Geislandi Endurmenntun


Eftir vel heppnað og vel sótt námskeið síðastliðið vor, fyrir fagfólk sem vinnur við myndgreiningu, var ekki annað hægt en að halda áfram að bjóða þessum hópi upp á námskeið á sínu sviði. Greinilegt var að þarna var þörf sem hafði ekki verið mætt en það er einmitt það sem Endurmenntun vinnur ötullega að í samstarfi við ýmis fagfélög, fyrirtæki og stofnanir.

Fjölbreytt úrval
Endurmenntun (EHÍ) býður upp á fjölbreyttasta úrvalið af símenntunarnámskeiðum sem spanna allt frá námskeiðum um íslendingasögurnar yfir í sérhæfð námskeið fyrir myndgreiningarstarfsfólk. Til þess að geta boðið upp á „réttu“ námskeiðin sem fullnægja þörfum mismunandi hópa þá leggur EHÍ áherslu á að vera í samstarfi við þá hópa sem námskeiðin eru ætluð. Fjölmörg fagfélög eru í samstarfi við EHÍ um námskeið auk þess sem EHÍ kallar saman fólk sem eru sérfræðingar á sínu sviði til að sjá hvað er nýtt og hver þörfin er. EHÍ vill auka slíkt samstarf enn frekar við félög, fyrirtæki og stofnanir. Einnig fagnar starfsfólk EHÍ öllum hugmyndum um námskeið og getur hver sem er farið inn á heimasíðu EHÍ og sent inn hugmynd að námskeiði. Allar hugmyndir eru skoðaðar og metnar þó svo að þær verði ekki allar að veruleika.

Námskeið verður til
Hugmynd að námskeiði getur komið frá verkefnastjóra viðkomandi námskeiðsflokks, frá samstarfsaðila (fagfélög, fyrirtæki, stofnanir), frá kennara, frá þátttakanda og í raun hvaðan sem er. Metið er hvort hugmyndin er eitthvað sem fólk myndi hafa áhuga á og hvort hún sé framkvæmanleg. Ef hún er metin svo þá er næsta skref að kanna hver gæti hugsanlega kennt námskeiðið. EHÍ hefur þá stefnu að bjóða upp á fremstu sérfræðinga úr skóla- og atvinnulífinu í kennslu hverju sinni. Eftir að kennari hefur verið fundinn er farið í að móta efnistök og fundin tímasetning fyrir námskeiðið. Kennari þarf svo að skila inn stuttri lýsingu auk upplýsinga um hverjum námskeiðið er ætlað. Flest námskeiðin eru opin öllum þó svo að stundum geti það verið svo að ákveðinn hópur hafi forgang. Það er þó undantekning. Þegar þessi atriði eru öll komin á hreint er námskeiðið tilbúið. Það eru svo fjölmargar aðgerðir sem eiga sér stað áður en námskeið er haldið, bæði hjá starfsmönnum EHÍ og kennurum. Af þessu má sjá að það fer heilmikil vinna í að búa til eitt námskeið.

Mat á námskeiðum
Endurmenntun setur mikinn metnað í að bjóða upp á gæðanámskeið og er því fylgt eftir með matsblaði sem þátttakendur svara í lok námskeiðs. Út frá því eru ýmsir þættir námskeiðsins og starfseminnar metnir og gefin einkunn. EHÍ setur sér staðla um hvaða einkunn námskeið þarf að ná til að teljast nógu gott. Þetta er mjög mikilvægt þar sem sum námskeiða eru endurtekin seinna. Sum námskeiðanna hafa meira að segja verið haldin samfleytt í mörg ár og virðast sum vera eilíf. Við slíkar aðstæður mundi aldrei ganga upp að bjóða upp á lélega aðstöðu eða lélega kennslu svo dæmi sé tekið.

Meira í dag en í gær
Nú eru liðin 21 ár frá stofnun Endurmenntunar HÍ og á þeim tíma hefur stofnunin dafnað vel og stækkað gríðarlega. Nemendafjöldi er um 10.000 á ári og boðið er upp á hátt í 400 námskeið árlega. Símenntun er eitthvað sem eykst ár frá ári og er fólk orðið mun meðvitaðra um nauðsyn þess að læra meira, meira í dag en í gær. Endurmenntun mun halda áfram að bjóða upp á gæðanámskeið á háskólastigi þar sem hver og einn á að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og stuðla þar með að aukinni þekkingu þjóðarinnar.

08.11.04 Kolbrún Erla Matthíasdóttir, markaðsstjóri EHÍ.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *