Ísland og geislaálag í CT

Fyrir skömmu birtist býsna hrollvekjandi grein í New York Times, þar sem fjallað er um alvarlega ofskömmtun geislunar, víða í Bandaríkjunum, við CT blóðflæðisskönn af heila. Þessi tegund rannsókna er ekki gerð hérlendis en samt sem áður er stærsti hluti geislaálags á sjúklinga af völdum tölvusneiðmyndatöku. Hvernig skyldi vera fylgst með slíku geislaálagi á Íslandi?

Geislasóðaskapur fram í dagsljósið
Greinar í svipuðum dúr og fyrrnefnd grein í NYT hafa verið að birtast í Bandaríkjunum sl. tvö ár eða svo, eftir því sem sífellt fleiri dæmi um geislasóðaskap koma upp á yfirborðið. Notkun tölvusneiðmyndatækja hefur aukist gríðarlega á tiltölulega stuttum tíma og því má gera því skóna að ofskömmtunartilfellum hafi fjölgað í samræmi við það. Það er hinsvegar ólíklegt að þetta þýði að hlutfall slíkra tilvika hafi hækkað svona mikið undanfarin ár, heldur er málið einmitt að þau koma upp á yfirborðið í stað þess að enginn viti af þeim og það eru svo sannarlega jákvæðar fréttir fyrir alla sem er annt um öryggi sjúklinga.

Frumvarp til laga um geislavarnir sjúklinga í Kaliforníu
Eitt af þeim dæmum sem hratt umræðunni í Bandaríkjunum af stað gerðist í Kaliforníuríki og þar hefur nú verið lagt fram frumvarp til laga um geislavarnir sjúklinga en frétt um það birtist nýlega í veftímaritinu Diagnostic Imaging. Eftir er að vita hvort frumvarpið verður að lögum en ef svo fer má reikna með að það hafi mikið fordæmisgildi við lagasetningu í öðrum ríkjum og jafnvel utan Bandaríkjanna.

Góður árangur af fræðslu í Ástralíu
Ástralir standa mjög framarlega varðandi sjúklingaöryggi og önnur gæðamál í myndgreiningu. Samtök þarlendra röntgenlækna og kollega þeirra á Nýja Sjálandi (RANZCR) stóðu á þessu ári fyrir vinnustofu (workshop) þar sem einn geislafræðingur og einn röntgenlæknir frá hverjum af 10 myndgreiningarstöðum í Queensland lærðu aðferðir til að lækka geislaálag í CT. Samanburður á rannsóknum á þessum stöðum fyrir og eftir vinnustofuna sýndi að geislaskammtar við heilarannsóknir fullorðinna lækkuðu um 46% og geislaálag við aðrar rannsóknir um 24 – 29%.

Reikna þarf út geislaskammta
Öll tölvusneiðmyndatæki gefa upplýsingar sem nýta má til að reikna út geislaálag á sjúklinginn sem verið er að rannsaka. Tökugildin, ein og sér, gefa góða vísbendingu en nákvæmari upplýsingar fást með notkun CTDI gildis (CT Dose Index), sem er er geislaskammtur í hverri sneið, eða DLP gildis (Dose Length Product), sem er CTDI gildið margfaldað með lengd geislareitsins (sneiðþykkt x fjöldi sneiða).
Almennt gefa tækin ekki upp útreiknað geislaálag á sjúklinga, í Sievertum (Sv eða mSv). Hann þarf að reikna út og á RSNA ráðstefnunni árið 2008 fjölluðu nokkrir fyrirlesarar um það efni, meðal annars Walter Huda en grein eftir hann birtist í tímaritinu Radiology í september sama ár.

Von á skýrslu um geislaskammta og geislaálag
Hjá Geislavörnum ríkisins fengust þær upplýsingar að stofnuninni sé ekki kunnugt um að starfsfólk fylgist reglubundið með geislaskömmtum sjúklinga í CT á neinum myndgreiningarstað hérlendis. Stofnunin hefur hinsvegar leitað eftir upplýsingum um geislaskammta við myndgreiningarrannsóknir, þar á meðal tölvusneiðmyndatökur, og í vinnslu er skýrsla þar sem meðal annars verður gerð grein fyrir geislaskömmtum og geislaálagi rannsókna. Stefnt er að því að skýrslan komi út fyrir næstu áramót.

Vinnustofa að ástralskri fyrirmynd
Áhugavert væri ef við Íslendingar tækjum kollega okkar hinum megin á hnettinum okkur til fyrirmyndar og héldum vinnustofu fyrir leiðandi myndgreiningarfólk á öllum CT tækjum hérlendis. Hana mætti t.d. halda í samvinnu fagfélaga röntgenlækna og geislafræðinga, Geislavarna ríkisins og Endurmenntunar Háskóla Íslands.
Breytingar mætti svo (vonandi) sjá á næstu skýrslu Geislavarna um geislaskammta og geislaálag.

Ég þakka Guðlaugi Einarssyni og Erni Thorstensen fyrir góðar upplýsingar.
23.08.10 Edda Aradóttir edda@raforninn.is
 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *