Hverjir ætla að vinna við PET?


Nýr heilbrigðisráðherra hefur lofað auknum krafti í byggingu nýs háskólasjúkrahúss og í því er gert ráð fyrir sameindamyndgreiningu. Dregist hefur úr hömlu að koma af stað PET rannsóknum hérlendis og þekking á þeim er takmörkuð við fámennan hóp.
#img 2 #

Ísótóparannsóknir gamaldags og úreltar.
Undanfarin ár og jafnvel áratugi hefur dregið jafnt og þétt úr notkun hinna sígildu ísótóparannsókna, vegna tilkomu annarra rannsóknamöguleika. Til skamms tíma höfðu margir í faginu það viðhorf að ísótóparannsóknir væru úreltar og mundu jafnvel leggjast af. Við sem héldum áhuganum á þessari grein vorum talin ofurlítið sérvitur og ekki bætti úr skák að á stærsta vinnustað myndgreiningarfólks, LSH, er ísótópastofan sérstök eining og lengi vel unnu þar hvorki geislafræðingar né röntgenlæknar.

Nýr vettvangur fyrir ísótópafólkið.

#img 1 #Síðan fóru að berast fréttir utan úr heimi af merkilegum rannsóknaaðferðum þar sem notuð voru geislavirk efni, PET rannsóknum. Áhugasamt fólk kynnti sér þessa nýjung og haldin voru vönduð námskeið og kynningar. Því miður er það þó þannig að eitthvað sem ekki er til hérlendis nær aðeins lítilli athygli flestra, fólk veit af þessu og kíkir e.t.v. öðru hverju á fréttir og greinar en einungis fáir áhugamenn fylgjast virkilega með.
Í júní á síðasta ári birtist hér á raforninn.is lítil klausa með upplýsingum frá Pétri H. Hannessyni, röntgenlækni.

Hættulegt þegar rannsóknamöguleika skortir.
PET tók stórstígum framförum, tengdist CT og MR og fleiri útfærslur á rannsóknum urðu til. Bæði tilvonandi geislafræðingar og röntgenlæknar fá bóklega kennslu um rannsóknaaðferðirnar og læknar í sérnámi erlendis kynna sér sameindamyndgreiningu.
Læknum sem snúa aftur “heim” að vinna eftir sérnám fækkar stöðugt, fækkunin verður meiri nú þegar efnahagsástandið hefur versnað og þeir verða líka færri ef þeir sjá fram á að geta ekki nýtt alla þekkingu sína hérlendis. Til dæmis vegna þess að hér er engin sameindamyndgreining, sem hefur m.a. afgerandi áhrif á meðferð krabbameinssjúkra.

#img 3 #
Svo fókusinum sé haldið á myndgreiningunni þá vill enginn röntgenlæknir þurfa að leita að svari við spurningu tilvísandi læknis með “annars flokks” rannsókn.
Nú er á döfinni að uppfæra Klínískar leiðbeiningar um myndgreiningu, sem finna má á vef Landlæknis og vef LSH, þar sem t.d. PET-CT hlýtur í sumum tilvikum að verða gefið upp sem kjörrannsókn.

PET í nýtt háskólasjúkrahús.
Á vef um byggingu nýs háskólasjúkrahúss má finna grein eftir Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Landspítala, þar sem möguleikinn á sameindamyndgreiningu er sérstaklega nefndur sem rök fyrir því að halda framkvæmdum áfram af fullum krafti.
“ … öryggi sjúklinga verður þannig betur tryggt og unnt er að veita þeim betri þjónustu, meðhöndlun og aðhlynningu og skapa starfsfólkinu mun betri aðstæður en ella.

o Sjúklingar verða að óbreyttu sendir í auknum mæli til útlanda til greiningar og meðferðar með tilheyrandi óþægindum, áhættu og kostnaði fyrir samfélagið.

Dæmi: svokallað PET scan er orðinn sjálfsagður hluti af tæknibúnaði sjúkrahúss á borð við Landspítala, notað til dæmis við að greina umfang krabbameinsæxla og finna meinvörp fyrr en mögulegt er með öðrum aðferðum. Það er einfaldlega hvergi hægt að koma PET scan fyrir í núverandi húsakynnum Landspítala.“


Á sama vef er vitnað í orð sem Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra lét falla þann 6. maí sl.:
„Verði ég áfram í embætti mun ég tryggja að málið verði fært upp á vinnuborðið en ekki
#img 4 #sett til hliðar. Það er nefnilega hárrétt hjá Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Landspítala Háskólasjúkrahúss að það dýrt og óskynsamlegt að leggja árar í bát.“

Nú er orðið ljóst að Ögmundur stýrir heilbrigðisráðuneytinu áfram og hlýtur því að verða að standa við orð sín.
Þar með er líka ljóst að íslenskt myndgreiningarfólk verður að vera tilbúið að byggja upp rannsóknir í tækjaflokki (e. modality) sem við höfum ekki haft í höndunum áður. Það er okkur reyndar ekkert nýnæmi því þróun í myndgreiningu er ör og alltaf hefur gengið vel að innleiða nýjungar, s.s. tölvusneiðmyndatöku, segulómun og stafræna röntgenmyndgerð.

Kjarnlækningafélag Íslands í undirbúningsvinnu.
Íslenskt ísótópafólk hefur stofnað með sér Kjarnlækningafélag Íslands til að vinna að málefnum tengdum allskyns rannsóknum þar sem geislavirk efni koma við sögu. Félagið hefur fram að þessu ekki verið mjög virkt en sjá má fyrir sér að nú geti það þjónað sem sameiginlegur vettvangur ríkis- og einkageira, safnað upplýsingum og deilt þeim til félagsmanna, lagt til fagfólk í undirbúningsnefndir, stýri- og faghópa o.s.fr.
Samkeppni er nauðsynleg en að sumum hliðum mála er sjálfsagt að fagfólk úr ríkis- og einkageira vinni saman.

Verður er verkamaðurinn launa sinna.
Til gamans má geta þess að í Bandaríkjunum eru geislafræðingar sérmenntaðir í sameindamyndgreiningu mun betur launaðir en þeir sem vinna í öðrum tækjaflokkum. Í nýlegri skýrslu frá Vinnumálastofnun Bandaríkjanna (U.S. Department of Labor) kemur fram að sameinda-geislafræðingur hefur að meðaltali sem svarar um 8,5 milljónum íslenskra króna í grunnlaun á ári, 67.480 dollara. Næstir koma þeir sem hafa sérmenntun í ómskoðunum, með 62.660 dollara á ári, eða um 7.8 milljónir íslenskar.

Brettum upp ermarnar, búum okkur undir komu sameindamyndgreiningar til Íslands og leggjum saman kraftana til að svo verði sem allra fyrst. 

11.05.09 Edda Aradóttir ea@ro.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *