society for Magnetic Resonance in Medicine).
Langar mig að stikla á stóru og segja frá því helsta sem fyrir augu bar og þá sérstaklega þróun æðarannsókna í segulómun.

Fjölmenn ráðstefna
Ráðstefnunni má líkja eilítið við RSNA ráðstefnuna nema hvað þessi er eingöngu tengd segulómun. Ráðstefnu þessa sóttu um 5000 manns víðsvegar að úr heiminum. Þar helst voru röntgenlæknar, eðlisfræðingar, geislafræðingar og nemar. Persónulega fannst mér ráðstefnan um of ætluð eðlisfræðingum er vinna við segulómun og til að mynda var nánast ekki hægt að fara á fyrirlestur án þess að fjallað væri um K-space á u.þ.b. 5 mínútna fresti, en hvað með það, hægt var að fá allgóða mynd af því hvaða rannsóknaraðferðir væru í mestri þróun og einnig hvers megi vænta í náinni framtíð.

Æðarannsóknir í örri þróun
Mikil þróun á sér stað í gerð æðarannsókna í segulómun. Í nýjustu segulómtækjum eru æðarannsóknir orðnar allgóðar, en þó er enn ýmislegt sem hægt er þar að bæta. Í dag eru æðarannsóknir af stóru svæði gerðar með því að mynda eitt svæði (um 50cm) og síðan bekkur færður og næsta svæði myndað. Af því leiðir að samskeyti myndast sem stundum er erfitt að skeyta saman og þetta tekur nokkurn tíma svo stundum getur reynst erfitt að mynda t.d. kálfasvæði án þess að fá venufyllingu, þar sem jú allt svæðið þarf að mynda eftir eina gjöf hefðbundins gadolinium-skuggaefnis.

Betri skuggaefni
Fyrir það fyrsta er nú verið að þróa skuggaefni (kallað Blood-Pool skuggaefni) sem helst miklu lengur í slagæðakerfinu sem leyfir manni t.a.m. að hafa voxelin minni og auka þar með upplausn rannsóknar. Einnig má endurtaka rannsókn strax ef hún mistekst í fyrri tilraun, ólíkt með hefðbundnu gadolinium skuggaefni.
Einnig er verið að vinna að því að gera æðarannsókn í segulómun þannig að bekkur færist jafn og þétt meðan myndað er, líkt og í tölvusneiðmyndum, þannig verður rannsóknin án samskeyta. 

Upphaf rannsóknar og bekkfærsla
Góðar aðferðir eru til í dag til að ákvarða hvenær byrja eigi rannsókn (t.d. Bolus Chase), en það er gert með rauntímamyndatöku af því þegar skuggaefnið nær til upphafssvæðis. Erfitt getur þó verið að sjá fyrir hversu hratt flæðið er niður ganglimi. Því er verið að þróa hugbúnað sem greinir hvar skuggaefnið er á hvaða tíma og hagar hraða á bekkfærslu eftir því. Um þetta fjallaði einn fyrirlesturinn og þótti hann einkar áhugaverður en þó voru þar enn nokkur vandamál sem voru óleyst. Án efa mun þessi hugbúnaður sjást í náinni framtíð.
Innan skamms ætti því að fást samskeytalaus total-body æðarannsókn með góðri æðafyllingu í góðri upplausn. Eitthvað segir mér þó að þetta verði nú ekki alveg svona einfalt, en hver veit. 

Liðarannsóknir með skuggaefni 
Segulómrannsóknir á liðum með skuggaefni í lið (MR arhtrography) virðist vera að ryðja sér æ meira til rúms, skv. nokkrum fyrirlesurum ráðstefnunnar. Helst var þó fjallað um MR arhrography af öxl og sýnt var fram á allmörg dæmi þar sem þessi rannsóknaraðferð einfaldaði greiningu á hinum ýmsu rifum liðbanda á þessu svæði, eða sýndi jafnvel rifu sem ekki sást án skuggaefnis i lið. Einnig var fjallað um uppstillingu sjúklings þar sem superman stelling virtist gefa góða raun í rannsókn á öxl með skuggaefni í lið.

Takk fyrir
23.05.05 Elvar Örn Birgisson B.Sc.
 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *