Heilsuvernd heilbrigðisstarfsfólks

Þegar nýtt ár hefst beinist hugur fólks oft að málefnum tengdum heilsu. Hjá mörgum loða afleiðingar nýafstaðinna hátíðahalda enn við mittið, aðrir eru þungir í lund í skammdeginu og enn aðra gerir vetrarkuldinn stirða og sára í liðum.

Hugum að eigin heilsu
Í vinnunni sjáum við iðulega afleiðingar þess ef fólki tekst ekki að hugsa nógu vel um
#img 1 #heilsuna; hverskyns stoðkerfisvandamál, offitu, sjúkdóma tengda
#img 2 #reykingum eða öðrum eiturefnum, o.fl. Einnig verðum við oft vör við merki um slæma andlega heilsu, þó slíkt sé ekki rannsakað beint með myndgreiningu.
Þetta hlýtur að halda okkur vakandi gagnvart eigin heilsu og stjórnendur í heilbrigðiskerfinu ættu að gera sér manna best grein fyrir mikilvægi þess að starfsmenn haldi góðri heilsu. Samspil þessara tveggja hópa er mikilvægt því við verjum býsna stórum hluta ævinnar í vinnunni.

Hvað bjóða vinnustaðirnir

#img 3 #Hvað bjóða vinnustaðir myndgreiningarfólks upp á til að hjálpa starfsfólkinu að halda góðri heilsu? Það er fjölmargt, jafnvel fleira en margur mundi telja. Vissulega eru þetta mjög misstórir vinnustaðir í mismunandi rekstrarumhverfi en þar sem ég leitaði upplýsinga virðist allsstaðar stefnt markvisst að góðri heilsuvernd fyrir starfsmenn.

Landspítali – Háskólasjúkrahús 
Ef byrjað er á þeim stærsta, LSH, býðst starfsmönnum þar fjölþætt þjónusta á sviði heilsuverndar og vill sjúkrahúsið gjarna vera til fyrirmyndar hvað þetta varðar. Á deild heilsu-, öryggis- og vinnuumhverfis (HÖV), á skrifstofu starfsmannamála, er markmiðið að efla starfsemi vinnuverndar og heilsueflingar á LSH. Verkefnastjóri vinnuumhverfismála veitir stuðning og ráðgjöf
#img 10 #varðandi málefni er snerta vinnuumhverfi starfsmanna. Starfsmannahjúkrunarfræðingur sér meðal annars um framkvæmd heilbrigðisviðtals og bólusetningar starfsmanna. Trúnaðarlæknir spítalans og deildarstjóri HÖV deildar veita starfsmönnum og stjórnendum ráðgjöf þegar endurtekin/langvarandi veikindi eiga sér stað sem tengjast eða hafa áhrif á starf viðkomandi.

Haldnar eru kynningar fyrir nýráðna starfsmenn á sjúkrahúsinu þar sem m.a. er farið í stjórnskipulag og starfsumhverfi sjúkrahússins, réttindi sjúklinga og skyldur starfsmanna ásamt því að starfsmannastefna og jafnréttisáætlun er kynnt. Einnig er farið í heilsutengda þætti í vinnuumhverfi starfsmanna.
#img 11 #Öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir, ásamt öðrum starfsmönnum, fylgjast með vinnuaðstöðu og vinnuumhverfi. Öllum nýráðnum starfsmönnum er bent á að fara í heilbrigðisviðtal hjá starfsmannahjúkrunarfræðingi þar sem farið er yfir almennt heilsufar, framkvæmt berklapróf og metin þörf fyrir lifrarbólgubólusetningu. Á spítalanum er boðið upp á kennslu í líkamsbeitingu og vinnustellingum á vegum starfsmannasjúkraþjálfara. Stuðnings- og ráðgjafarteymi starfsmanna hefur það að markmiði að styrkja starfsmenn sem standa frammi fyrir álagi eða áföllum sem hafa veruleg áhrif á líðan þeirra eða starfsgetu.
Líkamsrækt telst mjög æskileg í nútíma þjóðfélagi og starfsmenn LSH geta þjálfað líkamann í endurhæfingaraðstöðu sjúkrahússins, bæði í Fossvogi, á Hringbraut og á Landakoti, sér að kostnaðarlausu. Einnig bjóðast þeim afsláttarkjör hjá nokkrum líkamsræktarstöðvum á höfuðborgarsvæðinu.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri
FSA er ríkisspítali á landsbyggðinni og mun minni vinnustaður en LSH. Þar hefur undanfarið ár verið í gangi átak sem nefnist Heilsuefling starfsmanna á FSA, undir
#img 4 #yfirumsjón starfsmannastjóra, Baldurs Dýrfjörð. Boðið er upp á ýmiskonar fræðslu varðandi heilbrigt líferni, í mötuneyti er gott úrval af hollum mat og starfsmenn eru reglulega minntir á nauðsyn þess að huga vel að heilsunni. Starfsmenn njóta afsláttarkjara hjá líkamsræktarstöðvum á svæðinu og einnig tekur sjúkrahúsið þátt í kostnaði við kaup á skíða- og sundkortum.
Stuðningsteymi fyrir starfsmenn er reiðubúið til hjálpar þegar áföll verða en aðstoð vegna samskiptaörðugleika eða erfiðleika tengdra andlegri heilsu fæst í gegnum starfsmannastjóra og yfirstjórn sjúkrahússins sem leita lausna í samvinnu við fagfólk bæði innan og utan FSA.
Eins og á LSH eru það yfirmenn deilda sem bera ábyrgð á að koma í farveg ábendingum og skoðunum starfsmanna varðandi vinnuaðstöðu.

Þreyttir ríkisstarfsmenn
Í óformlegu spjalli við nokkra starfsmenn myndgreiningar ríkisspítalanna, LSH og FSA, var áberandi að næstum allir nefndu óhóflegt vinnuálag og andlega lýjandi umhverfi þegar þeir voru beðnir að nefna það sem verst færi með heilsu þeirra. Þeir hafa sjaldan
#img 5 #tækifæri til að hafa bein áhrif á vinnuaðstöðu sína, starfsfólk er of fátt miðað við verkefni, stjórnun felst í fyrirskipunum “að ofan” og góðar tillögur um úrbætur kafna oftast í óralöngu ferli og/eða illa ígrunduðm sparnaðaraðgerðum. Heilsufarsvandamál þar virðast af þessu að dæma aðallega eiga uppruna sinn í rekstrarforminu og þá er skiljanlega erfitt að ráðast að rótum vandans þó nóg sé af góðu fólki sem er tilbúið að leita lausna fyrir samstarfsmenn sína þegar eitthvað bjátar á.

Einkageirinn
Hjá einkafyrirtækjunum Röntgen Domus og Röntgen Orkuhúsinu er einnig hugað vel að heilsuvernd starfsmanna. Þar er stórum styttri “vegalengd” milli stjórnenda og hins almenna starfsmanns, allir eru hafðir með í ráðum við hönnun vinnuaðstöðu og ekki þarf alltaf að hugsa fyrst og fremst um hvað sé á lægstu verði í augnablikinu.

Orkuhúsið

#img 6 #Einfríður Árnadóttir, í Orkuhúsinu, segir vinnuvistfræði (ergonomiu) leika mjög stórt hlutverk hjá fyrirtækinu. Öll tæki, borð og stólar eru valin af kostgæfni, lýsing vönduð og reynt að hafa sem minnstan hávaða í umhverfinu. Gætt er að réttum vinnustellingum og að ekki þurfi að bogra eða taka óþarflega mörg skref, o.s.fr. Góð tengsl eru milli allra starfsmanna og “stéttaskipting” er óþekkt fyrirbæri. Röntgen Orkuhúsið býður starfsmönnum sínum upp á ávexti og grænmeti, til að stuðla að hollu mataræði.


Röntgen Domus

Sem dæmi um góða hluti nefndi Birna Jónsdóttir, hjá Röntgen Domus, rafhækkanleg
#img 7 #borð, fjölbreytta vinnu og húsnæði sem hannað er til að auðvelda starfsmönnum að hjálpast að í vinnu. Allir ráðningarsamningar hjá fyrirtækinu eru einstaklingsbundnir vinnustaðasamningar, lagaðir að þörfum og óskum hvers og eins. Samstöðu innan hópsins er haldið við á markvissan hátt og reynt að leysa vandamál í sameiningu. Í einstaklingsbundnum starfsmannaviðtölum hefur fólk sérstakt tækifæri til að hafa áhrif á vinnu og vinnuumhverfi.


Bólusetningar og rannsóknir

#img 8 #Allir fjórir vinnustaðirnir sem leitað var til bjóða starfsmönnum sínum upp á fría flensubólusetningu og ríkisspítalarnir einnig bólusetningu gegn lifrarbólgu B. Röntgen Domus gefur starfsmönnum sínum og þeirra nánustu hlut sjúklings í myndgreiningarrannsóknum og hjá Röntgen Orkuhúsinu fá starfsmenn og nánasta fjölskylda þeirra fríar rannsóknir.


#img 9 #
Tökum ábyrgð á eigin heilsu

Myndgreiningarfólki sem vill huga vel að heilsunni stendur ýmislegt til boða. Það mikilvægasta er að hver og einn taki ábyrgð á sjálfum sér, noti sér það sem í boði er og leggi sig fram um að hafa jákvæð áhrif á bæði sjálfan sig og umhverfi sitt. 

23.01.06 Edda Aradóttir edda@raforninn.is         

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *