Gamalt og nýtt á nýju ári.


Áramótunum tilheyrir að líta um öxl og halda síðan áfram að horfa björtum augum fram á veginn. Fortíð og framtíð fléttast saman og mynda sterkt haldreipi dagsins í dag.


Mikilvægi sögunnar.


Í flestum tilvikum má læra ýmislegt af því sem búið er að gerast á ýmsum sviðum, bæði því jákvæða og neikvæða. Sagan veitir okkur innsýn í veröld sem var og minnir okkur á undirstöðu þess sem nú er. Oft er hið liðna fljótt að hverfa í gleymsku og geta hinir merkustu atburðir og staðreyndir þannig lent í glatkistunni.


Saga myndgreiningar á Íslandi.


Við hjá Arnartíðindum fórum að forvitnast um sögu myndgreiningar á Íslandi, með það fyrir augum að gera hana aðgengilega hér á vefsetrinu. Ýmislegt er til á prenti, t.d. í Landspítalabókinni sem út kom 1980, en um annað ætlum við að leita til allra þeirra sem upplýsingar geta gefið. Nú þegar hefur Ásmundur Brekkan látið okkur talsvert efni í té og lofað frekara samstarfi, sem er tilhlökkunarefni, og fleira gott fólk í faginu hefur tekið vel í að aðstoða við þetta verkefni.


Söguritunin verður unnin meðfram öðru sem að rekstri vefsetursins lýtur og stefnan er að birta reglulega kafla og kafla, líklega á því formi að segja frá atburðum á ákveðnu árabili í senn. Okkur finnst þó viðeigandi að fyrsta skrefið verði æviágrip Gunnlaugs Claessen, brautryðjanda röntgenfræða á Íslandi, enda er upphaf myndgreiningar hérlendis samofið starfi hans.


Saga okkar allra.


Allir sem gætu hugsað sér að taka á einhvern hátt þátt í að varðveita sögu myndgreiningar á þennan hátt eru beðnir að hafa samband við Eddu, annað hvort um tölvupóst eða síma, og skiptir þá engu hvort fólk á sjálft athyglisvert efni, getur bent á einhvern sem hugsanlega á það eða hefur fram að færa eitthvað annað varðandi söguritunina.


Arnartíðindi senda lesendum sínum bestu óskir um gleðilegt nýtt ár, með þakklæti fyrir góðar viðtökur á árinu sem er að líða. Bjarta framtíð!


Edda Aradóttir.

     

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *