Þeir sem fylgjast með í myndgreiningunni vita að hlutur tölvusneiðmyndarannsókna í heildar geislaálagi fólks fer stækkandi. Hér ber að undirstrika að um hlutfallstölur er að ræða og minna geislaálag af öðrum rannsóknum á sinn þátt í breytingunni.
Undanfarið hafa birst margar greinar og rannsóknaniðurstöður varðandi geislaálag af völdum tölvusneiðmyndatækja og sérstaklega hefur verið bent á að hugsa þurfi sinn gang varðandi rannsóknir á börnum.
National Cancer Institute sendi nýlega frá sér ábendingu á þessum nótum og upplýsingar um hvernig lágmarka megi geislaálag við tölvusneiðmyndatöku af börnum.
Rannsóknaniðurstöður sem birst hafa undanfarið benda til þess að mikilvægast sé að stilla tökugildi í samræmi við stærð þess sem verið er að mynda, hvort sem um er að ræða barn eða fullorðinn.
Þetta má t.d. lesa um í nóvemberhefti American Journal of Roentgenology. Allt að helmings lækkun geislaskammts var möguleg án þess að rýra greiningargildi tölvusneiðmyndanna.
Þarna var um rannsóknir á fullorðnum að ræða en þetta er enn mikilvægara varðandi börnin. Þeir sem taka tölvusneiðmyndir þurfa að gæta vel að hvaða geislaskammtur gefur nægilega góðar myndir án þess að skapa óþarfa geislaálag.
Nokkuð er síðan grein sem fjallar um þetta birtist í Diagnostic Imaging en margt í henni er mjög athyglisvert.
Líkami barns er í örum vexti og þess vegna eru öll líffæri viðkvæmari fyrir geislun en í líkama fullorðins einstaklings. Það er því full ástæða til að veita þessari umræðu athygli og myndgreiningarfólk er hvatt til að kynna sér málið nánar.
Edda Aradóttir, 03.02.03.