Geislaskammtar DR / CR / filmur

Í nóvemberhefti British Journal of Radiology birtust niðurstöður rannsóknar á mismun geislaskammta við röntgenrannsóknir með filmuþynnukerfi, myndplötukerfi (CR) og alstafrænu myndkerfi (DR). Athygli vekur að CR skilar að meðaltali ofurlítið hærri geislaskömmtum en filmuþynnukerfi og DR mun lægri skömmtum en hin kerfin tvö.

Ítölsk rannsókn
Ítalskt myndgreiningarfólk gerði rannsóknina í framhaldi af endurnýjun myndgreiningartækja fyrir bráðamóttöku, þar sem DR búnaður varð fyrir valinu. Bornir voru saman geislaskammtar við tíu mismunandi myndatökur af búk og höfði.
Skýrsluhöfundar segja niðurstöður sínar í góðu samræmi við fyrri rannsóknir, þ.e. að á heildina litið séu geislaskammtar í CR nokkuð sambærilegir við skammta sem filmuþynnukerfi með hraða 300 gefur. DR skilar hinsvegar yfir 40% lægri skömmtum en CR.
Höfundarnir leggja áherslu á að vegna þess að CR þolir meiri breidd í tökugildum en filmuþynnukerfi, án þess að myndir verði ónýtar, þá séu endurtekningar færri og það vegi að einhverju leiti á móti hærri geislaskömmtum.

„Exposure creep“
Það er umhugsunarvert fyrir myndgreiningarfólk, og þá ekki síst geislafræðinga, hversu nauðsynlegt er að vera áfram vakandi fyrir geislaálagi sjúklinga þó stafræn tækni sé orðin allsráðandi á landinu. Hugtakið “exposure creep” hefur verið þekkt lengi og notað yfir þá tilhneigingu að tökugildi hækka smátt og smátt á myndgreiningarstöðum sem breytt hafa úr filmuþynnukerfi yfir í CR. Eins og fram kemur hér að ofan þolir CR meiri breidd í tökugildum en filmuþynnukerfi og tilhneigingin verður sú að stilla bara “nógu hátt” þá fær maður fína mynd.

Gæðavísir
Full ástæða er til að vara sig á þessu og einnig að athuga hvort nota megi myndhylki sem þola lægri tökugildi þar sem áður voru notaðar t.d. mammógrafíukassettur. Aldrei verður lögð of mikil áhersla á nauðsyn góðra vinnuleiðbeininga og tökugildatafla (exponeringstafla), og má í framhaldi af því benda á Gæðavísi sem hefur sannað sig sem mjög gagnlegt tæki við gæðastjórnun á myndgreiningarstöðum. Stefnt er að því að halda námskeið um notkun Gæðavísis og hugsunina að baki hans þann 2. desember næstkomandi og verður það nánar auglýst fljótlega. Minna má á að talsverður hluti Gæðavísis er öllum opinn, ekki aðeins áskrifendum.

Bandarísk könnun
Hjá Minnu frænku (þið munið að notandanafn er einfalt að fá… og ókeypis) má lesa um könnun sem gerð var á Vancouver General Hospital, varðandi myndgalla vegna slits eða óhreininda á fosfórplötum í CR-myndhylkjum. Eins og búast má við er meira um slíkt í myndhylkjum sem hafa verið notuð mikið en athygli vekur að oft koma gallar fram aðeins u.þ.b. ári eftir að hylkin voru tekin í notkun. Skemmdir á plötum sem hafa festst í lesara eða verið í hylki sem hefur orðið fyrir hnjaski eru áberandi og undirstrikar það enn og aftur mikilvægi þess að meðhöndla fosfórplötur mjög varlega og gæta þess að fara ekki illa með myndhylki. Það er vel hægt að vinna hratt án þess að þeyta myndhylkjunum í lesarann af öllu afli!

Allt ber þetta að sama brunni: Vönduð vinnubrögð eru það sem gildir 🙂 

06.11.06 Edda Aradóttir, geislafræðingur
edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *