Iðnbyltinginn á Íslandi

Uppsagnir hjá Hjartavernd
Hjartavernd, hefur tilkynnt uppsögn um helmings starfsmanna vegna óhagkvæmnar gengisþróunar undanfarin ár. Þetta eru slæm tíðindi því hjá Hjartavernd er unnið að vísindum sem standast samanburð við það sem best gerist. Þar er verið að leggja grunninn að framtíðar heilsuvernd, að mestum hluta fyrir erlenda styrki. Þessir styrkir hafa fengist vegna árangurs og framsækinna vísindahugmynda félagsins í harðri samkeppni innan alþjóðavísindasamfélagsins.

Áfall fyrir íslenskan hagvöxt til framtíðar
Heilbrigðisþjónusta er mjög dýrmæt atvinnugrein og verður því dýrmætari til verðmætasköpunar sem þjóðir verða auðugri og eldri. Eins og í öðrum atvinnugreinum er nauðsynlegt að beita öllum þeim ráðum sem bjóðast á hverjum tíma til að ná fram sem mestum árangri. Hér eru það vísindi í læknisfræði, tækni, stjórnun og hagfræði sem ná þarf tökum á ef heilbrigðisgeirinn á að verða alvöru vaxtarbroddur í íslensku þjóðfélagi. Bakslag hjá Hjartavernd er því í reynd miklu meira áfall fyrir íslenskan hagvöxt og velferð á komandi árum en flestir gera sér grein fyrir. Hjartavernd á nefnilega takmarkaða möguleika til að flytja starfsemi úr landi og hefur í reynd haft þá stefnu að vinna sem mest af sinni vísindavinnu á Íslandi, sem m.a. hefur þýtt mörg áhugaverð störf sem nú eru að tapast. Vona verður að þessar sársaukafullu aðgerðir takist vel og að því metnaðarfulla og sérhæfða starfsfólki sem missir vinnuna takist að fá vinnu við hæfi.

Stefna stjórnvalda
Það er magnað að stórnvöld telja að með því að auka fé til rannsóknarsjóða sé verið að leysa þau mál sem skapast þegar rekstrartekjur vegna erlendra viðskipta falla vegna ruðningsáhrifa frá ríkisstyrktum gæluverkefnum ráðamanna, en á þann veg eru svör ráðherra. Það virðist skorta skilining á þeirri staðreynd að það tekur yfirleitt langan tíma að byggja upp söluhæfa vöru eða þjónustu á hátæknisviði og aðeins lítið brot af því sem reynt er gengur upp. Hér er verið að leggja í rúst það sem tekist hefur að byggja upp síðustu 20 til 30 árin bæði hjá Hjartavernd og öðrum. Nýsköpunarstyrkir stjórnvalda breyta þar engu um.

Stuðningur við þá stóru
Þetta nýsköpunarfé er líka einkum stuðningur við stórfyrirtæki því að hámarki fæst aðeins helmingur kostnaðar við nýsköpun greiddur. Þetta þýðir að lítt fjáðir einstaklingar og lítil fyrirtæki mega bara fá litlar hugmyndir. Ríkisstýrð nýsköpun er í heild vafasamt fyrirbrigði sem aldrei kemur í stað eðlilegra rekstrarskilyrða án grófar mismununar atvinnugreina.
Í Bandaríkjunum, sem lengi hafa verið í forystu í nýsköpun, er hægt að fá 100% verkefnastyrki til nýsköpunar sem þýðir að meira jafnræði er innan hugvitsgeirans en á Íslandi sem að þessu leyti hefur tekið upp model hægfara Evrópuþjóða.

Að duga eða drepast
Íslenski hátæknigeirinn á tvo kosti; að deyja eða flytja starfsemi sína úr landi. Samkvæmt fréttum eru flest stærstu fyrirtækin að færa æ stærri hluta starfseminnar til annarra landa sem mörg hver styrkja innrás hátæknifyrirtækja. Okkar stjórnvöld styrkja hinsvegar innrás fyrirtækja í málmiðnaði en þesskonar starfsemi var mjög í tísku  fyrir rúmum 100 árum. Þetta ásamt því að veita bönkunum lán með ríkisábyrgð gegnum íbúðalánasjóð hefur síðan til aukinnar þenslu, sem Seðlabankinn svarar með hækkun vaxta, sem aftur styrkir krónuna. Með þessu hafa stjórnvöld ákveðið að hagvöxtur á Ísland verði á næstu áratugum mjög tengdur gengi þungaiðnaðar á heimsvísu en óháður vexti hátækni og hugvitsfyrirtækja.  Er hér veðjað mjög á skjön við ríkustu lönd heims.

Tækniþróunin minnkar heiminn
Tækniþróun síðustu ára gerir mörgum fyrirtækjum auðveldara að starfa í mörgum löndum. Raförninn sem er lítið fyrirtæki er nú með 3 starfsmenn í 2 löndum utan Íslands. Tilkoma Skype foritsins og símasamskipta um internetið annaðhvort ókeypis, eða á mjög lágu verði þýðir að menn geta verið í nánum tengslum og samvinnu við fólk í öðrum löndum án mikils kostnaðar. Okkar helsta vandamál eins og margra annarra hefur verið ótraust samband um FARICE þar sem við rekum okkar starfsemi út frá Íslandi. Hér er þörf á aðgerðum stjórnvalda við að fá öruggt samband við umheiminn sem gagnast öllum landsmönnum og kostar minna en flest þau sértæku jarðgöng sem mjög eru í tísku hjá stjórnmálamönnum þessi árin. 

Hvað á myndgreiningin að gera?
Læknisfræðileg myndgreining á Íslandi þarf að huga að útrás til að auka arðsemi og draga úr áhættu af kostnaðarsveiflum á innlendum markaði. Við hjá Raferninum höfðum reiknað með því að sú þróun væri hafin árin 2004 og 2005, en í staðinn er enn efst á baugi að gera alla myndgreiningarstarfsemi í landinu stafræna og þar er í gangi einhverskonar samkeppni um viðskipti. Reikna má með að innan árs fari menn að skoða starfsemi utan landsteinanna og samvinnu af ýmsu tagi.

Starfsemi erlendis
Indland er áhugaverður kostur í röntgenfjargreiningu. Þar er fjöldi röntgenlækna sem er menntaður í Bandaríkjunum og launakostnaður lágur. Indverski heilbrigðismarkaðurinn er um 1000 milljarðar kr á ári og vex um 17% á ári sem þýðir tvöföldun á ca 5 árum.
Raförninn gekk nýlega frá tengingu milli röntgendeildar í Bandaríkjunum og úrlestrarþjónustufyrirtækis í Indlandi sem er með 40 röntgenlækna í sinni þjónustu. Þeir eru nú að læra svarhefðir deildarinnar í Bandaríkjunum. Gaman verður að fylgjst með því hvernig þetta þróast og hvort okkur tekst að nýta þetta til framdráttar okkar viðskiptavinum á Íslandi.
05.12.05 Smári Kristinsson   smari@raforninn.is    

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *