Hvern skal hengja?


Það er aðalmarkmið okkar vefseturs að vera sameiginlegur vettvangur allra sem starfa í greininni, því aðeins þannig getur miðillinn orðið að nokkru gagni. Ég virðist hafa brotið eigin vinnureglur í síðustu viku því ég fékk nokkuð hörð viðbrögð við fókusgreininni. Það versta var að mætir samstarfsmenn til áratuga tóku hluta hennar sem persónulega árás á sig, sem mér þykir leitt. Ekkert er fjarri mér en að halda því fram að getuleysi opinbers rekstrar byggist á vanhæfni starfsfólks, stjórnendur þar með taldir. Það er ljóst að margir innan LSH hafa unnið, og vinna, merkilegt og fórnfúst starf hvern einasta dag og þróa jafnvel nýjungar við erfiðar aðstæður og njóta hvorki fjárhagslegrar umbunar né eðlilegrar athygli fyrir sín störf. Ég veit líka að hvenær sem er getur árangur margra ára erfiðis gufað upp í náttúruhamförum af mannavöldum sem snúast um valdabaráttu eða pólitíska hagsmuni opinbera kerfisins. Þess vegna er ekki líklegt að LSH skapi góðar aðstæður til forystu og framfara, hvorki í myndgreiningu né á öðrum sviðum.
Ég hef í mörg ár gagnrýnt opinberan rekstur heilbrigðiskerfisins. Mín sjónarmið byggjast á langri reynslu bæði innan kerfisins og utan og á ég ekki von á að Eyjólfur hressist úr þessu. Reyndar held ég að við séum flest sammála um annmarka opinbers rekstrrar, en aðvitað eru stundarhagsmunir okkar mismunandi. Nánar um mín sjónarmið í þessum efnum má lesa undir „Fyrirlestrar“ hér á síðunni.

Rekstrarformið – ekki starfsmennirnir
Þegar ég hóf störf á Borgarspítalanum fyrir rúmum tuttugu árum voru nánast öll frávik í rekstri skýrð með vanhæfni þeirra einstaklinga sem í hlut áttu. Slík sannindi gengu vel í ungan mann með óbilandi trú á kerfinu, nýskriðinn úr skóla þar sem allt byggðist á flokkun fólks með prófum. Lausn allra vandamála var einföld: Hvern á að hengja? Það var ekki fyrr en ég, eftir áralanga baráttu við vindmyllur og margar andvökunætur vegna þeirrar sóunar mannauðs og fjármuna sem ég varð vitni að hvern dag, eftir góðan skammt af Edward Deming og fleiri snillingum, að ég áttaði mig á að nánast allan vanda mátti rekja til þess að hið opinbera er ófært um að reka nútíma fyrirtæki.
Það þýðir ekki að ríkið hafi ekki átt að hefja spítalarekstur snemma á síðustu öld. Á þeim tíma voru hér á landi ekki aðrir en ríkið með nægilegt bolmagn til að hefja slíkan reksur. Þáttur einkaframtaksins sem hingað kom í umboði Guðs er samt áhugaverður og vanmetinn kafli í þeirri sögu.
Grunnvandinn er að stofnanastjórnendur eru valdalausir um það sem máli skiptir og geta þess vegna ekki borið fjárhagslega eða stjórnunarlega ábyrgð með sama hætti og gerist í öðrum rekstri. Árangurinn verður þess vegna allur óvissari. Fæstir opinberir stjórnendur þekkja t.d. lykiltölur í sínum rekstri. Þeir gætu heldur ekki tekið ákvarðanir í samræmi við fjárhagslegar staðreyndir þótt þær væru fyrir hendi því allt vald kemur að ofan. Fyrirtæki í opinberum rekstri eru dæmd til að framleiða lélegri vöru á hærra verði en gerist á almennum markaði. Þess vegna er opinber rekstur víðast hvar á hröðu undanhaldi. Þetta þýðir ekki að einstakir starfsmenn skili ekki góðu dagsverki, heldur að fleirum er gert það keift undir öðrum rekstrarformum sem tryggja starfsmönnum meira frelsi fyrir huga og hönd.  Þetta hefur verið ljóst síðan menn hófu að hugleiða þjóhagfræði á átjándu öld. 

