Til er félagsskapur sem heitir Society for Imaging Informatics in Medicine (SIIM). Meðal höfuðmarkmiða fólks innan hans er að brúa bilið milli annarsvegar tækni- og tölvufólksins sem skapar kerfin sem notuð eru í myndgreiningu og hinsvegar röntgenlækna og geislafræðinga sem nota þessi kerfi.
Upplýsingatækni í myndgreiningu
Ég hef ekki fundið íslenska þýðingu á hugtakinu Imaging Informatics en það felur í sér upplýsingatækni í myndgreiningu og snertir alla hluta hennar; sjúklingaupplýsingar, tilurð myndarinnar, birtingu hennar, færslu milli kerfa, myndvinnslu, geymslu og hvernig myndir eru sóttar úr geymslu. Einnig nánari úrvinnslu, endurbyggingu, gagnameðhöndlun, úrlestur, skil á röntgensvörum og samskipti út á við.
Tengir alla þætti myndgreiningar
Sumum sem tilheyra læknisfræðihluta myndgreiningarinnar finnast tölvumálin flókin og veigra sér jafnvel við að kynna sér þau meira en ýtrasta nauðsyn krefur. Það getur ekki annað en valdið vandræðum og nauðsynlegt er fyrir allt myndgreiningarfólk að kunna einhver skil á grundvallaratriðum tölvukerfanna og hvernig þau tengjast hvert öðru.
Margir hafa þó bæði áhuga á læknisfræðinni og tölvumálunum og hlýtur það að færast í vöxt eftir því sem fleiri af þeirri kynslóð sem alist hefur upp með tölvutækni allt í kringum sig skila sér inn í læknis- og geislafræði.
Kynnum okkur það nýjasta
Vefsíða SIIM er ágætis staður til að byrja að kynna sér ýmislegt sem viðkemur upplýsingatækni í myndgreiningu. Einnig er vert að líta á vef HIMSS (The Healthcare Information and Management Systems Society). Ekki má svo gleyma Minnu frænku sem hefur í efnisflokknum “Communities” undirflokkinn “PACS” og þar er margt fróðlegt að finna.
10.07.07 Edda Aradóttir edda@raforninn.is