Google sendi nýlega frá sér enn eina nýjung, Google Body Browser, netlægan hugbúnað sem keyrir í vafranum og gerir manni kleift að skoða líffærafræði mannslíkamans í þrívídd. Í ágætu kynningarmyndbandi með íslenskum texta, er hann kallaður líkamsvafrinn, sem er einföld og þægileg þýðing.
Byggir á WebGL
#img 1 #Body Browser er enn í þróun og fyrir þá tæknisinnuðu má nefna að hann byggir á HTML5 og WebGL tækninni, sem er hluti af HTML5 og innleiðir þrívíddarstuðning í vafra án þess að nota þurfi sérhæfðar viðbætur eins og “plug-in” eða forrit sem þarf að hlaða inn í tölvuna. Nýjustu útgáfur (beta-útgáfur) af nokkrum vöfrum hafa WebGL innbyggt, t.d. Firefox 4, Safari og Google Chrome.
Body Browser tilheyrir Google Labs, slóðin er http://bodybrowser.googlelabs.com/ og þar er fólki boðið upp á að hlaða niður einhverjum af þeim vöfrum sem hægt er að nota hann í.
Mjög gott verkfæri, opið öllum
Eins og fyrr segir er Body Browser á þróunarstigi og það eru takmörk fyrir því hve djúpt í
#img 2 #líffærafræðina er hægt að komast, þannig að eins og hann er núna býður hann kanski ekki upp á neinar stórfenglegar nýjungar fyrir fullnuma heilbrigðisstarfsfólk en ég sé fyrir mér að hann nýtist kennurum og nemum mjög vel, einnig til að útskýra ýmislegt fyrir sjúklingum og til þess að rifja upp það sem fólk hefur áður lært.
Body Browser lofar líka góðu sem kennslutæki fyrir grunn- og framhaldsskólakennara og nemendurnir hafa örugglega mjög gaman af að
#img 3 #leika sér með stillingar þannig að daman á myndinni líti út eins og Avatar eða eitthvað úr hryllingsmynd.
Þegar skoðað er eitt af þeim fjölda myndbanda sem til eru um Body Browser sést að sá sem bjó það til hefur fengið (verðskuldaðar) athugasemdir við það hvar á líkamanum hann byrjar skoðunarferðina en það minnir einmitt á hvað ákveðnum hópi grunnskólanema hefur í gegnum tíðina fundist mest spennandi við líffærafræði!
Fyrst og fremst er Google Body Browser ein af sárafáum leiðum að skýrum, þrívíðum líffærafræðimyndum sem er opin öllum, gjaldfrjálst. Með hjálp hans hefur hver sem er, með tölvuna og forvitnina eina að vopni, nú aðgang að upplýsingum sem fyrir ótrúlega skömmu voru einungis aðgengilegar heilbrigðisstarfsfólki og nemum í þeim greinum.
Öll heiti eru á ensku, þannig að ef fólk vill finna samsvarandi íslensk eða latnesk heiti getur það kostað svolitla fyrirhöfn en með hjálp orðabóka og ýmissa þýðingartóla ætti það ekki að vefjast fyrir neinum.
#img 4 #Fljótleg aðferð til að sjá heiti á líffærum er að smella á takkann Labels off, þannig að heiti hvers líffæris sé alltaf sýnilegt. Eftir því sem þysjað er inn (zoom), með skrunhjólinu á músinni eða + takkanum til vinstri í Body Browser, birtast heiti á fleiri líffærum á því svæði.
Body Browser býður líka upp á leitarbox sem kemur með uppástungur að leitarorði jafnharðan, eftir því sem maður slær inn fleiri stafi. Þetta er kunnuglegt fyrir Google notendur en það er gott að hafa í huga að stöku sinnum þarf að nota önnur orð en flestir mundu búast við, t.d. þýðir ekkert að leita að “teeth” ef maður vill skoða tennurnar, heldur “tooth” í eintölu.
Virkar í nýjustu vöfrum
Enn einu sinni skal undirstrikað að Body Browser er á þróunarstigi og því miður getur fólk enn lent í vandræðum með að fá hann til að virka. Vegna þess að hann keyrir á WebGL þarf að nota beta útgáfu af einhverjum af nýjustu vöfrunum til að nýta sér hann. Google hefur þá stefnu að setja nýjungar snemma í umferð í því augnarmiði að nota reynslu og innlegg notenda til áframhaldandi þróunar. Oft ýta þessi vinnubrögð einnig á aðra framleiðendur að þróa sína framleiðslu þannig að viðskiptavinir þeirra geti notað nýja Google “dótið” og líklegt er að á næstu mánuðum verði WebGL orðið innbyggt í flesta vafra. Það er því ekki að efa að innan skamms verður lítið mál fyrir flesta að nota þessa skemmtilegu aðferð við að kanna líffærafræði mannslíkamans í þrívídd.
10.01.11 Edda Aradóttir edda@raforninn.is