Valdstjórn og valdatafl

Í rekstri sem lýtur valdstjórnarlögmálum er valdatafl af ýmsu tagi aðalhagsmunamál margra stjórnenda. Dæmi um nýlega sameiginlega reynslu mína og stjórnenda myndgreiningarsviðs LSH af því tagi er uppsögn tæknisviðs LSH á þjónustusamningum myndgreiningarsviðs LSH  við Raförninn. Allir stjórnendur myndgreingarsviðsins sem starfað hafa í Fossvoginum segjast engu fá um það ráðið hverjir veiti þeim tækniþjónustu eða tækniráðgjöf. Þar ná stjórnendur tæknisviðs LSH að sýna myndgreingarsviðinu vald sitt, sem er þeim mikilvægt því valdamörk og yfirráðasvæði hafa ekki verið með öllu ljós síðan spítalarnir voru sameinaðir og þeir harðvítugustu í hópi stjórnenda eru enn að prófa hversu langt þeir komast. Hér gildir því það frumskógarlögmál að menn hafa það vald sem þeir taka sér og komast upp með.
Þáttur stjórnmálamanna í þessum valdasirkus er athyglisverður því þeir eru efst í pýramídanum. Aðeins hluti okkar stjórnmálamanna getur hugsað sér að vinna fyrir sér með lagasetingu, flestir vilja þeir frekar leika einhverskonar yfirforstjóra sem hafa vit fyrir liðinu. Umsvifamikill atvinnuvegur eins og heilbrigðisgeirinn býður upp á mörg tækifæri af þessum toga. Stjórnandi í röntgengeiranum sagði í vikunni að fyrr setti Framsóknarflokkurinn landbúnaðinn á Guð og gaddinn en að hann losaði um dauðatak ríkisins á heilbrigðisrekstri, þar sem verðlag er enn ákveðið með reglugerðum og landlæknir er spurður um hvaða rekstur sé “skynsamlegt” að aðrir en ríkið reki. Allt er þetta gert í fúlustu alvöru af okkar kjörnu fulltrúum… er ekki árið 2003??
Ef hagþróun verður með þeim hætti sem menn vonast til á næstu árum á ríkið auðvitað eftir að hætta öllum rekstri innan tveggja áratuga eða svo. Stór hluti þessarar tilfærslu verður vegna þess að aðrir en ríkið verða fyrri til að svara nýrri eftirspurn og þar með fellur hlutdeild ríkisns. Væntanlegur hæstaréttardómur um hvort fólki sé heimilt að kaupa heilbrigðisþjónustu fyrir sína peninga án þess að ríkið skipti sér af því gæti orðið athyglisvert skref í þessari þróun.

Sameinaðir stöndum vér
Allt sem eykur sundrung með myndgreingarfólki í landinu er óþurftarverk. Starfsemi myndgreiningar hérlendis er ákaflega fjölbreytt og nýsköpun á sumum sviðum hefur verið ótrúleg sl. ár. Ég og mitt fyrirtæki höfum notið þeirra forréttinda að fá að taka þátt í því flestu. Eins og aðrar greinar þurfum við að standa saman um sameiginlega hagsmuni, t.d. með því að skrá okkar eigin sögu.
Hvernig væri nú að við tækjum okkur saman og héldum árlega samkomu á röntgendaginn (eða helgina næst honum) þar sem við vekjum athygli á faginu? Við eigum nóg af frambærilegu fólki og verkefnum og þá er einnig auðvelt að fá erlenda fyrirlesara. Það væri við hæfi að veita félögum okkar sem unnið hafa ýmiskonar afrek bæði að fornu og nýju viðurkenningar greinarinnar á slíkum degi.

27.10.03 Smári Kristinsson.
        

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *