Yfirlýst markmið fulltrúa heilbrigðistæknisviðs LSH er að auka starfsemi sína innan myndgreiningargeirans, með því að stækka litla þjónustueiningu sem eingöngu hefur þjónað röntgendeild LSH á Hringbraut en sú röntgendeild hefur verið töluvert umsvifaminni en myndgreiningardeild LSH í Fossvogi. Raförninn hefur ekki fengið að gera tilboð í að þjóna myndgreiningarstarfseminni við Hringbraut.
Það er sérkennilegt að ríkisfyrirtæki eins og LSH sem virðist eiga í fullu fangi með að reka sína kjarnastarfsemi vaði þannig yfir fyrirtæki í stoðþjónustu á einkamarkaði sem rekur miklu umsvifameiri og öflugri þjónustu á viðkomandi sviði en spítalinn sjálfur. Er erfitt að sjá að uppsögn samninga við Raförninn styrki myndgreingarstarfsemi spítalans, enda alls óvíst að það sé markmiðið.
Þetta er persónulegt áfall fyrir mig, sem trúði því að þjónustusamningar okkar við spítalann byggðu á gagnkvæmu trausti og að þeir væru hagkvæmir báðum aðilum. Á rúmum tuttugu árum hefur Raförninn byggt upp mikla reynslu í að þjóna myndgreiningarstarfsemi sem best og lagt í mikinn kostnað við að þróa þjónustu sína í samræmi við þarfir spítalans. Samningarnir við LSH vega um 20% í rekstri Rafarnarins enda er hér um að ræða sólarhringsþjónustu alla daga ársins og yfirleitt ekki færri en 4 menn á bakvakt.
Við munum áfram veita starfseminni bestu þjónustu þar til allir samningar eru úr gildi fallnir og slaka þar hvergi á, enda erum við að þjóna samstarfsfólki okkar í áratugi sem á allt gott skilið.
Jafnframt er ljóst að við Rafernir verðum að beita allri okkar getu og þekkingu til að stuðla að frekari farsæld einkarekstrar á myndgreiningarsviðinu. Þar eru tækniþjónusta okkar og ráðgjöf metin að verðleikum því menn hafa ekki efni á öðru.
07.07.03 Smári Kristinsson.