Ég var að flakka um vefsetur norskra geislafræðinga (www.radiograf.no) og rakst á upplýsingar um verkefni, eða átak, hjá norska vinnueftirlitinu (www.arbeidstilsynet.no) sem ber heitið “God vakt”. Verkefnið nær til allra sjúkrahúsa í Noregi og snýst um starfsumhverfi, í víðasta skilningi þess orðs. Upplýsingaöflun fór fram árið 2005 en niðurstöður voru birtar 10. júlí síðastliðinn og fékk þá hvert sjúkrahús þær niðurstöður sem að því lúta, ásamt lista yfir það sem betur má fara. Í sumum tilvikum er aðeins um ábendingar að ræða en í öðrum gerir vinnueftirlitið kröfu um úrbætur og gefur ákveðinn frest til að uppfylla þær. Áfram verður haldið að birta upplýsingar eftir því sem vinnunni miðar, á þessu ári og e.t.v. næsta.
Viðamikið verkefni í Noregi
Þetta er viðamikið verkefni og á því nokkur stofnanabragur, sem við er að búast þegar um er að ræða ríkisstofnun með verkefni á landsvísu. Víðtækar upplýsingar er að finna á vef norska vinnueftirlitsins.
http://www.arbeidstilsynet.no/c26964/artikkel/vis.html?tid=28766
Athyglisverðar niðurstöður
Þarna kemur ýmislegt fram sem ýtir við mér. Tökum fáein dæmi:
U.þ.b. 45% heilbrigðisstarfsfólksins, sem í þessu tilviki samanstóð af læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum, hafði aldrei tekið þátt í neinskonar könnun á starfsumhverfi. Álíka hátt hlutfall sagðist vita af eigin reynslu eða starfsfélaga að athugasemdir um galla í starfsumhverfinu hefðu einungis neikvæðar afleiðingar fyrir þann sem gerði þær.
Milli 50 og 60 prósent aðspurðra telja vinnuálag hafa aukist síðastliðin tvö ár og 55% segjast oft þurfa að sleppa matar- eða kaffihléum vegna þess hve mikið sé að gera. Hjá flestum þessara starfsmanna hefur vinnuálagið slæm áhrif á líkamlega og andlega heilsu.
http://www.arbeidstilsynet.no/c26964/nyheter/vis.html?tid=39512
Starfsmenn upplifa úrræðaleysi, sektarkennd og hræðslu við mistök, vegna mikils vinnuálags.
Stjórnendur ráða oft ekki við störf sín og það ógnar heilsu þeirra. Millistjórnendur og almennt starfsfólk tekur ábyrgðina á sig og leggur mjög hart að sér, oft á kostnað eigin heilsu.
Ekki er unnið út frá því að kvartanir í vinnu og fjarvera vegna veikinda geti verið af völdum langvarandi vinnuálags.
Læknar, sem stétt, taka lítinn þátt í verkefnum sem ætlað er að bæta starfsumhverfi. Það hefur slæm áhrif á þeirra eigin starfsumhverfi og getur leitt til þess að aðrar stéttir hugi síður að þessum málum.
http://www.arbeidstilsynet.no/c26967/artikkel/vis.html?tid=39716
Mest áberandi vandi sjúkrahúsanna er undirmönnun.
http://www.arbeidstilsynet.no/c26985/artikkel/vis.html?tid=28859
Kunnugleg atriði
Stóra atriðið, sem ýtir ekki bara við mér heldur hreinlega lemur mig leiftursnöggt í hausinn, er hvað ég kannast vel við þetta allt saman! Stærstan hluta starfs míns vinn ég á ríkisspítala, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, og ég hef gott samband við myndgreiningarfólk um land allt, þar með talda aðra sjúkrahússstarfsmenn. Niðurstöður norsku könnunarinnar enduróma það sem ég hef heyrt myndgreiningarfólk á sjúkrahúsum tala um í mörg ár.
Hræðsla og uppgjöf
Sem lítið dæmi má nefna að fyrir fáum mánuðum var lögð fyrir starfsmenn FSA talsvert viðamikil könnun á viðhorfum þeirra til stofnunarinnar og starfsumhverfisins í heild. Margir létu í ljósi sterkar skoðanir á stjórnun og ýmsu öðru innan sjúkrahússins en einungis örfá prósent tóku þátt í könnuninni. Hvers vegna? Jú, tvö svör voru algengust: “Ég þori það ekki, það þarf að gefa svo nákvæmar upplýsingar um sjálfan sig að það sést hver er að svara.” Og líka: “Það gerir ekkert gagn að svara “þeir” gera ekkert með þetta”. Annað svarið ber vott um hræðslu og hitt uppgjöf. Hljómar ekki vel.
Enginn leysir vandann fyrir okkur
Ég ætla að láta þá sem fróðari eru um stjórnmál, bæði á landsvísu og innan stofnana, um að skilgreina rætur vandans. Það sem blasir við mér er að það er verulega mikið að og við getum ekki bara beðið eftir því að vandinn sé leystur fyrir okkur eða, það sem verra er, gefist upp fyrir honum. Við þurfum að gera kröfur bæði til okkar sjálfra og samstarfsmanna okkar, sama á hvaða hæð í valdapýramídanum þeir eru. Mín skoðun er sú að mörg gleymum við að gera kröfur til okkar sjálfra. Látum léttvægan ágreining koma í veg fyrir að samstarfsmenn standi raunverulega saman, skiptum okkur upp í “stéttir” og lítum niður á þá sem við teljum lægra setta og setjum okkur í hlutverk fórnarlamba og kennum þeim sem við teljum hærra setta um allt illt. Að ógleymdu því að hugsa aðeins um eigin stundarhag!
Við höfum völd
Myndgreiningarfólk er fámennur hópur og við þurfum öll að vinna saman að sem bestu starfsumhverfi. Þessi grein snýr að starfsfólki á myndgreiningardeildum sjúkrahúsa, fámennum hópi sem hefur meiri völd en við hugsum út í dags daglega. Hvernig fer fyrir sjúkrahúsi án myndgreiningar? Illa, segi ég, og þess vegna þurfum við að geta veitt framúrskarandi þjónustu en til þess þurfum við líka mannsæmandi starfsumhverfi. Það er erfitt að vinna á ríkisreknu sjúkrahúsi, stjórnunarumhverfið er heilsuspillandi út af fyrir sig, en við sem veljum það starfsumhverfi verðum að hafa manndóm í okkur til að gefast aldrei upp við að bæta aðstæðurnar.
28.08.06 Edda Aradóttir, geislafræðingur. edda@raforninn.is