Geislavirkt eldgos?

Við sem erum börn Wilhelms Konrads Röntgen horfum oft öðrum augum á hlutina en aðrir. Ég hef t.d. verið að velta því fyrir mér undanfarið hvort aukin geislun fylgi eldgosum. Stór hluti af hitanum í iðrum jarðar er tilkominn vegna geislavirkni, er þá meira af geislavirknum efnum í nýju hrauni en eldra bergi? Gas frá eldgosum getur innihaldið geislavirkar lofttegundir, er raunin sú hérlendis?

Geislavirkar lofttegundir?
Á vefsíðunni Volcanic Life er fjallað um lofttegundir frá eldgosum. Þar er Radon eina geislavirka tegundin sem nefnd er en af henni er ákaflega lítið hérlendis, mun minna en t.d. á hinum norðurlöndunum eins og sjá má í súluriti á vefsíðu Geislavarna ríkisins.

Það er erfitt og vandasamt, að ekki sé minnst á hversu hættulegt það er, að ná sýnum af gasi frá eldstöðvum. Skv. Haraldi Sigurðssyni, eldfjallafræðingi sem bloggar á síðunni http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/, má reikna með að efnasamsetning lofttegunda frá eldgosum hérlendis sé svipuð og frá gosum á Hawaii. Þessar litlu eldfjallaeyjar eru í jarðfræðilegu tilliti ekki svo frábrugðnar Íslandi, þó loftslagið sé ansi ólíkt! Það má því reikna með að frá Eyjafjallajökli berist fyrst og fremst vatnsgufa, koltvíoxíð og brennisteinsoxíð.

Geislavirkar agnir?
Einnig geta í gosefnum verið geislavirk efni í föstu formi og að sögn Guðlaugs Einarssonar hjá Geislavörnum ríkisins fóru stofnuninni að berast fyrirspurnir um geislavirkni í öskufallinu mjög fljótt eftir upphaf gossins. Öskusýni voru rannsökuð hjá Geislavörnum og var niðurstaðan sú að magn náttúrulegra geislavirkra efna í henni væri mjög lítið. Þessar niðurstöður voru strax sendar til systurstofnana Geislavarna í öðrum löndum og meira um þær má lesa í nýjasta fréttabréfi stofnunarinnar. 
 
Verðum ekki sökuð um geislahernað.
Svörin við spurningunum sem ég setti fram í upphafi virðast þannig vera neikvæð, a.m.k. hvað varðar yfirstandandi gos í Eyjafjallajökli. Við þurfum líklega ekki að hafa áhyggjur af að Bretar saki okkur um geislahernað í ofanálag við allt annað!

Eldgos hafa ógurlegt afl.
Burtséð frá geislavirkni er gaman að velta fyrir sér aflinu í eldgosi. Það þarf engan smá kraft til að þeyta gosösku svo hátt að hún berist um mest alla Evrópu.
Við leit að efni um geislavirkni og eldgos rakst ég á grein eftir Magnús Tuma Guðmundsson, jarðeðlisfræðing, þar sem hann leikur sér að tölum varðandi Heklugosið 1947.
Afl þess hefur verið reiknað 50 milljón MW, þegar gosið stóð sem hæst. Hámarksafl Kárahnjúkavirkjunar, eins og það var áætlað í upphafi, er nærri 700 MW. Það hefði því þurft um sjötíu þúsund Kárahnjúkavirkjanir til að hafa við Heklu þennan hálftíma sem hún tók mest á!

Eldgos í listum.
Til að fá annað sjónarhorn á eldgosaumræðuna er upplagt að líta á efni á bloggsíðu Haraldar um eldfjöll í listum, t.d. málverkum, arkítektúr og bíómyndum.
23.04.10 Edda Aradóttir ea@ro.is  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *