Greindarskerðing af lágum geislaskömmtum


Geislun á höfuð ungbarna getur haft áhrif á námshæfileika þeirra.

Nýlega birtist í British Medical Journal [1] niðurstöður rannsóknar sænskra vísindamanna á áhrifum tiltölulega lágra geislaskammta á heila snemma á vaxtarskeiði barna. Niðurstöðurnar gefa vísbendingu um að slík geislun geti haft hamlandi áhrif á námsþroska síðar á ævinni.
Sú vitneskja að mikil geislun á heila fósturs í móðurkviði gæti haft áhrif á þroska barnsins og valdið því að barnið yrði þroskaheft, hefur lengi verið þekkt. Enda um að ræða þekkingu sem tilkomin er eftir áratuga rannsóknir á líffræðilegum áhrifum geislunar hjá þeim sem lifðu af árásirnar á Hiroshima og Nagasaki [2]. Einnig hefur verið sýnt fram á að háir geislaskammtar sem eru samfara geislameðferð vegna krabbameina, getur haft áhrif á andlegan þroska [3]. Það hefur aftur á móti ekki tekist að sýna fram á nein tengsl á milli lágrar geislunar og vitsmuna þroska.

Sænska rannsóknin er sérstök að mörgu leyti og þá fyrst og fremst fyrir þær sakir að þarna er um að ræða stóran hóp þátttakenda þar sem hægt var að tengja saman upplýsingar um þekkt geislaálag á yngri árum við upplýsingar um menntun og þjóðfélags aðstæður, sem og við upplýsingar um árangur í prófun á námshæfileikum og rökhugsun. Allt voru þetta karlmenn sem skoðaðir voru á aldrinum 18-19 ára vegna herþjónustu og gengust þeir þá undir margskonar próf til þess að mæla vitsmunaþroska. Einnig voru skráðar upplýsingar um menntun, fjölda systkina, fæðingarröð og starf föður. Innan þessa hóps var að finna tæplega 3000 einstaklinga sem höfðu farið í geislameðferð á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólm, fyrir 18 mánaða aldur vegna háræðaflækju [Haemangioma – upphleyptir fæðingarblettir, stundum kallaðir jarðaberjablettir [www.doktor.is]. Þessi geislameðferð var framkvæmd á árunum 1930 – 1960. Rannsakendur áætluðu hlutgeislaálag heilans út frá upplýsingum um geislameðferðina fyrir hvern og einn þátttakenda. Þannig var hægt að skipta þeim í 4 flokka í samræmi við áætlað geislaálag: 1-20, >20-100, >100-250, og >250 mGy. Staðsetning æðaflækjanna á líkamanum hafði mikið að segja um hlutgeislaálag heilans, hjá 19% þátttakenda var um að ræða hársvörð (meðalgeislaálag: 147mGy (max: 2,8 Gy)), andlitssvæði hjá 22% (meðalgeislaálag: 64 mGy (max 2,4 Gy)) og annars staðar á líkamanum hjá 69% (meðalgeislaálag: 16 mGy (max: 0,3 Gy)).

Niðurstöðurnar sýna að hærra hlutfall einstaklinga sem voru með hlutgeislaálag í flokkunum >100 mGy og hærra, gekk verr í skóla og fengu lakari útkomu í mati á námshæfileikum og rökhugsun. Þannig féll hlutfall þátttakenda sem var í námi þegar skoðun fór fram úr u.þ.b. 32% fyrir þá sem fengu enga geislun í 17% hjá þeim sem fengu meira en 250 mGy. Þó var tekið tillit til þátta eins og þjóðfélagsstöðu, menntun föður ofl..
Þetta er fyrsta rannsóknin sem með afgerandi hætti sýnir fram á að geislun á heila ungbarna (fyrir 18 mánaða aldur) geti haft þessi áhrif . Rannsakendur benda á að skoða þurfi við hvaða myndgreiningarrannsóknir, börn á þessum aldri eru að fá háa geislaskammta á heila. Endurskoða þurfi framkvæmd slíkra rannsókna til þess að draga úr geislaálagi og jafnvel þarf að endurmeta hvort rannsóknin sé réttlætanleg með tilliti þeirrar áhættu sem henni getur fylgt. Sérstaklega er bent á tölvusneiðmyndarannsóknir (TS) og þá rannsókn eins og TS af höfði eftir minniháttar áverka.

Nokkrir punktar til viðbótar um þetta efni
Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum innan læknisfræðilegrar myndgreiningar að fjöldi TS-rannsókna hefur aukist verulega á síðustu árum. Í dag er áætlað að þær séu á bilinu 10-15% af öllum röntgenrannsóknum, en voru fyrir 10 árum innan við 5% [4,5,6]. Það sem gerir TS-rannsóknir frábrugðnar öðrum röntgenrannsóknum er að þær eru yfirleitt geislaþyngri og sýnt hefur fram á að þessi 10-15% hafa í för með sér allt að 67% af heildargeislaálagi allra röntgenrannsókna [4,5,6]. Hvað varðar rannsóknir á börnum þá er áætlað að 11% af TS-rannsóknum séu af börnum yngri en 15 ára [5].

Börn eru viðkvæmari fyrir geislun og hlutgeislaálag þeirra við TS-rannsóknir er hlutfalslega hærra en hjá fullorðnum, þó notuð séu lægri tökugildi [6,7,9]. Einnig þarf að hafa í huga að margir sjúklingar koma oftar en einu sinni í sömu rannsóknina eða í rannsókn af sama svæði. Í bandarískri rannsókn kemur fram að um 30% sjúklinga koma allt að þrisvar í sömu rannsóknina, 7% koma 5 sinnum og 4% koma allt að 9 sinnum [5]. Tölur um þetta eru enn sem komið er ekki til hérlendis.
Vísbendingar eru um það að tíðni TS-rannsókna hjá börnum fari einnig mjög vaxandi [8] og er það eitt helsta áhyggjuefni margra í Bandaríkjunum og víðar, að verið sé að framkvæma þessar rannsóknir með “fullorðins” tökugildum, eða tökugildum sem ekki eru nægilega aðlöguð að stærð sjúklingsins og því eru þessar rannsóknir framkvæmdar með mun hærri gildum en nauðsynlegt er m.t.t. þeirra myndgæða sem þær þurfa að innihalda [6,7,9,11]. Rannsóknir hafa sýnt að hlutgeislaálag heilans við TS-rannsóknir af höfði barna geta verið á bilinu 30 – 60 mGy [4,5] og allt að 130 mGy [10].

Út frá geislavarna sjónarmiði þá er mikilvægast fyrir þá aðila sem framkvæma TS-rannsóknir af börnum að tryggja aðlögun tökugilda að aldri og stærð sjúklingsins í öllum tilfellum.

Heimildir:
1. Per Hall, et al. Effect of low doses of ionising radiation in infancy on cognitive function in adulthood: Swedish population based cohort study. BMJ Vol 328, 3. January 2004 (http://bmj.bmjjournals.com).
2. Otake M, Schull WJ. In utero exposure to A-bomb radiation and mental retardation; a reassessment. British Journal of Radiology. 1984 May; 57 (677): pages 409-14. [Abstract]
3. Anderson VA, et al. Cognitive and academic outcome following cranial irradiation and chemotherapy in children: a longitudinal study. British Journal of Cancer. 2000 Jan; 82 (2): pages 255-62. [Abstract]
4. G. Einarsson, S.M. Magnusson. Patient Doses And Examination Frequency For Diagnostic Radiology In Iceland 1993-1998. Radiological Protection of Patients in Diagnostic and Interventional Radiology, Nuclear Medicine and Radiotherapy. Proceedings of an international conference, March 2001, Malaga, Spain. IAEA, Vienna 2001.
5. Mettler FA Jr, et al. CT scanning: patterns of use and dose. Journal of Radiological Protection Vol 20, 2000, pages 353-9. [Abstract]
6. National Cancer Institute. Radiation and Pediatric Computed Tomography. A guide for Health care Providers. NCI, 2002 (www,cancer.gov).
7. FDA Public Health Notification: Reducing Radiation Risk from Computed Tomography for Pediatric and Small Adult Patients. [Tenging í skjal]
8. Brenner DJ. Estimating cancer risk from pediatric CT: going from the qualitative to the quantitative. Pediatric Radiology (2002) 32: 228 – 231. [Tenging í grein]
9. ICRP Publication 87. Managing Patient Dose in Computed Tomography. Annals of the ICRP, Publication 87 2000, Pergamon Press. (www.icrp.org)
10. Brenner DJ, et al. Estimated risks of radiation-induced fatal cancer from Pediatric CT. American Journal of Roentgenology, 2001, Feb; 176 [2]: pages 289-296.
[Tenging í grein]
11. Paterson A. et al. Helical CT of the body: are settings adjusted for pediatric patients? American Journal of Roentgenology, 2001, Feb; 176 [2]: pages 297-301.
[AJR Abstract]

10. janúar 2004
Guðlaugur Einarsson, geislafræðingur
Geislavarnir ríkisins
ge@gr.is
www.geislavarnir.is 


           

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *