Gleymum ekki vinnureglum


Flugáhafnir fengu talsverða umfjöllun í fjölmiðlum nýlega vegna mælinga á geislaálagi þeirra. Þegar mikið er gert úr geislaálagi annarra starfsstétta leiðir myndgreiningarfólk ósjálfrátt hugann að eigin geislavörnum.

Þessar mælingar eru á vegum Evrópusambandsins og þær sem gerðar voru á áhöfnum Icelandair einungis hluti af stærri rannsókn sem sérfræðingahópur hefur verið að vinna. Í frétt á mbl.is 22. júní sl. var tekið svo til orða að mælingarnar staðfestu að geislun flugáhafna gæti verið meiri en ýmissa starfsstétta sem starfa við jónandi geislun á jörðu niðri. Einnig var tekið fram að vegna þessa hefðu verið sett sérstök ákvæði í tilskipanir Evrópusambandsins og íslenskar reglugerðir um geislavarnir er varða geislun flugáhafna og eftirlit með henni.
Í framhaldi af þessu fór undirrituð að velta fyrir sér að fyrst svo mikil vinna væri lögð í rannsóknir á geislaálagi flugáhafna væri líklega full ástæða fyrir myndgreiningarfólk að athuga sinn gang.

Samkvæmt upplýsingum frá Guðlaugi Einarssyni, hjá Geislavörnum ríkisins, teljast flugáhafnir til geislastarfsmanna og hámark geislaálags þeirra á ári er 20 mSv eins og myndgreiningarfólks. Geislunin er hinsvegar fyrirsjáanleg og útreiknanleg, í samræmi við flugleiðir, flughæð, flugtíma, virkni sólar o.s.fr. Geislaálag er lágt, fer ekki yfir 5 mSv, og þess vegna þarf ekki einstaklingsgeislamælingar (mælifilmur) hjá hverjum og einum flugstarfsmanni.
Starfsfólk í myndgreiningu hefur að meðaltali innan við 1 mSv geislaálag á ári en geislunin er hvorki fyrirsjáanleg né útreiknanleg og getur farið yfir 6 mSv. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir myndgreiningarfólk að bera mælifilmur.

Það sem undirrituð vill vekja athygli á með þessum vangaveltum er að við myndgreiningarfólk megum ekki gleyma að við erum geislastarfsmenn og störfum samkvæmt ákveðnum reglum um geislavarnir okkar sjálfra. Ég er að sjálfsögðu ekki að hvetja til geislahræðslu, sem er skemmtilega neikvætt orð í munni myndgreiningarfólks, heldur eingöngu þess að við gleymum okkur ekki.
Vinnuaðstaða og –reglur á myndgreiningareiningum gera starfsfólki yfirleitt létt að forðast of mikið geislaálag en í dagsins önn getur fólk orðið kærulaust, því miður ekki síst þeir sem hafa náð nokkuð háum starfsaldri og ættu einmitt að vera fyrirmynd hinna sem yngri eru í faginu. Þegar þarf í flýti t.d. að halda spriklandi barni, eða styðja við fótlegg á mjaðmarbrotinni eldri konu getur starfsmaðurinn auðveldlega “gleymt” að fara í blýsvuntu. Einnig þegar snöggvast þarf að aðstoða inni á stofu þar sem verið er að skyggna… o.s.fr.
Setningar eins og: “Þetta er svo stutt stund, varla nokkur geislun” og “Uss, ég er löngu komin úr barneign” eru sígildar en alltaf jafn marklausar. Við störfum eftir ákveðnum reglum og á meðan þær eru óbreyttar er sjálfsagt að fara eftir þeim. Það eigum við öll að gera, líka þó sumir séu á þeirri skoðun að svolítil geislun sé bara holl, haldi okkur ungum og miklu sætari en flugliðunum! 

 05.07.04 Edda Aradóttir.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *