Náttúrulega geislun (bakgrunnsgeislun) þekkir allt myndgreiningarfólk og einn hluti hennar er geimgeislun. Uppruni geimgeislunar er margvíslegur og einungis örlítið brot nær til jarðar. Frá rannsóknastöðvum á gerfihnöttum má hinsvegar ná glæsilegum „röntgenmyndum“.
NASA (National Aeronautics and Space Administration) lætur sér fátt óviðkomandi og hefur skotið út í geiminn ýmiskonar rannsóknastöðvum. Margir kannast t.d. við Hubble sjónaukann sem skilar stórfenglegum myndum af alheiminum. Einnig birtir NASA á hverjum degi Astronomy Picture of the Day, með áhugaverðum skýringum.
Chandra X-ray Observatory er ein af rannsóknastöðvum NASA og þar eru teknar myndir af stöðum úti í geimnum sem gefa frá sér röntgengeislun, t.d. svartholum, stjörnum, plánetum og sólinni sjálfri. Á vefsíðunni segir að allt sem hitnar yfir milljón gráður gefi einnig frá sér röntgengeislun, að öllum líkindum er þar átt við Fahrenheit gráður en ansi er það samt heitt!
Það getur verið gaman að líta upp frá tækjunum í læknisfræðilegri myndgreiningu, þó þau séu alltaf jafn áhugaverð og skemmtileg, horfa til himins og hugsa um alla geislunina sem dansar úti í geimnum.
Einnig er alltaf gott að eiga í pokahorninu fróðleik um jónandi geislun sem ekki á uppruna sinn í myndgreiningu, það getur oft skapað umræðugrundvöll þegar skjólstæðingar okkar hafa áhyggjur af hugsanlegum skaðlegum áhrifum.
03.10.05 Edda Aradóttir edda@raforninn.is