Eins og sagt var frá í síðustu viku hefur Arnartíðindum áskotnast pistlahöfundur í Bandaríkjunum. Michaele Hersh bætti stuttum kafla við fyrsta Íslandsbréf sitt og er von okkar að íslenskt myndgreiningarfólk taki nú til við skriftir.
Margvíslegur stíll
Stuttorður, snaggaralegur stíll einkennir það sem Michaele hefur sent okkur til þessa. Þetta er nokkuð algengt hjá bandaríkjamönnum en kemur áreiðanlega mörgum íslendingum svolítið undarlega fyrir sjónir, sagnaþjóðin er vön hafa meira kjöt á beinunum. Það verður spennandi að sjá hvort þessi stíll verður ríkjandi í pistlum Michaele í framtíðinni eða hvort hún skrifar einnig texta líkari því sem við eigum að venjast.
Michaele´s letters are published in…
“Letters From the USA”
…verður sérstakur flokkur í leiðakerfi www.raforninn.is.
Ekki flókið að skrifa
Skrifin hennar Michaele sýna hversu einfalt getur verið að deila hugsunum sínum með öðrum í faginu án þess að semja langar, bókmenntafræðilega stórglæsilegar greinar þar sem kynntar eru rannsóknaniðurstöður eða skoðanir sem valda byltingu í myndgreiningarheiminum. Það virðist nefnilega vera eitthvað þvíumlíkt sem fólk sér fyrir sér þegar undirrituð stingur upp á að það skrifi ofurlítinn pistil fyrir Arnartíðindi.
“Í fókus” er fyrir alla
Raunin er sú að öll höfum við gaman af að lesa hugleiðingar fólks, ekki síst þeirra sem við könnumst eitthvað við, og gerum ekki kröfu um að innihaldið breyti lífi okkar eða verði okkur minnisstætt um aldur og ævi. Þessi hluti af vefsetri Rafarnarins, “Í fókus”, er öllum opinn og efnisval algerlega frjálst. Hver sem er getur fengið birta grein, undir sínu nafni, óháð stjórnmálaskoðunum, kynferði og kynþætti!
Íslenskt – já, takk!
Það er skemmtilegt að hafa náð tengslum við myndgreiningarfólk í öðrum heimshluta en ekki væri síður ánægjulegt að fá meira efni frá íslendingum. Ég skora hér með á alla notendur vefsetursins að pússa upp þjóðarstoltið og senda okkur línu á edda@raforninn.is eða hafa samband við ritstjórann í síma 860 3748 og koma hugmyndum sínum á framfæri.
14.03.05 Edda Aradóttir