Hollusta styrkir beinin

Eins og undanfarin ár verður alþjóðlegi beinverndardagurinn 20. október n.k. og að þessu sinni leggur félagið Beinvernd áherslu á mikilvægi fæðu og næringar í að byggja upp hámarks beinmassa og viðhalda honum. Á alþjóðlega beinverndardaginn í fyrra lagði Beinvernd áherslu á mikilvægi hreyfingar til að auka og viðhalda styrk beina. Þema Beinverndar liggur nokkuð ljós fyrir en það er að undirstika ábyrgð einstaklingsins á sínum lífsstíl og möguleika hvers og eins á því að byggja upp sterk bein og viðhalda styrkleikanum eins og unnt er.

Næring skiptir máli
Eins og við vitum eru beinin lifandi vefur sem er í stöðugum vexti frá fæðingu fram á fullorðinsár. Þegar við höfum náð 20 – 30 ára aldri er styrkur og þéttleiki beina í hámarki. Rétt eins og öll önnur líffæri í líkamanum þarf beinagrindin stöðugt á orku og næringu að halda. Hollt og næringarríkt fæði er því nauðsynleg forsenda fyrir uppbyggingu sterkra beina. Kalk-, prótein- og D-vítamínrík fæða er gott veganesti til að uppfylla kröfur beinmyndunar.

Beinmassi háður fleiri þáttum
Aðrir þættir ákvarða einnig beinmassa og má þess geta að erfðaþátturinn ræður stórum hluta eða 60 – 80%, eðlilegur kynþroski hefur áhrif á beinmassa og segja má að aðrir þættir svo sem mataræði og hreyfing geti ákvarðað um 20 – 40% af styrk beina

Dulin einkenni
Beinþynning einkennist af minnkuðum beinmassa og rýrnun á beinvef sem veldur því að beinin verða stökk og hætta á beinbrotum stóreykst. Einkenni beinþynningar eru dulin og oftar en ekki verður einstaklingur ekki var við sjúkdóminn fyrr en fylgikvillar, eins og beinbrot við lítinn eða engan áverka, gera vart við sig. Algengustu brotin vegna beinþynningar eru framhandleggsbrot, hryggjar –og mjaðmarbrot.

Alvarlegar afleiðingar
Afleiðingar beinþynningar eru skelfilegar og má með sanni segja að fátt rýri lífsgæði á efri árum eins mikið og beinþynning. Talið er að þriðja hver kona eftir fimmtugt brotni af völdum beinþynningar og áttundi hver karl.
Alvarlegustu brotin eru lærleggshálsbrot og eru þau nær alltaf afar sársaukafull. Hvert mjaðmarbrot leiðir til sjúkrahúsdvalar og skurðaðgerðar. Einnig má geta þess að umtalsverð dánartíðni er fyrstu vikurnar eftir brotið og margir ná aldrei fyrri getu og lífsgæði þeirra er mjaðmarbrotna skerðast töluvert.
Samfallsbrot geta einnig haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Hryggjarliðbolir sem ganga saman, ýmist sem fleygbrot eða hrun, ná ekki fyrri lögun og við endurtekin brot myndast oft kryppa og líkamshæð lækkar. Aflögun á líkamsvexti veldur oft miklum sálarþjáningum og samfallsbrotin geta einnig verið undirrót langvinnra bakverkja.

Forvarnir nauðsynlegar alla ævi
Til að forðast að lenda í þessum aðstæðum er okkur hollt að huga að beinvernd alla ævi. Áhrifaríkasta forvörnin gegn brotum af völdum beinþynninga er að byggja upp sem sterkust bein á uppvaxtarárunum, meðan beinin eru að mótast. Forvarnir eru samt sem áður nauðsynlegar hverjum manni alla ævi. Til að undirstrika boðskap beinverndar minni ég á að holl fæða og hæfileg hreyfing eru þættir sem allir ættu að hafa í huga með tilliti til uppbyggingar beina og ekki síður andlegri velliðan.

Takk fyrir mig.
Díana Óskarsdóttir, 02.10.06 
Höfundur starfar við beinþéttnimælingar á LSH 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *