Geislakeila og félagslíf

Eins og margt myndgreiningarfólk veit nú þegar sigruðu Rafernir Geislakeiluna þetta árið og Geislakeilubikarinn verður áfram heima í Suðurhlíð!
Sigurlaun alls myndgreiningarfólks eru hversu gott innlegg Geislakeilan er í félagslíf innan fagsins. Myndirnar eru komnar!!

Hjartavernd í silfursæti og LSH Hringbraut í þriðja
Lið Hjartaverndar náði öðru sæti og í bronssætinu er lið LSH á Hringbraut. Skjalfest úrslit bárust Arnartíðindum 3. maí og engar villur hafa fundist. Ef einhver sér eitthvað athugavert við útreikninga eða niðurstöður er sá hinn sami beðinn um að senda Sigurði R. Ívarssyni póst, siggi@raforninn.is

Skemmtilegt kvöld
Samkvæmt fréttum frá myndgreiningarfólki var seinna keppniskvöldið ekki síður skemmtilegt en það fyrra en þó skyggði á gleðina að starfsmenn Geislavarna ríkisins skyldu þurfa að hverfa frá keppni. Þetta er til marks um samheldnina sem hefur ríkt í kringum Geislakeiluna og er gott til þess að vita að þessi gamansama keppni milli myndgreiningarstaða hefur aukið tengsl fólks í faginu, ásamt því að efla andann innan vinnustaða.

Keppni án óvildar
Ég hef oft lagt áherslu á hversu mikilvægt það er fyrir okkur öll að vinna saman að hagsmunamálum sem varða fagið í heild. Samkeppni er nauðsynleg en eins og sjá má á Geislakeilunni eru keppinautar alls ekki það sama og óvinir. Sá sem hefur sterka sjálfsmynd er hæfari í samskiptum við aðra en sá sem er óöruggur og í sífelldri vörn. Þannig ætti meiri samheldni og betri starfsandi innan hvers vinnustaðar að stuðla að betri samskiptum innan fagsins í heild og það að setja saman keilulið, æfa fyrir Geislakeilu og mæta til að hvetja sitt lið hefur þjappað vinnufélögum saman.

Gott fyrir starfsandann
Á flestum, ef ekki öllum, vinnustöðum myndgreiningarfólks hefur tíðkast að gefa starfsfólki kost á skemmtunum sem vinnustaðurinn greiðir fyrir að einhverju eða öllu leyti. Árshátíðir eru haldnar, innan lands eða utan, hreyfing skipulögð, Orkuhúsið heldur vorhátíð, það fréttist af LSH fólki úti á lífinu um síðustu helgi og svona mætti lengi telja. Allt er þetta af hinu góða, eflir starfsandann og gerir vinnustaðina betur í stakk búna til samstarfs við aðra.

Höldum áfram saman
Við skulum halda áfram á þessum nótum og byrja strax að huga að Röntgenhátíðinni 2007. Röntgendaginn, 8. nóvember, ber upp á fimmtudag þetta árið og liggur beinast við að halda Röntgenhátíð laugardaginn 10 nóvember. Við látum ekki fara jafn illa og á síðasta ári þegar Röntgenhátíð var blásin af vegna þess að ekki fékkst fólk í undirbúningsvinnu. Ég skora á allt myndgreiningarfólk að taka daginn frá og setja hugmyndaflugið í gang. Hverskonar dagskrá er skemmtilegust? Hverja langar að vera með í undirbúningsnefnd? 

07.05.07 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *