Ímynd myndgreiningar


Við höldum ímyndinni í fókus, enda er hún aðgangsmiði okkar að framtíðinni. Jákvætt viðhorf og traust annarra er myndgreiningarfólki nauðsyn, því það er grundvöllur afkomu okkar.

Ég hef áður fjallað um ýmislegt svipað, það er að segja mikilvægi þess að kynna fagið, mikilvægi þess að allt myndgreiningarfólk vinni saman að sameiginlegum hagsmunamálum og mikilvægi þess að sýna metnað í starfi.
Það segir sig sjálft að fag sem sárafáir vita að er til getur ekki haft sterka ímynd og einnig að örfáir einstaklingar innan fagsins, með takmarkaða fjármuni, fá litlu áorkað í kynningarmálum. Allra mikilvægast er þó að allt sem gert er marki spor í rétta átt, því dropinn holar steininn.

Vel unnið verk 
Hvað felst í að skila vel unnu verki í myndgreiningu? Þýðir það eingöngu að læknirinn sem bað um rannsóknina fái rétt svar frá röntgenlækninum? Ekki lengur.
Er þá vel unnið verk að rannsóknin taki sem stystan tíma og valdi sjúklingnum sem minnstum óþægindum? Já, það er líka nauðsynlegt. 
Hvað fleira snýst málið þá um?
Jú, það snýst um myndir. Ekki eingöngu þær sem við búum til af sjúklingunum og lesum úr, heldur þá mynd sem sjúklingarnir og allir aðrir fá af okkur og starfseminni.
Það snýst um framkomu og virðingu, því ef við komum fram við aðra af virðingu, berum virðingu fyrir okkur sjálfum og komum fram sem traustir fagmenn þá munu aðrir almennt bera virðingu fyrir starfi okkar og koma fram við okkur í samræmi við það.
Það snýst um að gera hluti sýnilega, ekki eingöngu það sem dylst inni í líkama þeirra sem við erum að rannsaka heldur líka það sem “dylst” inni á myndgreiningareiningunum. Við erum löngu hætt að vinna í myrkrakompum, tækni til myndgreiningar er með því allra fremsta í tölvutækni nútímans, vinnuumhverfi á mörgum myndgreiningarstöðvum er bæði fallegt og hentugt, í faginu vinnur fjölmargt greint, menntað og hæfileikaríkt fólk, myndgreining er óumdeildanlega einn af mikilvægustu þáttum nútíma læknisfræði og þar að auki fjárhagslega hagkvæm fyrir þjóðfélagið. Við höfum alla möguleika á að verða fánaberar í skrúðgöngu heilbrigðisstéttanna!

Raunverulegur metnaður í starfi
Til þess að geta hafið fána myndgreiningarinnar á loft þurfum við að vanda bæði vinnubrögð og framkomu, hvert eitt og einasta okkar, hvaða starfsheiti sem við berum og hvort sem um er að ræða samskipti við sjúklinga, viðskiptavini, samstarfsfólk úr öðrum fagstéttum eða innan myndgreiningarinnar. Stjórnendur þurfa að kunna og beita bestu stjórnunarháttum, því eftir höfðinu dansa limirnir og það dylst engum sem kemur á marga vinnustaði að danstakturinn er býsna misjafn. Einnig er mikilvægt fyrir nýja og betri ímynd myndgreiningar að röntgenlæknar verði sýnilegri og taki meiri þátt í skipulagningu rannsókna þess fólks sem kemur í myndgreiningarrannsóknir, t.d. með því að taka þátt í gerð gæðahandbóka.
Viðhald þekkingar þarf að vera tryggt og vel skipulagt, hvort sem um er að ræða lækna eða geislafræðinga. Ekki er síður mikilvægt að annað starfsfólk, aðstoðarfólk, geislaliðar, ritarar, læknafulltrúar o.s.fr., fái viðeigandi fræðslu og möguleika á að þroskast í starfi.
Siðfræði og einfaldlega almenn kurteisi mættu að mínu mati skipa hærri sess í menntun myndgreiningarfólks, og reyndar annarra líka en það er myndgreiningin sem er til umfjöllunar hér. Það er nauðsynlegt að kenna markvisst viðeigandi framkomu en reikna ekki með að hún verði til af tilviljun.

Markviss kynningarstarfsemi
Orð eru til alls fyrst og ekki sakar ef þau eru á netinu, aðgengileg fyrir hvern sem vill. Það er heilmikið efni um myndgreiningu á veraldarvefnum og nokkrar íslenskar vefsíður snúast um fagið okkar. Sumar myndgreiningareiningar eiga heimasíður, ýmist út af fyrir sig eða sem hluti af stærri einingum, svo sem sjúkrahúsum eða rannsóknastöðvum. Þær eru því miður hvorki allar með góðu efni né einfaldar í notkun, þó sem betur fer sé sumsstaðar verið að skila vel unnu verki. Fagfélög röntgenlækna og geislafræðinga hafa ekki staðið sig vel fram að þessu en vonandi verður hluti Félags geislafræðinga í vefsetri SIGL í framtíðinni góður vettvangur fyrir geislafræðingana. Röntgenlæknarnir þurfa nauðsynlega að gera eitthvað í málunum, auka samheldnina og auglýsa sérgreinina sína.
Upplýsingar tengdar myndgreiningu er einnig að finna hjá Geislavörnum ríkisins, Landlæknisembættinu og á doktor.is, svo eitthvað sé nefnt.
Erlendar vefsíður eru fjölmargar og verða ekki tíundaðar að svo stöddu, slóðir á margar þeirra er að finna í flokkunum „Tenglar“ og „Upplýsingaöflun“ hér á raforninn.is. Eitt vefsetur sem nýlega var opnað til að styrkja ímynd myndgreiningar ætla ég þó að benda á: www.medicalimaging.org. Það er á vegum bandarísku samtakanna NEMA (National Electrical Manufacturers Association) og leggur áherslu á að sýna hversu fjárhagslega hagkvæm myndgreining er fyrir heilbrigðiskerfið. Þar er að finna margar athyglisverðar staðreyndir sem eiga ekki síður við hér á landi. Fyrir skömmu birtist grein á Diagnosticimaging.com sem snýst um NEMA síðuna og þar bendir greinarhöfundur á að þó þetta sé gott framtak þá dugi það skammt til að styrkja og bæta ímynd myndgreiningar, það þurfi herferð með auglýsingum á skiltum, í prentmiðlum og sjónvarpi.

Hugsa sér ef…
Við búum í litlu, opnu samfélagi þar sem framkvæmd auglýsingaherferðar fyrir myndgreiningu ætti ekki að vera svo flókin. Ef maður leyfir sér þann munað að líta framhjá fjármögnunarhliðinni um sinn, mætti hugsa sér að fyrst tækju myndgreiningareiningar, fagfélög og skólar sig á og gerðu vefsíður sínar mjög vel úr garði. Síðan mætti taka saman á eitt sameiginlegt vefsetur einfaldar upplýsingar um myndgreiningu og tengingar við allar þessar sérsíður, ásamt fleiri síðum, innlendum og erlendum, með myndgreiningarupplýsingum. Til að vekja athygli á þessu þyrfti svo að auglýsa vefsetrið rækilega í blöðum, sjónvarpi, á veggspjöldum og öllu prentuðu efni sem tengist myndgreiningu, t.d. bréfsefnum, nafnspjöldum, umslögum, reikningum o.s.fr.

Hvernig líst ykkur á www.isrontgen.is? 

21.06.04 Edda Aradóttir. edda@raforninn.is     

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *