Hvatningarræða!
Nú er kominn tími til að leggja höfuðið í bleyti, kæru kollegar!
Hin árlega ráðstefna í Vínarborg, European Congress of Radiology (ECR), nálgast og tími til kominn að fá hugmynd að góðu veggspjaldi (poster).
Við í Hjartavernd brutum blað í sögu íslenskra geislafræðinga og mættum til Vínaborgar með rafrænt veggspjald á ECR 2004 í mars sl.
Það get ég sagt ykkur að það er ótrúlega gaman eftir blóð, svita og tár að koma loks á ráðstefnu með ”poster” svo ekki sé minnst á þá tilfinningu að sjá nafnið sitt á gögnum ráðstefnunnar. Hugsa svo til þess að á þessari rúmlega 20.000 manna ráðstefnu hafi kannski einhver áhuga á að lesa það sem þú hefur lagt í pottinn.
Skilafrestur til að leggja inn drög (abstract) að veggspjaldi er 18. september 2004 en ráðstefnan sjálf verður haldin 4.- 8. mars 2005.
Það sem er kannski svolítið óvenjulegt við þessa ráðstefnu er að hin eiginlega veggspjalda-menning er ekki lengur við líði á ECR. Ráðstefnan er algerlega stafræn og tölvuskjáir og sýningartjöld hafa tekið við af hinum hefðbundnu veggspjöldum.
Þannig geta ráðstefnugestir t.d. nýtt tíma sinn betur og flett upp sínu áhugaefni í tölvu í staðinn fyrir að rölta herbergi úr herbergi að skoða veggspjöld. Nóg er af tölvum og er leyfilegt að sitja með kaffibolla í ró og næði og fletta upp ”veggspjöldum”, sem nú hafa fengið nýja vídd með hreyfimyndum og öllum þeim möguleikum sem tölvutæknin gefur okkur.
Í lok ráðsefnunnar eru svo bestu rafrænu veggspjöldin valin með hátíðlegri athöfn og veglegum verðlaunum.
Skráning á ráðstefnuna hefst svo 1. nóvember og þeir sem vilja spara, borga ráðstefnugjaldið fyrir 12. desember því þá hækkar gjaldið, en síðasti skráningardagur er 16. janúar 2005.
Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.ecr.org
Að lokum hvet ég alla sem hafa metnað og áhuga að skrá sig á ECR 2005.
Kveðja
Gyða S. Karlsdóttir
geislafræðingur