Hinn fullkomni tæknimaður


Fókusgrein vikunnar fjallar um eiginleika hins fullkomna tæknimanns og þær kröfur sem til hans eru gerðar. Hún er byggð á grein hjá Minnu frænku um erindi Keith Skaer á nýliðnu ársþingi The Society for Imaging Informatics in Medicine, SIIM (áður SCAR).

Lauslega byggt á niðurstöðum könnunar
Skaer kynnti niðurstöður könnunar sem gerð var á vefsíðu ClubPACS og tók saman 12 nauðsynlegustu kosti hins fullkomna PACS umsjónarmanns (administrator). Ég tók mér það bessaleyfi að vinna úr þessu 10 atriði og yfirfæra á alla tæknimenn í myndgreiningu. Tekið skal skýrt fram að orðið tæknimaður á jafnt við konur og karla.



#img 1 #Samskipti
Hinn fullkomni tæknimaður þarf fyrst og fremst að vera leikinn í samskiptum. Hann þarf að skilja orð og hugtök sem eru í daglegri notkun í læknisfræðihluta myndgreiningar og gæta þess að notendur tæknibúnaðar skilji grunnhugtök og orð í tölvu- og tæknihlutanum. Hann þarf að geta talað við notendur þannig að þeir skilji hvað um er að ræða.

#img 2 #


Skipulag
Hinn fullkomni tæknimaður þarf að skipuleggja vinnu sína vel. Hafa verkferla fyrir reglubundið eftirlit og skrá allt sem hann gerir. 



                                                     Upplýsingamiðlun
#img 3 #
Hinn fullkomni tæknimaður þarf að miðla upplýsingum og spyrja notendur um það sem þarf til að tryggja að báðir aðilar séu með á hreinu hver útkoman er.




#img 4 #

Þolinmæði og jákvæðni
Hinn fullkomni tæknimaður þarf að vera þolinmóður og jákvæður því margir notendur skilja tæknina ekki vel og sumir þeirra láta streitu og reiði vegna truflana á starfsemi bitna á tæknimanninum.

Framsækni
Hinn fullkomni tæknimaður þarf að vera framsækinn. Hann þarf að leita eftir samskiptum við notendur og fylgjast með kerfunum sem hann þjónustar. Hann má ekki eingöngu láta sjá sig þegar berast villuboð eða tilkynning um bilun. 

Lærdómur
Hinn fullkomni tæknimaður þarf að vera námfús. Hann þarf að nota netið, lesa fagtímarit, fara á ráðstefnur, kynnast kollegum sínum og mynda tengsl við framleiðendur til að fá alltaf nýjustu upplýsingar.

Vitneskja
Hinn fullkomni tæknimaður þarf að gera sér grein fyrir því hvað hann veit ekki. Enginn í myndgreiningu getur vitað alla skapaða hluti. Nauðsynlegt er að spyrja spurninga og vita hvert er best að leita eftir upplýsingum og fróðleik.


„Multitasking“
Hinn fullkomni tæknimaður þarf að geta unnið að mörgum verkefnum í senn en eiga um
#img 5 #leið auðvelt með að sundurgreina þau.

Sveigjanleiki
Hinn fullkomni tæknimaður þarf að vera sveigjanlegur og hugmyndaríkur því tæknin breytist ört og þarfir notenda eru misjafnar. Hann þarf að geta notað þekkingu sína til að víkka notkunarsvið hinnar ýmsu tækni og finna nýjar leiðir að takmarki notandans. Hann þarf þó að vara sig á að ætla ekki að finna hjólið upp að nýju heldur leita upplýsinga hjá kollegum og framleiðendum um hvort einhversstaðar sé búið að finna leið að sama marki.



#img 6 #Líf utan vinnu
Hinn fullkomni tæknimaður þarf, síðast en ekki síst, að eiga sér líf utan vinnu. Ábyrgð á tæknimálum í læknisfræðilegri myndgreiningu þýðir að vera til taks allan sólarhringinn hvaða dag vikunnar sem er. Þess vegna er mikilvægt að deila vinnu niður á vaktir og lífsnauðsynlegt að geta tekið sér frí. Tími sem varið er með fjölskyldu og vinum, við að sinna áhugamálum og huga að eigin vellíðan skilar sér í meiri virkni og jákvæðni í starfi.


23.07.07 Edda G. Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *