Fortíðin verður í fókus þessa vikuna, með áherslu á nýrnarannsókn sem tíðkaðist að gera í aðgerð á LSH á Hringbraut á árunum fyrir 1980. Harpa Ágústsdóttir, geislafræðingur, hefur haldið til haga ýmsu sem tengdist þessari rannsóknategund og ættu þeir munir vel heima á Lækningaminjasafni Íslands.
Filma sett inn í líkama sjúklings
Rannsóknin sem um ræðir var gerð þegar kviðarhol sjúklings hafði verið opnað og var filmu í dauðhreinsuðum umbúðum komið fyrir undir nýranu sem mynda átti, inni í kviðarholinu. Reyndar voru tvær filmur í hverjum poka, þannig að í sömu töku fengust tvær myndir með mismunandi svertu. Myndirnar voru svo framkallaðar á skurðdeildinni og farið með þær um hæl inn á skurðstofuna aftur svo skurðlæknirinn fengi strax upplýsingar um ástand nýrans.
#img 1 #
#img 2 #
Gert í kringum 1990
Harpa hefur í gegnum árin haft mikinn áhuga á gæðamálum og hafði lengi yfirumsjón með öllu sem sneri að rannsóknum utan röntgendeildar á Hringbrautinni. Meðal annars útbjó hún leiðbeiningar fyrir þessa nýrnarannsókn og fékk hver geislafræðingur, eða röntgentæknir/röntgenhjúkrunarfræðingur eins og starfsheitin voru þá, sitt eintak af þeim. Hún segist þó hafa þurft aðstoð eldri samstarfsmanna við gerð leiðbeininganna því sjálf hafi hún aldrei framkvæmt þessa rannsókn.
#img 3 #
Nánari upplýsingar vel þegnar
Áhugavert væri að leita meiri upplýsinga um þessa nýrnarannsókn og setja saman heildstæða umfjöllun um hana fyrir Lækningaminjasafnið. Þetta gæti jafnvel verið eina dæmið um rannsókn þar sem röntgenfilma var sett inn í líkama sjúklings. Ég hvet lesendur Arnartíðinda til að láta vita ef þeir þekkja fleiri dæmi þess og einnig ef þeir geta bætt við upplýsingum um þessa tilteknu rannsókn.
Minnum á flokkinn „Saga myndgreiningar“
Að lokum langar mig að minna á ýmislegt fróðlegt og skemmtilegt sem er að finna í flokknum „Saga myndgreiningar“ hér á raforninn.is.
Þar eru m.a. greinar eftir Gunnlaug Claessen, teknar upp úr Læknablaðinu 1915, talsvert af áhugaverðu efni frá Ásmundi Brekkan, viðtal við Kolbein Kristófersson, tækniupplýsingar um Lysholmsborð og saga Röntgenstofunnar á árunum 1914 – 1931.
Ég þakka Hörpu Ágústsdóttur fyrir góðar móttökur og upplýsingar.
27.09.10 Edda Aradóttir edda@raforninn.is