Bryndís Óskarsdóttir, Harpa Dís Birgisdóttir og Gyða Karlsdóttir sendu eftirfarandi grein til Arnartíðinda:
#img 1 #Við stöllur, Bryndís, Gyða og Harpa Dís, hófum nám í Háskóla Íslands síðastliðið haust. Það skal þó tekið fram að ekki erum við í fullu námi heldur sóttum fyrirlestra samhliða vinnu. Vinnuveitendur okkar hér í Hjartavernd hafa sýnt okkur ótrúlegan stuðning og hefðum við ekki farið út í þetta nema fyrir áeggjan þeirra.
Okkur finnst við hafa fengið einstakt tækifæri sem við getum ekki látið fram hjá okkur fara; að ná okkur í meistaragráðu og það sem meira er fengið að kafa dýpra ofan í eitthvert sérvalið efni þegar við förum að skrifa lokaritgerðina. Efni lokaritgerðarinnar verður sogið úr þeirri þekkingu sem við erum að afla með því að rannsaka eldri borgara Íslands í þessari stórkostlegu Öldrunarrannsókn Hjartaverndar. Þá finnst okkur nú ekki slæmt að fá tækifæri til að rannsaka einstaklingana með ómun, tölvusneiðmyndum og segulómun, lesa síðan sjálfar úr myndunum og skrifa svo einhverja fróðlega ritgerð með góðum leiðbeinendum.
Námið er þannig uppbyggt að við þurfum 60 einingar til meistaranáms-gráðu sem getur t.d. skipts þannig: Námskeið 15 einingar og ritgerð 45 einingar. Námskeiðin sem við tökum eru sum skyldufög en svo höfum við líka mikið val og getum við flakkað á milli t.d. námskeiða í líffræðideild, læknadeild, hjúkrunarfræðideild o.s.frv. svo eru alltaf einhver námskeið í boði sem eru sérsniðin fyrir fólk í meistaranámi. Þar sem við fáum að „skreppa“ í vinnutímanum (sumir fengu tímabundið viðurnefnið „skreppur“) til að sækja tíma upp í Háskóla eigum við margt að þakka okkkar frábæra samstarfsfólki sem situr eftir og hleypur hraðar til að starfsemin stoppi ekki meðan við erum í burtu.
Það getur verið erfitt að flétta nám við vinnu því við höfum jú fleiri skyldum að gegna t.d. heimili og börn og sumir vilja jú líka eiga smá stund til að gera eitthvað annað en vinna, eta, sofa og læra. Þess vegna höfum við reynt að hafa fjölda námskeiða á önn þannig að allt gangi upp því ekki er gott að sprengja sig strax í byrjun því hvenær við svo klárum er ekki alveg komið á hreint en vonandi innan 2ja-3ja ára. Kemst þótt hægt fari 🙂
Við hvetjum alla geislafræðinga sem geta, vilja og þora að hugsa málið og stinga sér síðan út í djúpu laugina okkur til samlætis.
Kærar kveðjur
Bryndís, Gyða og Harpa Dís
Eins og sagt var frá í Arnartíðindum 16.09.02 er Lovísa V. Guðmundsdóttir, geislafræðingur hjá Röntgen Domus, langt komin með meistaranám. Hún hefur þegar lokið því sem bóklegt er og einnig gagnasöfnun fyrir lokaverkefni. Lovísa eignaðist barn á síðasta ári og hefur haft í nógu að snúast en nú í ársbyrjun tekur hún til við úrvinnslu gagna og frágang lokaverkefnis síns. Hjá HÍ er reiknað með að slík úrvinnsla taki allt að einu ári en Lovísa stefnir á að byrja aftur að vinna hjá Röntgen Domus í haust og að verkefninu verði þá að mestu lokið.
Lovísa tekur heils hugar undir með stöllunum í Hjartavernd og hvetur fleiri geislafræðinga til að auka við menntun sína, ekki síst með það í huga að beina kröftum sínum að frekari uppbyggingu kennslu í geislafræði hérlendis, hvort sem hún verður í framtíðinni hjá THÍ eða HÍ.
Í framhaldi af því má benda á bréf frá Þórði Kristinssyni, framkvæmdastjóra akademískrar stjórnsýslu HÍ, sem birtist í Félagsfréttum FG – janúar 2004, þar sem svarað er málaleitan félagsins varðandi mögulega kennslu í geislafræði við HÍ.
Eins og minnst var á í Arnartíðindum 17.11.03 hefur Erna Agnarsdóttir, námsstjóri hjá Endurmenntun HÍ, einnig hug á að ná meistaraprófi og hennar áhugasvið er opinber stjórnsýsla. Flestir í faginu kannast við Ernu og óbilandi áhuga hennar á menntun myndgreiningarfólks, þannig að varla þarf að taka fram hversu mikilvægt hún telur að geislafræðingar leiti sér framhaldsmenntunar.
Hjá Hansínu Sigurgeirsdóttur, deildarstjóra á Myndgreiningarsviði LSH, fengust þær upplýsingar að enginn geislafræðingur þar væri byrjaður að huga að meistaranámi. Eins er á FSA, enginn kominn svo langt ennþá. Það hlýtur að vera fólki hvatning að heyra af öðrum í sama fagi sem ekki láta fullt starf, börn og bú hindra sig í að afla sér frekari menntunar. Aðstæður eru mismunandi en ef vinnuveitendur koma til móts við sitt starfsfólk ætti alltaf að vera hægt að finna ásættanlegt fyrirkomulag fyrir alla aðila.
16.02.04 Edda Aradóttir.