Gadólínínum og NSF

Margar rannsóknir hafa verið framkvæmdar til að athuga áhrif gadólíníum skuggaefnis á mannslíkamann. Gadólíníum skuggaefni er notað til frekari sjúkdómsgreiningar í segulómun (MRI) og eru milljónir skammta gefnir víðsvegar um heiminn ár hvert. Í Bandaríkjunum voru gefnir 40 milljón skammtar frá árinu 2000-2006.

Aukaverkanir
Það hefur sýnt sig að ýmsar aukaverkanir geta fylgt inngjöf skuggaefnis í bláæð (i.v.) en tíðni aukaverkana er aðeins talin vera 1-2% og langoftast vægar. Má þar nefna flökurleika, uppköst, höfuðverk, dofa og svima. Alvarlegri aukaverkanir eins og berkjukrampi, bjúgur í andliti, aukin hjartsláttartíðni og útbreiddur ofsakláði eru talin koma fram í 1 tilfelli af hverju 5000. Talið hefur verið óhætt að gefa sjúklingum með skerta nýrnastarfsemi gadólíníum skuggaefni sem skv. rannsóknum virtist hvorki hafa skammtíma (24 klst) né langtíma (120 klst) áhrif á nýrnastarfsemi sjúklinga þegar gefið var 0.1 mmol/kg af gadólíníum (Reimer, P., Parizel, P.M. og Stichnoth, F.-A (2003). Clinical mr imaging. (2. útgáfa). Þýskaland: Springer; Elster, A.D. og Burdette, H.J. (2001). Magnetic resonance imaging. (2.útgáfa). Bandaríkin: Mosby; o.fl. 2001, Diagnostic and Interventional Radilogy, Desember 2006, Vol. 12:4, bls. 161-162).

NSF
Nephrogenic systemic fibrosis/nephrogenis fibrosing dermopathy (NSF/NSD) er sjaldgæfur sjúkdómur sem aðeins hefur komið fram í sjúklingum með skerta nýrnastarfsemi á misháu stigi. Reynsla manna og rannsóknir sýna að tengsl geti verið á milli sjúklinga með skerta nýrnastarfsemi, inngjafar gadólíníum skuggaefnis i.v. og nephrogenic systemic fibrosis sjúkdómsins. Fjölmörg tilfelli (nokkur hundruð) hafa komið fram á sjónarsviðið þar sem sjúklingar með skerta nýrnastarfsemi hafa þróað með sér NSF eftir gjöf gadólíníum skuggaefnis. NSF þarf ekki að koma fram fljótlega eftir segulómrannsókn með gadólíníum heldur hafa rannsóknir sýnt að liðið geta allt að 2 dagar til 18 mánuðir þar til einkennin gera vart við sig. Gadólíníum skuggaefni er ekki eini þátturinn sem ýtt getur undir þróun sjúkdómsins því sjúklingar hafa greinst með sjúkdóminn án þess að hafa nokkurn tímann fengið skuggaefni i.v.
(AuntMinnie.com Jonathan S. Batchelor, 9.mars 2007; AuntMinnie.com, 26. desember 2006; AuntMinnie.com, 9. júní 2006).

Einkenni
NFS er afar erfiður sjúkdómur og getur gengið hart að sjúklingum. Einkennin geta verið margvísleg og má þar nefna bólgu, kláða og stífleika í húð ásamt rauðum eða dökkum blettum. Gulir dílar geta sést í hvítu augans, mikill stirðleiki getur orðið í liðum útlima, verkir finnast í mjöðmum og rifbeinum ásamt dvínandi vöðvastyrk og auknu þróttleysi. Einnig getur átt sér stað óeðlilegur bandvefsvöxtur í beinagrindarvöðvum, beinum, lungum, brjósthimnu, pericardium (gollurshús), myocardium (hjartavöðvi), nýrum, eistum og dura (www.fda.gov/medwatch/index.html; AuntMinnie.com, Brian Casey, 23.maí 2007). 

Varúðar er þörf
FDA (Food and Drug Administration) í Bandaríkjunum hefur óskað eftir að framleiðendur gadólíníum skuggaefnis fyrir segulómrannsóknir setji viðvörun á vöru sína vegna hættu á þróun NSF hjá sjúklingum með skerta nýrnastarfsemi, sjúklingum sem eru að fara í lifrarskipti, eða nýbúnir í slíkri aðgerð, og sjúklingum með króníska lifrar sjúkdóma sem eiga hættu á að þróa NFS vegna skertrar nýrnastarfsemi. FDA mælir eindregið með að sjúklingar séu rannsakaðir m.t.t. skertrar nýrnastarfsemi áður en gadólíníum skuggaefni er gefið i.v. (AuntMinnie.com, Brian Casey, 23.maí 2007).
Þetta þurfa allir sem vinna við segulómun að hafa í huga og mikilvægt að fylgjast sífellt með nýjustu upplýsingum. 
 
29.05.07 Ragnheiður Pálsdóttir, geislafræðingur, FSA.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *