IAEA undirstrikar mikilvægi geislasparnaðar í CT.
#img 1 #Mikið hefur verið fjallað um geislaálag af CT rannsóknum en um helmingur geislaálags í læknisfræðilegri myndgreiningu kemur til af tölvusneiðmyndum. Alþjóða kjarnorkumálastofnunin (IAEA) sendi á dögunum frá sér fréttatilkynningu þar sem formlega er varað við ofnotkun CT-rannsókna.
Sagt er frá viðvöruninni á vefsíðu Geislavarna ríkisins og þar má sjá að IAEA undirstrikar að forðast verði ónauðsynlega geislun vegna þessarar notkunar, t.d. takmarka endurtekningar og tryggja að sérhver rannsókn sé læknisfræðilega réttlætanleg.
#img 2 #
Ábyrgð myndgreiningarfólks.
Þarna koma inn tveir mjög mikilvægir þættir sem myndgreiningarfólk getur haft afgerandi áhrif á. Nauðsynlegt er að athuga eldri rannsóknir sjúklings áður en ný rannsókn er ákveðin og einnig að benda tilvísandi lækni á ef hægt er að fá svar við spurningu hans með geislaléttari rannsókn en CT.
Að sjálfsögðu ber myndgreiningarfólki svo skylda til að sníða rannsóknina að hverjum sjúklingi um sig með það í huga að nota eins litla geislun og hægt er til að fá rannsókn með fullu greiningargildi.
#img 3 #Ný skýrsla um geislaálag starfsfólks.
Annað sem vert er að vekja athygli á varðandi geislavarnir þessa dagana er skýrsla, sem sagt er frá á vefsíðu Geislavarna ríkisins, um geislaálag starfsmanna árið 2008. Þar kemur m.a. fram að hjá 59% þeirra sem bera mælifilmur frá GR mældist engin geislun á síðasta ári og meðalgeislaálag þeirra sem einhver geislun mældist hjá hefur lækkað örlítið.
Það er mjög áhugavert að kynna sér þessa skýrslu.
25.05.09 Edda Aradóttir edda@ro.is