Mikið hefur verið fjallað um geislaálag af CT rannsóknum, ekki síst hvað varðar börn. Á vefsíðunni Image Gently er myndgreiningarfólk hvatt til að lýsa því yfir að það ætli að minnka þetta geislaálag. Það sem greinir þessa vefsíðu frá mörgum öðrum eru leiðbeiningar um einfaldar og notadrjúgar aðferðir til að ná takmarkinu.
Image Gently er “herferð” á vegum samtaka fjölmargra bandarískra aðila sem snúa að myndgreiningu, þ.á.m. RSNA og ASRT. Myndgreiningarfólk er hvatt til að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að það ætli sér að mynda varlega – “image gently”. Markmiðið er að bæta viðhorf og vinnuaðferðir svo alltaf sé hugað að öllum mögulegum aðferðum til að lækka geislaskammt við rannsóknir á börnum. Fyrst um sinn verður kastljósinu beint að CT rannsóknum en stefnan er að bæta smátt og smátt við efni um aðrar rannsóknategundir.
Það mikilvæga, að mínu mati, er að þarna eru gefnar skynsamlegar upplýsingar fyrir foreldra, tilvísandi lækna og myndgreiningarfólk, málið ekki gert of flókið og hvorki verið með hræðsluáróður né gert of lítið úr mögulegri áhættu.
Til dæmis ætti myndgreiningarfólk að geta nýtt sér nákvæmar en ekki of flóknar leiðbeiningar um gerð „prótókolla“ fyrir börn og auk þessa eru á síðunni slóðir að ýmsum stöðum þar sem finna má frekari upplýsingar.
25.03.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is