Handhreinlæti

Hreinlæti er mikilvægt á öllum myndgreiningareiningum, utan sjúkrahúsa sem innan. Fyrr á þessu ári tók danskur geislafræðingur, Dina Due, þátt í verkefni sem miðaði að auknu handhreinlæti (hand hygiene). Rannsóknir og niðurstöður hópsins sem hún var í eru athyglisverðar.

Auk Dinu störfuðu í hópnum sjö hjúkrunarfræðingar og einn hópstjóri, einnig úr röðum hjúkrunarfræðinga. Verkefnið miðaðist við Skejby sjúkrahúsið í Aarhus í Danmörku en upplýsingar og niðurstöður nýtast, að mínu mati, allsstaðar og eru myndgreiningareiningar þar engin undantekning. Grein um verkefnið birtist í maí-hefti Radiografen og þar kom meðal annars fram að niðurstöður þess höfðu verið birtar á ráðstefnu um sýkingavarnir og hópurinn hlotið lof fyrir frammistöðuna.

Orsakir
Ef stiklað er á stóru og dregið fram það sem helst nýtist myndgreiningarfólki þá ber fyrst að nefna að þekkingarskortur er ekki marktæk orsök fyrir litlu handhreinlæti. Heilbrigðisstarfsfólk veit hversu mikilvægt handhreinlæti er, og hvers vegna, en samkvæmt niðurstöðum hópsins er handhreinlæti samt ekki fullnægjandi nema hjá um helmingi heilbrigðisstarfsmanna. Tímaskortur og mikið vinnuálag eru hinsvegar þættir sem minnka hreinlætið marktækt og það er nokkuð sem getur skipt máli fyrir myndgreiningarfólk. Við verðum að gæta þess að taka okkur tíma til að hreinsa hendur okkar svo við verðum ekki smitberar! Líka þegar brjálað er að gera.
Stefna stjórnenda skiptir einnig höfuðmáli. Handhreinlæti er mun meira þar sem markvisst er minnt á það og þess gætt að starfsmenn hafi góða aðstöðu og efni til að hreinsa hendur sínar.

Hindranir
Margir áþreifanlegir þættir geta haft áhrif á handhreinlæti og má þar nefna skartgripi, naglalakk, langar neglur, gerfineglur og langar ermar.
Skartgripir á höndum og úlnliðum hindra handhreinlæti, naglalakk getur verið í lagi svo fremi það sé glært, svo það feli ekki óhreinindi, og óskemmt, til að sóttkveikjur búi ekki um sig í rispum á því. Það er allt að því óframkvæmanlegt að ganga úr skugga um að lakkið sé óskemmt og þess vegna er mælt með að sleppa því alveg.
Undir löngum nöglum helst meira af sóttkveikjum en undir þeim stuttu og gerfineglur eru ákjósanleg gróðrarstía fyrir sóttkveikjurnar.
Handhreinlætið þarf að ná upp fyrir úlnliði og ermarnar mega ekki vera svo langar að þær hindri það.
Þurr húð, sprungur og sár auka magn sóttkveikja og hindra einnig handhreinlæti. Það er því mikilvægt að hirða hendurnar vel, ekki síður en að hreinsa þær.

Framkvæmd
Tvær aðferðir eru til við að hreinsa hendur, handþvottur og notkun handspritts (sótthreinsandi lagar). Það sem mér finnst merkilegast við niðurstöður umrædds starfshóps er að notkun handspritts er besta aðferðin við að hreinsa hendur og kemur mun betur en handþvottur í veg fyrir að smit berist. Að sjálfsögðu þarf að þvo sér ef hendurnar eru sýnilega óhreinar en fastlega er mælt með að nota alltaf handspritt á eftir. Einnig getur fólki fundist nauðsynlegt að þvo eftir margendurtekna hreinsun með handspritti því hendurnar geta orðið klístraðar.
Aðrir kostir hreinsunar með handspritti fram yfir handþvott eru þeir helstir að hún er fljótlegri, ekki þarf að nota þurrkur og hún fer betur með húðina því í sprittinu eru húðverndandi efni og það fjarlægir ekki húðfitu eins og sápa.
Samkvæmt niðurstöðum hópsins er blanda með 70 – 85% etanoli best, etanol veldur síður óþægindum í húð en propanol, og nota þarf 2 – 3 gusur úr skammtara (um 5 ml.) til að væta hendur og úlnliði. Dreifa þarf handsprittinu vel og nudda létt þar til það er þornað.

Það er gott að vita að notkun handspritts er í flestum tilvikum ekki aðeins jafngild handþvotti heldur betri kostur. Ef handspritt er haft á öllum rannsóknastofum myndgreiningareininga ætti starfsfólk auðveldlega að geta hreinsað hendur sínar á fullnægjandi hátt, án þess að það komi niður á afköstunum.

Nákvæmar upplýsingar um verkefni Dinu Due og félaga er að finna á slóðunum:

http://www.auh.dk/sks/afd/splfag/grafik/rethaaeg.pdf

http://www.auh.dk/sks/afd/splfag/grafik/haandh.pdf

Ég hvet myndgreiningarfólk til að skoða þetta efni og gæta vel að hreinlæti í starfi.
19.07.04 Edda Aradóttir.


  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *