Í sjónvarpsfréttum RÚV sl. laugardagskvöld, 24. janúar 2004, var sýnt þegar björgunarsveitarmönnum voru færð fegurstu blóm og þakkir fyrir afrek sín við björgun áhafnar Sigurvins GK. Þeir eiga þetta svo sannarlega skilið en það eru til fleiri hetjur.
Kvikmyndahetjur
Við erum nefnilega líka hetjur. Já, við… myndgreiningarfólkið. Ég hef oft velt því fyrir mér, og gert það að umfjöllunarefni í ræðu og riti, hvers vegna við erum svona ósýnileg. Eða það sem verra er, dregin upp ósköp grá og leiðinleg mynd af okkur. Í kvikmyndum og framhaldsþáttum, til dæmis Bráðavaktinni, sést myndgreiningarfólk yfirleitt aldrei en í bakgrunni hanga iðulega gallaðar röntgenmyndir sem virðast hafa verið hirtar upp úr ruslinu einhversstaðar og síðan hengdar upp öfugar eða jafnvel á hvolfi. Ofurhetjurnar á bráðamóttökunni þurfa oft að bíða eftir myndum sem að sjálfsögðu eru á filmum en ekki samstundis sýnilegar á skjá eins og eðlilegt er nú til dags. Töfin setur sjúklinginn í enn meiri lífshættu og gefur ofurhetjunum tækifæri til að sýna enn stórfenglegri takta við að bjarga honum. Úrlestur er að sjálfsögðu í höndum lækna á bráðamóttöku, nema í þeim tilvikum sem hægt er að ljá þeim enn meiri hetjuljóma með því að draga upp rangt svar frá röntgenlækni sem hetjulæknirinn þarf að leiðrétta svo sjúklingurinn bíði ekki bráðan bana af.
Fjölmiðlaumfjöllun
Í íslenskum fjölmiðlum, öðrum en Arnartíðindum, verður aldrei vart við myndgreiningarfólk nema í þau örfáu skipti sem við höfum átt í einhverskonar vinnudeilum eða skaðsemi geislunar er til umræðu.
Nýlega sló Fréttablaðið upp fyrirsögninni: „Sjúkdómsvæðing sem þvingar konur“. Undir henni var fjallað um gagnrýni dr. Peters C. Götzsche á bréfasendingar Leitarstöðvar KÍ þar sem konur eru hvattar til að mæta í skimun fyrir brjóstakrabbameini. Enn er það á neikvæðu nótunum sem kastljósið beinist að okkur.
Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu, ekki síst á LSH, dregur upp þá mynd að allir heilbrigðisstarfsmenn hjá ríkinu séu að setja þjóðfélagið á hausinn. Af fréttaflutningi að dæma væri heilbrigðiskerfi ríkisins algjör draumur bara ef við værum ekki á þessum feiknaháu launum. Útköll á bakvöktum eru stundum tekin sem dæmi um eitthvað sem eykur kostnaðinn gríðarlega og þá, „loksins“, eru geislafræðingar nefndir til sögunnar.
Jón og séra Jón
Undanfarið hefur RÚV mikið flaggað Birni Flygenring, hjartalækni sem starfar í Bandaríkjunum, og í Morgunblaðinu laugardaginn 24.01.04 birtist síðan stutt grein þar sem Björn greinir frá mikilli byltingu í greiningu hjartasjúkdóma með notkun tölvusneiðmyndatöku. Augnablik… er ekki verið að gera eitthvað svipað hjá Röntgen Domus í Mjóddinni?
Í sömu grein er einnig minnst á notkun segulómunar við greiningu hjartasjúkdóma og enn vitnað í Björn. Neðanmáls er lítil klausa þar sem nefnt er að hjá Hjartavernd sé segulómun notuð á þann hátt. Augnablik… er ekki komið á annað ár síðan þau byrjuðu á því?
Það virðist þurfa lækni úr annarri sérgrein og starfandi í annarri heimsálfu til að myndgreining komist með jákvæðum formerkjum í fjölmiðla. Þá er skyndilega ekkert rætt um áhættu af geislun eða þvingun og sjúkdómsvæðingu þó Björn virðist einmitt vera að tala um skimun fyrir hjartasjúkdómum hjá einkennalausu fólki. Er enginn reiður út af þessu nema ég?
Ranghugmyndir og þekkingarskortur
Þess vegna segi ég að við séum hetjur. Við vinnum eins og vitlaus alla daga við að greina sjúkdóma svo aðrir geti læknað þá. Það þýðir nefnilega lítið fyrir skurðlækninn að draga upp hnífinn ef hann veit ekki hvar á að skera, svona svo dæmi sé tekið. Þeir sem vinna hjá ríkinu þurfa að rukka fólk um sífellt hærri upphæðir, eftir gjaldskrá sem er næstum ómögulegt að skilja eða fylgjast með öllum breytingum á. Þeir sem vinna í einkageiranum þurfa að sitja undir þeim meiningum að þeir hugsi ekki um neitt nema að græða. Öll megum við þola það að einungis þeir sem þurfa oft á okkar þjónustu að halda hafa minnstu hugmynd um hvað við erum að gera. „Röntgen… já, svona til að taka myndir ef einhver fótbrotnar eða eitthvað“.
Hver hlekkur jafn mikilvægur
Þeir sem bjarga mannslífum utan sjúkrahúsa eru hetjur. Ég er innilega sammála því og hef ótal sinnum séð í minni vinnu hverskonar afrek björgunarsveitamenn, sjúkraflutningamenn og lögregla geta unnið. Samstarfsmenn okkar á slysa- og bráðamóttökum kunna líka svo sannarlega sitt fag… en myndgreiningarfólk er mikilvægur hluti af starfsfólki við bráðamóttöku, ekki einhverjir aukahlutir sem tefja bara fyrir.
Myndgreiningarfólk sem vinnur rannsóknavinnu eða skimun stuðlar að auknu heilbrigði og meiri lífsgæðum fólks. Þau stuðla að því að fólk þurfi ekki á þjónustu sjúkrastofnana að halda. Sá sem grípur mann áður en hann fellur í jökulsprungu er engu minni hetja en sá sem dregur upp þann sem dottinn er niður.
Ekki má heldur gleyma því að myndgreiningarfólk gerir engum gagn nema tækin okkar séu í lagi. Tæknimenn vinna svo sannarlega bæði við forvarnir og bráðahjálp. Hetjur!
Stolt og metnaður
Við erum hetjur, hvar sem við vinnum og hvaða hlutverki sem við gegnum í myndgreiningunni. Þess vegna eigum við að bera höfuðið hátt og aldrei að láta neikvæða umfjöllun eða afskiptaleysi draga úr okkur kjarkinn. Faglegur metnaður er það sem gildir. Við skulum alltaf hafa það markmið að veita frábæra þjónustu, gera enn betur í dag en í gær, láta gamlan vana ekki sljóvga hugann, gera okkur sýnileg á jákvæðan hátt og vera stolt af framlagi okkar til þjóðfélagsins.
26.01.04 Edda Aradóttir.