Þessi árin eru margskonar undirstraumar í myndgreiningu eins og öðrum atvinnurekstri. Tækniþróunin er með ólíkindum, bæði hvað varðar gagnasöfnun og greiningu, en einnig um margt sem lítur að stjórnun og skipulagi. Hér á landi er orðin til fjölbreytt flóra í myndgreiningarrekstri þar sem áherslur eru misjafnar.
Sérhæfing og hágæðaþjónusta
Á hvað eiga menn að setja stefnuna til að nýta möguleikana í dag við undirbúning verkefna morgundagsins? Menn eiga að einbeita sér að því að veita bestu þjónustuna. Það þýðir t.d. að senda fólk frá sér í rannsóknir þar sem menn vita að sjúklingurinn er betur kominn í annarra höndum. Þannig á heiðarleg samvinna og samkeppni að virka. Þannig vinna menn traust viðskiptavinarins og keppinauta til lengri tíma litið.
Tími fjölfræðinga er að líða undir lok og við tekur sífellt aukin sérhæfing. Í þessu landi hafa þúsundþjalasmiðir og reddarar af ýmsu tagi notið mikillar virðingar i öllum stéttum. Þau sjónarmið eiga nú æ meir á brattann að sækja á flestum vígstöðvum.
Ýmsar sérgreinar læknisfræðinnar sækja ákveðið inn í myndgreiningargeirann þessi árin. Útilokað verður að telja að myndgreining sem rekin er á almennum forsendum geti að jafnaði keppt við eigin myndgreiningu sérgreinar með góðum árangri. Til þess að sigra í þeirri samkeppni þarf sérhæfða myndgreiningarstarfsemi í háum gæðaflokki.
Minni einingar og skýrari markmið
Sumir eru enn fastir í að reikna hagkvæmni stærðarinnar. Sú hagkvæmni er enn að mestu reiknuð út frá úreltum hagnýtingartölum tækja og húsnæðis og er æði oft blekkingarhjal þeirra sem aðeins hafa yfirsýn yfir örlítið brot af raunveruleikanum. Í þessum hugmyndum er t.d. alltaf gengið út frá föstum gæðum rannsókna og að viðskiptavinurinn sé ekki næmur fyrir þjónustugæðum.
Með sívaxandi möguleikum á sérhverju sviði, hvort sem það eru undirgreinar myndgreiningar eða framfarir í þjónustustjórnun, verður augljóslega mikill munur á því besta og versta sem býðst. Sífellt stærri hluti verðmæta í hverri atvinnugrein byggist á þekkingu, verkferlum og skipulagi. Þetta þýðir jafnframt að möguleikar þeirra sem gera best aukast alltaf. Í okkar heimshluta munum við á næsta áratug væntanlega sjá upptrénaðar, frægar, stórar myndgreiningardeildir falla til jarðar, en við munu taka margar, nýjar, smærri einingar sem hafa hagnýtt tækifæri nútímans til að framleiða mjög verðmæta hágæðaþjónustu á tiltölulega þröngu sviði.
Unnið verður samkvæmt prótókollum í mun ríkari mæli en nú er gert, bæði vegna meiri stjórnunarþekkingar og ákvæða í lögum en líka vegna þess að búnaðurinn mun gera mönnum illkleyft að vinna öðruvísi.
Nútíma vinnubrögð
Geislafræðingar munu væntanlega byrja að lesa úr rannsóknum eftir að hafa undirgengist þjálfun á því sviði. Reynslan frá Bretlandi sýnir að gæði úrlestrar geislafræðinga á þröngum sérsviðum er framúrskarandi. Þetta þýðir líka að gæði rannsókna aukast þegar þekking geislafræðinga á úrlestri eykst.
Bein þjónusta við viðskiptavininn mun aukast. Fleiri munu vilja tala beint við lækninn sem ber ábyrgð á myndgreiningunni. Þetta þýðir að röntgenlæknar sem eru vanir að vera “fólkið á bak við tjöldin“ verða sýnilegri, sem er bráðnauðsynlegt í nútíma markaðssetningu.
Tengsl okkar íslenska myndgreiningargeira við umheiminn verða að aukast. Myndgreiningardeild Hjartaverndar er sú eina sem selur þjónustu í verulegu magni til erlendra aðila. Markaðurinn okkar er lítill og það er of þröngt um okkur. Ríkið heldur öllum heilbrigðisrekstri í helgreipum. Það er lífsspursmál fyrir greinina og framtíðarauðlegð landsins að vinna markaði fyrir heilbrigðisþjónustu erlendis. Það er ekki bara lyfjabransinn sem á erindi til útlanda. Nokkrir rekstraraðilar í myndgreiningu gætu t.d. sameinast um kaup á myndgreinarstöðvum í nálægum löndum. Þessi mál þola enga bið.
26.04.04. Smári Kristinsson.