Undirritaður sótti ECR 3 – 7 mars 2006. Þingið þótti heppnast mjög vel og tek ég undir það mat. Rétt er benda á glæsilegt framlag Hjartaverndar á ECR bæði í formi fyrirlestra og rafrænna veggspjalda (EPOS). Undirritaður lagði aðal áherslu á fjölsneiðatæknina í fyrirlestravali á ECR í Vínarborg og ber umfjöllunin þess glögg merki.
Annað sem ég vil sérstaklega benda á er viðtal við Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, stjórnsýslufræðing, í Læknablaðinu núna í mars. Viðtalið ber yfirskriftina “Eigum við ekki að ræða málin betur” og þar talar Sigurbjörg m.a. um hlutverk röntgenlækna í nútíma bráðasjúkrahúsi. Skyldulesning fyrir röntgenfólk!
Dual source CT
Dual source CT er fjölsneiðatæki með 64 nemaröðum sem er byggt upp með 2 röntgenlömpum og 2 nemaröðum sem liggja hornrétt (mynda 90% horn) hvor á annan. Nemaröðin sem liggur á hlið er minni en sú sem liggur undir borðinu. Spatial upplausn er ekki mikið meiri en í venjulegu 64 sneiða tæki. Aðalmunurinn liggur í temporal upplausn eða hraða myndatökunnar. Hraði er lykilatriði þegar verið er að mynda liffæri sem hreyfast og þá sérstaklega hjartað. Dual CT nær að mynda heilan hring (360% rotation) á 83 msek. Hefðbundin 64 sneiða tæki ná ekki heilum hring á minna en 330 msek. Dual source tæknin er sérlega áhugaverð fyrir hjartarannsóknir og jafnvel byltingarkennd nýjung á því sviði. TS gúrúinn Willi Kalender sagði í sínum fyrirlestri að dual source gefi möguleika á að minnka geislaskammta þar sem miklu máli skipti hvernig röntgengeislinn komi á sjúklinginn. Þannig er hagstætt að fá hluta af geislunum frá hlið sérlega á þykkustu svæðunum yfir axlir og mjaðmir.
Anders Magnusson prófessor í Uppsölum sagði mér að hann væri mjög spenntur fyrir tækninni. Hann sagði orðrétt: “Vi hoppar över 64 slice och går direkt till dual source”. Uppsalamenn eru þegar í viðræðum við Siemens um kaup á svona tæki.
Hlutverk fjölsneiða TS (MDCT) í kennslu og klínískri læknisfræði
A.K. Dixon frá Cambridge hélt athyglisverðan fyrirlestur þar sem hann benti á ónýtta möguleika MDCT til kennslu í læknisfræði. MDCT hefur í mörgum tilfellum yfirburði framyfir klíníska skoðun til greiningar sjúkdóma. Hann lagði fram nokkrar áleitnar spurningar. Hvenær á að breyta uppbyggingu læknanáms og sérfæðiþjálfunar þannig að tekið verði tillit til hinna gríðarlegu möguleika sem klínísk myndgreining býður uppá? Hvenær er komið að því að skera niður í vissum öðrum sérgreinum til að fá nauðsynlegt svigrúm fyrir myndgreiningu? Hvenær verður klínískum vinnubrögðum breytt á þann veg að kostir MDCT verði nýttir til fullnustu til hagsbóta fyrir sjúklinginn?
Bent er á vefsíðuna www.riti.org.uk
13.03.06 Halldór Benediktsson
Myndgreiningarlæknir FSA