Imaging update in Iceland – Námskeið á vegum New York School of Medicine

Snemma á þessu ári fréttum við í röntgengeiranum að hér stæði til að halda myndarlegt námskeið í greininni. New York School of Medicine hélt þetta námskeið og bauð íslenskum röntgenlæknum sæti á ráðstefnunni eftir því hvað hentaði hverjum og einum. Höfuðáhersla var á segulómun þó einnig væri farið inn á TS rannsóknir.

Mest ekki alltaf best
Ég valdi að hlusta á fimmtudegi en sá dagur byrjaði á fyrirlestri Mark E. Schweitzer um áhrif hinna mismunandi styrkleika segulsviðs í stoðkerfisrannsóknum.
Þetta var áhugavert efni en verður ekki rakið hér frekar að þessu sinni, þó má geta þess að ekki er alltaf best að vera með mesta segulstyrkinn.

Segulómun úlnliðs og handar
Sami fyrirlesari var með fyrirlestur um segulómun á úlnlið og hönd. Þarna kom vel fram að hægt er að hafa nokkuð fasta protocolla varðandi liðsjúkdóma í úlnlið. Hann lagði ríka áherslu á að höndin væri ekki framlenging á úlnlið. Rannsókn á hönd og þumalfingri ætti ævinlega að vera uppsett með hliðsjón af hvaða vandamál er um að ræða hverju sinni.
Úlnliðsrannsókn yrði að innihalda amk þrjá coronal-, einn sagittal og einn axial sequence.
Coronal seq: T1, T2 og PD. Sagittal seq ætti að vera PD en axial gæti verið T2 eða PD
En í höndinni og þumlinum eru protocollar uppsettir eftir því hvort leita eigi að tumorum, liðbreytingum eða öðru.

Til að nálgast greiningu í úlnliðnum væri gott að byrja á að athuga hvort um vökvasafn væri að ræða nokkurs staðar og þá hvar. Hvort vökvi væri í DRU lið, eða radiocarpal liðnum eða intercarpal liðum, þannig gæti maður nálgast greininguna t.d áverka á TFCC (triangular fibrocartilage) fylgir gjarnan vökvi í DRU lið og einnig ulnart í radiocarpal lið. Afturámóti ef vökvi er intercarpalt er meiri grunur um brjósk eða beináverka í carpal beinum.

Varðandi TFCC lagði hann áherslu á að skoða vel allar festingar þessa brjóskdisks sérstaklega í og aðlægt proc styloideus ulnae, os triquetrum og á radius. Einnig skoða vel vökva aðlægt eins og áður segir.
Við skoðun intercarpal ligamenta benti hann á að hægt er að nota álag til að auðvelda greiningu á áverkum og nota einnig axial sequenca til frekara mats. Loks ræddi hann um signal frá merg og mikilvægi þess að muna eftir avascular necrosu og nota subchondral signal frá merg sem ábendingu um arhtrosu og brjóskskemmdir, en muna um leið eftir normal afbrigðum þar sem er oft breytilegt signal frá merg í capitatum og posterior hluta lunatum.

Öxlin í uppáhaldi
Siðasti fyrirlestur sem ég hlustaði á var um minn uppáhaldslið öxlina, og enn var sami fyrirlesari.
Hann byrjaði á því að fara í gegnum það hvað ætti að koma fram í greiningarsvari um segulómun á öxl, en það var eftirfarandi:
1. hvort rifa er á rotator cuff eða tendinosis.
2. ef rifa hvort er retraction á sin
3. ástand vöðva hvort er rýrnun á þeim
4. óeðlileg vökvasöfnun og þá staðsetning hennar
5. meta acromioclavicular lið
6. lögun acromion samkv Bigliani
7. meta labrum og þar með talið superior labrum
8. biceps sin
9. brjósk athuga slitbreytingar.

Nokkrir gullmolar fylgdu þessari yfirferð. Hér má nefna að menn eiga að gæta sín að fullyrða um vöðvarýrnun supraspinatus vöðva á sagittal rannsókn þegar um retraction á sin er að ræða. Þá liggur vöðvinn meira medialt og fyllir ekki út í supraspinatus fossuna. Þess vegna er nauðsynlegt að skoða vöðvann einnig á coronal sneiðum sem yfirleitt ná lengra medialt en sagittal rannsóknin. Einnig var talað um acromioclavicular lið og mat á slitbreytingum í honum. Á það sérstaklega við þegar um post op rannsóknir er að ræða en viðvarandi verkur í öxl eftir acromion decompession aðgerð er oft vegna slitbreytinga í ac lið. Hann nefndi einnig mergcystur á tuberculum majus svæðinu sem oft eru til staðar en ekki þyrfti að hafa sérstakar áhyggjur af þeim.

Varðandi óeðlilega vökvasöfnun í eða við humeroscapular liðinn sagði hann að aukinn vökvi benti til sjúkdóma, en minni háttar vökvi geti verið normal ástand. Vökvi í subacromial /subdeltoid bursunni gæti verið fylgifiskur rotator cuff rupturu en vöntun á vökva útilokaði ekki rifu. Muna þarf eftir að sjúklingur getur nýlega hafa fengið sprautu í öxlina. Sjúklingur getur einnig verið með bursitis af öðrum orsökum.
Fátt í þessum fyrirlestri voru sérleg tíðindi fyrir þá sem sinna axlarrannsóknum, en öxlin er svo skemmtilegur liður að alltaf er gaman að heyra um hana og styrkjast í því sem maður er að gera.

Fleiri erlend námskeið hérlendis?
Ég veit ekki betur en að þetta sé í fyrsta sinn sem erlendur aðili skipuleggi myndgreiningar námskeið á Íslandi. Vonandi verður framhald á því þar sem það getur gefið okkur möguleika á þátttöku líkt og þarna var. Íslenskir kollegar voru talsvert margir á þessum fimmtudegi sem ég hafði tækifæri til að vera þarna. Ísland er eitt af þeim löndum sem marga langar að heimsækja og ætti því að verða vinsælt til ráðstefnuhalds í greininni.
Mér finnst stefnan vera sú að námskeiðin séu nú helst á spennandi stöðum eins og skíðasvæðum, í Vegas eða á eyjum í Miðjarðarhafi. Þannig að eitthvað annað en fræðin lokki menn á staðinn. Þarna gæti Ísland komið sterkt inn.
Við sjáum hvað setur en þetta var allavega góð byrjun.
 
14.08.06 Einfríður Árnadóttir, röntgenlæknir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *