Geislafræðinám i uppnámi

Síðustu tvær vikur hafa Arnartíðindi flutt fréttir af uppsögnum deildarstjóra  og  fyrirhuguðum breytingum  innan geislafræðibrautar Tækniháskólans, ásamt viðbrögðum fagfólks við þeim. Viðbrögðin hafa öll verið á einn veg, mönnum líst ekki á blikuna. Læknisfræðileg myndgreining er einn dýrmætasti þáttur nútíma heilbrigðisþjónustu og þróast örar en flestar greinar læknisfræði. Nám í geislafræði er einn hlekkur í þessari keðju sem ekki má veikja.  Það er mat okkar á Arnatíðindum að algjör samstaða sé innan greinarinnar um að koma í veg fyrir það slys sem nú virðist í uppsiglingu. Líklegast virðist að HÍ stofni námsbraut í meinatækni og geislafræði, hugsanlega strax haustið 2003, og þannig losni Tækniháskólinn við heilbrigðisfræðslu úr sínum húsum.

Ófagleg vinnubrögð yfirstjórnar THÍ.
Mikill viðvaningsbragur virðist á yfirstjórn Tækniháskólans í þessu máli. Það kemur m.a. fram í því að ekki er leitað ráðgjafar þeirra sem gerst þekkja til geislafræðinnar og engin virðing borin fyrir verkum þeirra sem undanfarin ár  hafa með nútímalegum stjórnunarháttum stýrt náminu af þekkingu og skörungsskap. Yfirstjórnendur virðast beita gamaldags valdstjórn í stað samráðs við fagaðlila með opinni umræðu.

Erna Agnarsdóttir, deildarstjóri, hefur í umfjöllun um málið lagt mikla áherslu á að fyrst og fremst þurfi að hafa hagsmuni nemenda á geislafræðibraut í huga. Undir hennar stjórn hefur námsbrautin verið þróuð markvisst með nútíma stjórnunaraðferðum. Þannig er deildin í dag með breska viðurkenningu sem opnar nemendum greiða leið til MS náms við innlenda sem erlenda háskóla. Næsta úttekt bretanna á náminu er í apríl n.k., eftir að Erna hefur hætt störfum 1. mars í samræmi vð sitt uppsagnarbréf frá rektor skólans.  Við þróun á deildinni hefur m.a verið stuðst við árangurslíkan EFQM og liggur fyrir ný úttekt samkvæmt þeirri aðferðafræði unnin af breiðum vinnuhópi fagaðila. Þá hefur nýlega verið birt mannaflaspá unnin á vegum deildarinnar.  Ekki verður með nokkru móti séð að nýtt fólk, hugsanlega án bakgrunns í geislafræði, sem taka á til starfa 1. mars geti sett sig inni þessi mál að neinu gagni á fjórum vikum.

Markaður fyrir geislafræðinga.
Samkvæmt mannaflaspánni þurfa næstu árin að útskrifast  minnst 12 til 14 geislafræðingar að jafnaði á ári, fyrir íslenska markaðinn. Mikill skortur er á geislafræðingum víðast hvar í heiminum og því auðvelt fyrir íslenska geislafræðinga að fá vinnu á alþjóðamarkaði. Um mannaflaspána verður fjallað nánar á þessum vettvangi fljótlega.

Staða námsbrautarinnar.
Vafasamt er að háskólanámsbrautir séu að jafnaði reknar af meiri metnaði og fagmennsku en námsbrautin í geislafæði við THÍ. Arnartíðindi höfðu samband við yfirmenn nokkurra myndgreiningarstöðva, bæði sjúkrahúsdeilda og einkarekinna stöðva, og þeir voru sammála um að nýir geislafræðingar kæmu vel menntaðir til starfa, með góðan grunn til að byggja á sitt ævistarf og framhaldsmenntun

Nemar sem nú stunda nám á geislafræðibraut vilja gera sitt til að njóta áfram leiðsagnar þeirra  fagaðila sem stýrt hafa námi þeirra til þessa. Agnes Guðmundsdóttir, fjórða árs nemi á geislafræðibraut, skrifaði grein í Morgunblaðið 08.12.02 þar sem hún lýsir vonbrigðum vegna nýlegra uppsagna deildarstjóra við THÍ. Greininlegt er að framganga rektors veldur miklu öryggisleysi hjá nemendum, þeir eru uggandi um stöðu sína  á næstu önn og mjög ósáttir við vinnubrögðin.

Pétur H. Hannesson, formaður Félags íslenskra röntgenlækna, kemur til með að taka umræður um framtíð kennslu í geislafræði upp á stjórnarfundi félagsins næstkomandi þriðjudag og er von á frekari viðbrögðum þaðan þegar stjórnin hefur kynnt sér málið betur.

Hvað er framundan?
Það virðist vera álit margra að ef ekki verður breytt um stefnu í THÍ sé eðlilegt að kennsla í geislafræði muni leggjast af við skólann. Einn viðmælandi Arnartíðinda orðaði það sem svo að til lengri tíma litið yrðu uppsagnir og átök innan THÍ faginu aðeins til góðs, vegna þess að nú mundi geislafræðibrautin flytjast til læknadeildar HÍ þar sem eðlilegt sé að kennsla heilbrigðisstétta fari fram.

Sá möguleiki er athyglisverður og má í því sambandi benda á að háskólaráð HÍ hefur, að beiðni Meinatæknafélags Íslands, kannað ýtarlega möguleika á að námsbraut í meinatækni verði stofnuð við  læknadeild. Nefnd skipuð af deildarráði læknadeildar telur allar faglegar forsendur fyrir því að meinatækni verði kennd í skor við deildina og nefnir í umsögn sinni að þar mætti einnig kenna geislafræði. Í bréfi dagsettu 3. október 2002 greinir Þórður Kristinsson, kennslustjóri við HÍ, Meinatæknafélaginu frá því að Háskóli Íslands muni koma því á framfæri við menntamálaráðuneytið og forsvarsmenn Tækniháskóla Íslands að áhugi sé á því innan læknadeildar að taka upp kennslu í meinatækni.

Arnartíðindi sendu fyrirspurn til Reynis T. Geirssonar, forseta læknadeildar HÍ, og svar hans staðfesti að hið sama gilti um geislafræði. Áfram verður fylgst með framvindu mála og nýjum fréttum gerð skil hér í Arnartíðindum.

Smári Kristinsson.
Edda Aradóttir.
16.12.02.
  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *