Image Wisely

Á nýliðinni RSNA ráðstefnu hleyptu helstu samtök myndgreiningarfólks í Bandaríkjunum af stað sameiginlegri herferð, Image Wisely, sem ætlað er að minnka geislaálag á fullorðna, með sameiginlegu átaki. Þetta er hluti þeirra aðila sem standa að Image Gently, sem miðar að minna geislaálagi á börn. 

Kynnt á RSNA 2010
Vefsíða átaksins, imagewisely.org, var opnuð mánudaginn 29. nóvember og miðvikudaginn þar á eftir var haldin formleg kynning á RSNA ráðstefnunni. Talsverð auglýsingaherferð fyrir Image Wisely var í gangi á RSNA, uglan sem er merki átaksins sást víða um McCormick Place, og fjölmargir lögðu leið sína á kynninguna.
Þar talaði James Brink, prófessor í myndgreiningu og deildarstjóri við Yale School of Medicine í New Haven um þá aukningu sem orðið hefur á geislaálagi fólks af völdum læknisfræðilegrar myndgreiningar. Hann sagði að í Bandaríkjunum hefði þetta geislaálag fimmfaldast frá árinu 1990 og næstum helmingur þess væri af CT rannsóknum.

Bæta þarf umgengni við ómissandi tækni
Dr. Brink lagði áherslu á að CT væri einn af hornsteinum nútíma myndgreiningar en því miður væri tæknin einnig ofnotuð og notuð á rangan hátt, án þess að hugað væri að því hvort rannsóknin væri nauðsynleg til að greina sjúkdóminn eða mögulegri áhættu sjúklingsins vegna uppsafnaðra áhrifa af geislun. Auk þess væri viss hluti rannsókna framkvæmdur af myndgreiningarfólki sem gætti ekki að því að lágmarka geislaálag eins og hægt væri. 

Tveir mikilvægir hópar
Aðstandendur átaksins eru American College of Radiology, Radiological Society of North America, American Association of Physicists in Medicine, og American Society of Radiologic Technologists. Öll samtökin hvetja myndgreiningarfólk um allan heim til að taka persónulega ábyrgð á að verja sjúklinga fyrir óþarfri geislun. Fyrst verður hugað að geislaálagi af tölvusneiðmyndatöku (CT), síðan rannsóknum með geislavirkum efnum og loks hefðbundnum röntgenrannsóknum og skyggningu.
Tveir hópar verða teknir fyrir: Í fyrsta lagi myndgreiningarfólk og síðan tilvísandi læknar og almenningur.

Myndgreiningarfólk líti í eigin barm
Forsvarsmenn átaksins leggja áherslu á mikilvægi þess að myndgreiningarfólk byrji á að “taka til heima hjá sér”, þ.e. noti bestu möguleg vinnubrögð m.t.t. geislavarna, áður en meiri áhersla verður lögð á þátt tilvísandi lækna.
Eins og í Image Gently átakinu, sem beinist að myndgreiningu barna er myndgreiningarfólk hvatt til að taka þátt í heitstrengingu þess efnis að viðkomandi ætli að framkvæma rannsóknir á þann hátt sem veldur eins litlu geislaálagi á sjúklinga og kostur er.
Image Gently var kynnt hér hér á raforninn.is í mars árið 2008 og önnur grein því tengd birtist í september sama ár.

Góðar upplýsingar aðgengilegar
Image Wisely samtökin veðja á fræðslu, auðvelt aðgengi að upplýsingum og þrýsting frá kollegum til að bæta vinnubrögð varðandi geislavarnir. Forsvarsmenn þeirra fullyrða að á vefsíðunni séu nýjustu, nákvæmustu, notadrýgstu og bestu upplýsingar sem völ er á, um möguleika til að útrýma ónauðsynlegum rannsóknum, minnka geislaskammt við rannsóknir og lágmarka geislaálag. “Við ætlum ekki að sóa tíma fólks,” hefur Minna frænka eftir einum þeirra. 

Viðmiðunarreglur, verklagsreglur, gátlistar og fleira
Sem dæmi um það sem aðgengilegt er á vefsíðu Image Wisely eru undirsíður á vegum allra framleiðenda tölvusneiðmyndatækja í Bandaríkjunum, þar sem finna má viðmiðunarreglur um framkvæmd rannsókna með tilteknum tækjum svo geislaskammtur verði sem lægstur.
Einnig er þar að finna margvíslegar aðrar upplýsingar sem metnaðarfullt myndgreiningarfólk getur notað til að auka öryggi sjúklinga, ekki síst með því að nýta þær til að útbúa “prótókolla” í CT tæki sem það vinnur við, verklagsreglur fyrir þá sem vinna við tækin og gátlista til að fara eftir við rannsóknir. 

13.12. 10 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *