Hvíldu þig, hvíld er góð

Yfirskrift greinarinnar kemur úr íslenskri þjóðsögu og þar var það Kölski sjálfur sem ráðlagði bónda að láta hvildina ganga fyrir heyskapnum. Afleiðingarnar urðu: “Latur, lítið hey”. Með góðri skipulagningu hefði bóndinn getað snúið rækilega á Kölska.

Vinnusemi er dyggð. Það fer ekkert á milli mála.
Hvíld er nauðsyn. Það fer heldur ekkert á milli mála.

„Henni féll aldrei verk úr hendi“
Langur vinnudagur og mikil yfirvinna hefur löngum tíðkast í íslensku samfélagi og það “að falla aldrei verk úr hendi”  verið talið sérlega aðdáunarvert. Í erindi sem Sigríður Lillý Baldursdóttir hélt hjá Vinnueftirliti ríkisins segir hún: “Hraði og afköst eru talin til marks um framfarir. Menn beita ótrúlegustu aðferðum til að mæla vinnuhraða, afköst eru mæld og talin, sífellt er leitað leiða til að auka framleiðslugetuna. Hröðun lýsir nútímanum best, þ.e. sífelld aukning hraðans. Fólki liggur sífellt meira á, tæknin gerir mönnum kleift að fara sífellt hraðar, ljúka verkum á skemmri tíma, gera marga hluti í einu og vera á fleiri stöðum samtímis. Frítíminn er oft ekki hvíld, menn skipuleggja fríin þannig að þeir eigi aldrei lausa stund og koma þreyttir aftur í vinnuna.”
Í síðustu setningunni kemur fram lykilorðið “skipuleggja”. Með skynsamlegri skipulagningu er bæði hægt að auka afköst sín og eiga meiri tíma fyrir fjölskylduna, áhugamálin OG hvíld.
Því miður eru sumir á sömu skoðun og Galdra-Loftur, í leikriti Jóhanns Sigurjónssonar: „Svefninn er óvinur minn. Hann stelur frá mér tíma”. Þó er einmitt hægt að færa rök fyrir því gagnstæða, að góð hvíld (svefn og slökun) gefi manni tíma. Óþreytt manneskja afkastar mun meiru en sú sem er þreytt og skilar þar að auki betur unnu verki. Hún á auðveldara með að skipuleggja tíma sinn og nýtir hann þar með betur.

Hvíldin ER góð
Flest fólk í nútíma samfélagi hefur ótal verkefni á sinni könnu og hamast í sífellu við að samræma vinnu og einkalíf. Það getur verið freistandi eða óumflýjanlegt að klippa af hvíldartímanum til að ljúka verkefnum sem ekki hefur tekist að sinna á öðrum tíma. Sú lausn er líka í besta lagi í stuttan tíma en ef líkamanum er misboðið langtímum saman verða afleiðingarnar slæmar.
“Ónóg hvíld, t.d. svefnskortur, skapar streituástand þó álag sé annars ekkert. Slíkt þreytuástand hefur tilhneigingu til að viðhaldast í afar neikvæðum vítahring þar sem spenna streitunnar hindrar hvíld. Sé ekkert að gert lamar hinn sjálfvirki vítahringur andlega hæfni og líkamsþrek. Viðvarandi streita skemmir líffæri mannsins þannig að hann eldist hraðar og verr en ella.” Segir dr. Ingólfur Sveinsson í grein á doktor.is.

Hvíld, slökun, svefn
Á vísindavef HÍ var borin upp sú spurning hvort maðurinn ætti ekki að vera orðinn það þróaður að hann þyrfti ekki á svefni að halda. Inntakið í svarinu var: “…má halda því fram, út frá dreifingarmynstri svefns í dýraríkinu, að þetta líffræðilega fyrirbæri hafi komið snemma fram í þróunarsögu dýra og gegni lykilhlutverki í lífeðlisfræðilegu heilbrigði þeirra, sérstaklega af rannsóknum á spendýrum að dæma.
Óhætt er að fullyrða að mörghundruð milljón ára þróun lífs hafi ekki leitt af sér „æðra“ dýr sem ekki þarf á svefni að halda. Hinsvegar eru vísindamenn að átta sig æ betur á hversu lífsnauðsynlegur svefn er öllum dýrum.“
Slökun er ekki síður mikilvæg en svefn. Eftir markvissa slökun í stuttan tíma getur manneskjan verið endurnærð og tilbúin að takast aftur á við verkefni sem hún var orðin yfir sig þreytt á.

Markmið og skipulag
Markmiðasetning og skipulagning er ekki eitthvað sem aðeins á við í fyrirtækjum. Einstaklingur sem vill njóta lífsins, blómstra bæði í starfi og einkalífi, þarf að verja tíma í að gera sér grein fyrir hvaða markmiðum hann vill ná og hvaða leiðir er hægt að fara. Þetta á bæði við um langtímamarkmið og skammtímamarkmið, við þurfum að skipuleggja næsta/u ár, næsta mánuð, næstu viku og daginn í dag.
Einfaldlega gera lista, bæta á þá og eyða af þeim eftir þörfum, og forgangsraða. Og ekki gleyma hvíldinni. 

Hver manneskja velur sitt skipulag, það sem máli skiptir er að gefa hverju verkefni sinn tíma og eitt af verkefnunum er að hvíla sig.

15.08.05 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *