Hvert stefnir í heilbrigðisrekstri?

Það er skammt stóra högga á milli í einkarekinni heilbrigðisþjónustu þessar vikurnar.
Þann 9. október sl. opnaði heilbrigðisráðherra Orkuhúsið sem er nýjasta einkarekna lækningasetrið. Hluti af þeirri starfseiningu er Röntgendeild Íslenskrar myndgreiningar sem er í nýinnréttuðu húsi og hönnuð samkvæmt nýjustu kröfum.
Í síðustu viku varð Röntgen Domus svo 10 ára en frumkvöðlastarf stofnenda þess fyrirtækis hefur gjörbylt landslaginu í læknisfræðilegri myndgreiningu.

Framþróun í hættu

Farsælt brautryðjendastarf stofnenda Læknisfræðilegrar Myndgreiningar  (LM) hefur leitt til þess að yfir þriðjungur myndgreiningarannsókna hérlendis er gerður af einkaaðilum. Myndgreiningarþjónusta við almenning á Íslandi er sennilega ein sú besta á byggðu bóli. Skuggahliðin er verðþróunin, en verðið á rannsóknum er allt of lágt, sem leiðir til þess framlegð er ekki nægileg. Þetta ógnar mjög þróun einkarekinnar myndgreiningar og þar með þróun myndgreiningar í landinu. Algengt er að taxtar séu mikið lægri en gerist í nálægum löndum. Þetta torveldar mjög þróun nýrra og dýrari aðferða og kemur m.a. í veg fyrir að fyrirtækin verði nægilega sterk til að standa að dýrri markaðsþróun og nauðsynlegri útrás myndgreiningarrekstrar til annarra landa, sem er forsenda þess að íslensk fyrirtæki standist erlenda samkeppni til lengdar. Hér stefnir því í að myndgreining verði ekki rekin af íslenskum fyrirtækjum í framtíðinni,  en að líkindum verður öll myndgreining einkarekin innan tuttugu ára.

Innleiðing alstafræns búnaðar
Sem sendur er stafræna tæknin heitasta mál allra myndgreiningareininga. Þetta er dýrt og vandasamt mál bæði hvað varðar fjárfestingu og stjórnun breytinga.
Það er athyglisvert að Röntgen Domus kaupir allt annan og dýrari búnað en t.d. ríkisspítalar við innleiðingu á stafrænni tækni. Stærsti munurinn er að Röntgen Domus fer í einu skrefi yfir í stafrænt umhverfi og kaupir búnað með hámarks afköstum (DR kerfi), meðan Landspítali – háskólasjúkrahús tekur í notkun “stafrænt filmukerfi” (CR) með útprentun sem fyrsta skref í innleiðingu á stafrænni tækni. Í nýrri röntgenstofu í Röntgen Domus fækkar handtökum um 70% við breytinguna, í stafrænum filmukerfum er óljóst hvort nokkur framleiðni aukning næst og að líkindum eykst rekstrarkostnaður m.a. vegna útprentunar á filmum.
Þannig er ljóst að Röntgen Domus leggur mikla áherslu á vinnuaðstöðu starfsmanna og afköst búnaðarins, auk myndgæða, og telur þessa þætti vega upp hærri fjárfestingu á stuttum tíma.

Dæmigerður útreikningur um kostnaðarþróun fyrir mismunandi tæknibúnað á röntgendeild er sýndur í myndum sem fylgja þessari grein. Hér er að sjálfsögðu reiknað með að búnaðurinn tengist fullkomnu PACS kerfi og að filmuprentun sé hverfandi. Ég tel reyndar að DR búnaðurinn sé töluvert hagstæðari en þessir útreikningar sýna.



#img 1 #



#img 2 #
 Verkaskipting innan myndgreiningargeirans
Eitt það athyglisverðasta við þróun myndgreiningar hérlendis er að ekki hefur orðið hefðbundin verkaskipting milli ríkisins og einkamarkaðarins miðað vð nálæg lönd. Þannig er LSH ekki leiðandi í vísindarannsóknum eða þróun nýrra aðferða. Það er Hjartavernd sem er algjörlega leiðandi í vísindavinnu en einkaaðilar eru leiðandi í hagnýtingu nýrrar tækni og í þróun þjónustumiðaðs reksturs. Dýrum nauðsynlegum nýjungum sem gætu fallið undir verksvið háskólaspítalans sinnir hann ekki, þvert á móti er hluti myndgreiningarrekstrar LSH rekinn á einhverskonar tækniminjasöfnum. Allt er þetta staðfesting á því að ríkisrekstrarformið, með sinni innbyggðu valdstjórn, er ekki líklegt til afreka í myndgreiningu frekar en á öðrum sviðum.
Næstu stór mál á landsvísu gætu verið kransæðatölvusneiðmyndun, myndgreining í 3.0T MRI tæk jum og PET vélum. Það er ljóst að núverandi taxtar duga ekki til að reka slík tæki. Spurningarnar eru hinsvegar, hvar kemur þessi búnaður þeim sem á honum þurfa að halda að bestu gagni og hverjir eru best undir það búnir að taka hann í notkun?

Nefnd um verkaskiptingu ríkis og einkaaðila
Við opnun Orkuhússins sagði heilbrigðisráðherra að hann vænti mikils af nefnd sem fjalla á um verkaskiptingu sjúkrahúsa ríkisins og heilbrigðisfyrirtækja einkageirans. Var á ráðherra að heyra að ef sá grunur manna fengist staðfestur í nefndarstarfinu að einkareksturinn væri hagkvæmari þá ætlaði hann að beita sér fyrir tilfærslu verkefna til einkaaðila.
Ef marka má uppleggið sem nefndin fær og val einstaklinga í hana liggur beint við að líta á hópinn sem varnarlið opinberra stofnanna. Ólíklegt er að niðurstöðurnar geti skipt þeim sköpum sem ráðherra lét í skína á hátíðarstundu við opnun Orkuhússins. Menn hljóta að sakna þess mjög að sjá í nefndinni fulltrúa einkarekstrar og sjálfseignarstofnanna. Það merkilega verk bíður landlæknis að veita ráðgjöf um “hvaða heilbrigðisþjónustu sé skynsamlegt að veita utan sjúkrahúsa”.
Það er áberandi að margir innan ríkisgeirans hafa ekki áttað sig á að auk þess sem heilbrigðiseinkageirinn þróast almennt mikið hraðar býður hann á ýmsum sviðum upp á betri kennslu og þjálfun ásamt hraðari faglegri þróun en ríkisgeirinn. Þetta verður augljóst þegar menn átta sig á að mörg metnaðarfyllstu verkefnin í heilbrigðisþjónustunni eru í dag unnin af einkafyrirtækjum eða sjálfseignarstofnunum. Samningar um kennslu og þjálfun eiga þess vegna að fylgja verkefnunum út í einkageirann og hljóta að gera það í vaxandi mæli.

Upplegg nefndarinnar
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur skipað nefnd til þess að gera tillögur til ráðherra um hvernig endurskilgreina megi verksvið Landspítala – háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri með tilliti til breyttra þjóðfélagsaðstæðna. Nefndinni er falið að skilgreina sérstaklega verksvið stofnananna sem hátæknisjúkrahúsa landsmanna, kennslustofnana, miðstöðva faglegrar þróunar, stofnana sem veita öllum landsmönnum þjónustu og sem svæðisbundinna sjúkrahúsa. Formaður nefndar ráðherra er Jónína Bjartmarz, formaður heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis og varaformaður er Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss. Nefnd heilbrigðismálaráðherra er einnig falið að kanna verkaskipti milli þessara stofnana og annarrar heilbrigðisþjónustu, svo sem einkarekinna læknastofa. Nefndin skal leita ráðgjafar landlæknis m.a. um faglegt mat á því hvaða heilbrigðisþjónustu sé skynsamlegt að veita utan sjúkrahúsa. Nefndin á að skila heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra niðurstöðum sínum í vor.

Nefndin er skipuð með eftirfarandi hætti:
Jónína Bjartmarz, formaður heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis, formaður
Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss, varaformaður
Páll Skúlason, háskólarektor
Drífa Hjartardóttir, varaformaður heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis
Margrét Frímannsdóttir, alþingismaður
Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
Halldór Jónsson, forstjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri
Garðar Garðarsson, formaður samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins
Magnús Skúlason, deildarstjóri heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu

20.10.03 Smári Kristinsson.
      

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *