Góðir geislafræðingar…


Hvað ætlið þið að gera faginu okkar til framdráttar á þessu ári? Ég hef enga trú á áramótaheitum en þeim mun meiri á að setja sér markmið og vinna skipulega að þeim. Markmið þurfa að vera skýr og mælanleg, t.d: “Ég ætla að lesa Arnartíðindi í hverri viku og fá birta eina grein í “Í fókus” fyrir 1. maí næstkomandi”.

Ég var að líta yfir nýjustu útgáfu veftímaritsins Advance, fyrir bandaríska geislafræðinga í myndgreiningu og geislameðferð og fór að velta fyrir mér fagáhuga íslenskra kollega þeirra. Í þessu tímariti svara nokkrir geislafræðingar spurningunni sem ég sló fram í byrjun greinarinnar og ýmislegt fleira kemur fram sem ýtir við manni.

Nýtt sjónarhorn á fagáhuga.
Það er mjög mikilvægt að viðhalda áhuga sínum á starfinu og raunverulega gera eitthvað faginu og sjálfum sér til framdráttar. Ég hef predikað mikið fyrir símenntun og sjálfsstyrkingu til að verða ánægðari og betri starfsmaður en það sem rann upp fyrir mér við lesturinn á Advance var ein leið enn, leið sem ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugsað út í áður.

Hvað ætlar þú að gera faginu þínu til framdráttar á þessu ári? Ekki sjálfum þér.

Auðvitað fylgist þetta að, það er ekki nokkur leið að gera eitthvað faginu til framdráttar án þess að græða á því sjálfur, en nálgunin er samt allt önnur og maður fær skyndilega mun víðara sjónarhorn.
Opnum nú augun, réttum okkur úr kreppunni og ákveðum hvað við ætlum að gera geislafræðinni til framdráttar á þessu ári!

Tólf geislafræði-postular.
Mitt framlag til fagsins þetta árið verður að fá að lágmarki einn geislafræðing til að skrifa fókusgrein í Arnartíðindi í hverjum mánuði.
Það gefur tólf manns tækifæri til að leggja eitthvað af mörkum til fagsins okkar.

Fyrstir koma fyrstir fá! Þetta eru ekki nema tólf pláss!

Sendið hið snarasta póst á edda@raforninn.is  … annars elti ég ykkur hvort eð er uppi! 

12.01.09 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *