Hönnun

 
Hönnun húsnæðis er eitt af því sem ræður hversu góða heilbrigðisþjónustu er hægt að veita á staðnum, hvort sem um er að ræða deild innan sjúkrahúss eða sjálfstætt fyrirtæki. Sömu áherslur í hönnun geta átt við fleiri en eina tegund heilbrigðisþjónustu, aðeins þarf að útfæra þær á mismunandi vegu.

Netið er ótæmandi uppspretta athyglisverðs efnis og fyrir skömmu sendi einn af lesendum Arnartíðinda mér slóð að heimasíðu St. Joseph´s Hospital í Washington County í Bandaríkjunum. Stofnunin sem slík er 76 ára gömul en árið 2000 var byrjað á nýrri byggingu sem hýsir nú alla starfsemi St. Joseph´s. Þarna virðist hafa tekist frábærlega vel að halda heildaryfirsýn allt frá upphafi til enda, að svo miklu leyti sem hægt er að tala um endi því, eins og heilbrigðisstarfsfólk veit, þarf stöðugt að endurmeta og uppfæra vinnuaðstöðu og vinnuferla.

Áherslur í hönnun St. Joseph´s má finna hér…

Útdráttur á íslensku lítur svona út:
1. Sjúklingar í sjónlínu starfsfólks – Gluggar, myndavélar og lýsing hannað þannig að starfsfólk sjái alltaf hvern sjúkling.
2. Stöðlun – Raunverulega staðlaðar sjúkrastofur, með samskonar búnaði á sömu stöðum.
3. Sem mest sjálfvirkni – Það hefur sýnt sig að sjálfvirkni kemur í veg fyrir mörg mannleg mistök. Sem dæmi má nefna notkun strikamerkja og rafrænnar sjúkraskrár.
4. Sveigjanleiki – Enginn sér framtíðina fyrir, þess vegna þarf að reikna með húsnæðisbreytingum. Loftræstikerfi, raflagnir, pípulagnir, staðsetningu veggja og dyra, ásamt byggingarefni þarf að velja af kostgæfni.
5. Upplýsingar sem aðgengilegastar – Upplýsingar sem nota þarf við ákvarðanatöku þurfa að vera aðgengilegar á einum stað, sem næst sjúklingnum.
6. Hávaði sem minnstur – Hávaði veldur þreytu og einbeitingarskorti starfsfólks sem getur leitt til yfirsjóna og mistaka. Einnig skerðir hann hvíld sjúklinga sem er nauðsynleg fyrir ónæmiskerfið.
7. Sjúklingar hafi áhrif á þjónustu – Sýnilegt og aðgengilegt starfsfólk og gott rými fyrir fjölskyldu sjúklings hvetur til samvinnu fagfólks, sjúklings og aðstandenda.
8. Minnka þreytu – Minni hávaði, setaðstaða fyrir starfsfólk, mjúk gólfefni og sem stystar vegalengdir milli staða sem vinna þarf verk á eru dæmi um leiðir til að minnka þreytu og um leið líkur á mistökum.
9. Gæta alltaf og allsstaðar að öryggisstöðlum.
10. Miða alla hönnun við veikustu sjúklingana.
11. Huga að mannlega þættinum – Áhrif búnaðar, tækni og húsnæðis á starfsfólkið þarf alltaf að hafa í huga. Sem dæmi má nefna stöðlun og einföldun allsstaðar þar sem mögulegt er.
12. Gera ráð fyrir og fækka algengum áhættuþáttum.

Allt þetta á við myndgreiningarstaði, með aðeins litlum tilbrigðum, og heilt sjúkrahús þar sem öll þessi atriði hafa verið höfð í huga frá upphafi hljómar sérlega vel í mín eyru. Þetta ekki einu sinni flókið og þar að auki til óteljandi vefsíður og bækur um svipað efni. Vonandi bera þeir sem ráða húsbyggingum, til dæmis á nýju hátæknisjúkrahúsi, gæfu til að horfa á heildarmyndina. Sama máli gegnir um alla þá myndgreiningarstaði sem verið er að endurnýja þessa dagana í framhaldi af stafrænni tækni; Akureyri, Húsavík, Keflavík, St. Jósefs í Hafnarfirði, Selfoss, Neskaupstaður o.s.fr., flýtið ykkur hægt og sparið á réttum stöðum!

19.06.06 Edda Aradóttir edda@raforninn.is   

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *