Fær Tryggingastofnun samkeppni??
Nýjustu fréttir herma að tryggingarfélög ætli í markaðsátak í heilbrigðistryggingum með haustinu. Við höfum góða reynslu af heilbrigðistryggingum kortafyrirtækjanna á ferðum erlendis. Það er vonum seinna að tryggingafélög taki að bjóða okkur almennar heilbrigðistryggingar innanlands og marki þar með endalok þjóðsögunnar um besta heilbrigðis- og tryggingakerfi heimsins.
Stutt er síðan ríkisvaldið var alsráðandi bæði í heilbrigðistryggingum og heilbrigðisrekstri. Einkarekstur hefur sótt á nú seinni árin en þó erum við þar mjög aftarlega í umfangi miðað við flest vestræn lönd. Athyglisvert er að mikil ríkisrekstrarlönd eins og Svíþjóð eru langt fyrir ofan okkur á þessum lista (Heilbrigðiskerfi og hagvöxtur Þorvaldur Gylfason, jan 2004).
Tryggingastofnun ríkisins hefur haft einokunaraðstöðu gagnvart framleiðendum sem nánast eini kaupandinn á heilbrigðismarkaðinum. Það er því spennandi staða, og líkleg til að bæta þjónustugæði og gera verðlag raunhæfara, ef tryggingafélög fara að semja um kaup á heilbrigðisþjónustu á frjálsum markaði. Ekki verður séð að ríkisstofnanir geti almennt tekið þátt í þessum markaði, nema að breyta um rekstrarform.
“Hún Þyrnirós svaf eina öld”.
Sú skoðun að þegnarnir þurfi ekki aðra heilbrigðisþjónustu og ekki í öðrum umbúðum en ríkisvaldinu þóknast að framleiða er að verða ansi lúin, þótt flestir þingmenn aðhyllist hana enn. Þannig liggur heilbrigðisráðherra nú undir feldi, að manni skilst, til þess að finna ráð til að reka áfram tæknifrjógvunarstarfsemi ríkisins til að komast hjá því að þjónustan verði rekin af einkaðilum.
Kostnaðurinn við að halda úti dauðastríði kerfisins verður sífellt erfiðari viðfangs. Helstu rökin sem verjendur blindrar ríkisforsjárinnar hafa beitt eru að aðgengi að þjónustunni eigi að vera sem mest óháð efnahag. Um það er reyndar almenn samstaða í landinu, sem stjórnmálamenn misnota til að halda eigin völdum og áhrifum í núverandi kerfi. Þetta með aðgengi óháð efnahag er nefnilega fyrir bí ef það hefur þá nokkurn tíma verið til. Þannig getur fólk lent í milljónaútgjöldum vegna sjúkdóma, sem hið opinbera tekur lítinn eða engan þátt í. Þingmenn, rétt eins og óheiðarlegir tryggingasalar, gera nefnilega ráð fyrir að fæstir lesi smáaletrið. Þingmennirnir okkar hamra yfirleitt á því þegar þeir þurfa atkvæðin okkar að við búum við besta heilbrigðis- og tryggingakerfi heimsins þar sem allir fái það sem þeir þurfa, þegar þeir þurfa. Þannig stuðla menn að fölsku öryggi þegnanna. Því miður er raunveruleikinn allur annar. Jafnvel öryrkjar þurfa að greiða verulegar upphæðir fyrir heilbrigðisþjónustu, biðlistar geta verið langir, fólki er mismunað eftir sjúkdómaflokkum og síðast enn ekki síst er sú staðreyn að íslenskar fjölskyldur missa oft efnahagslegt sjálfstæði sitt vegna veikinda, með skelfilegum afleiðingum bæði fyrir þá veiku og frísku. Þetta gerist vegna þess að opinberu tryggingarnar eru lélegar og miklu lélegri en fólk heldur.
Þannig vantar t.d. sárlega einhverskonar tryggingu sem tæki á efnahagsáföllum í kjölfar veikinda.
Vaxandi auðlegð vaxandi eftirspurn
Með vaxandi almennri auðleg þá eykst heilsuáhugi og eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu og heilbrigðistengdri þjónustu mikið. Samkvæmt Þorvaldi Gylfasyni, prófessor, er samhengið vöxtur heilbrigðisþjónustu um 2,5% landsframleiðslu (VFL) fyrir hvert viðbótar prósentustig í hagvexti. Hér telja þó margir að samhengið sé ekki línulegt og að á því tekjustigi sem íslendingar eru á í dag sé vöxturinn í heilbrigðisþjónustu meiri. Ljóst er að þessi áhrif eru í báðar áttir, þ.e.a.s. vöxtur í heilbrigðisþjónustu eykur hagvöxt.
Vonandi verður þetta frumkvæði tryggingafélagana til að auka jafnrétti og velferð þegnanna. Til þess að svo megi verða þurfa þau að umgangast þennan garð með auðmýkt og fagmennsku. Um leið ætti þessi þróun að auðvelda íslenskum heilbrigðisrekstri að ná vopnum sínum, þannig að hann geti sem fyrst aukið verulega sitt framlag til hagsældar í landinu.
31.05.04 Smári Kristinsson