Árleg ráðstefna RSNA verður að vanda haldin í Chicago nú í vetrarbyrjun. Þetta árið stendur hún frá 30. nóvember til 5. desember. Yfirskriftin er „Communication for Better Patient Care“, sem ber vott um áherslu á mikilvægi skilvirkra samskipta og upplýsingaflæðis í því að tryggja hag skjólstæðinga okkar.
Heimsviðburður á hverju ári
Það er ekki seinna vænna fyrir myndgreiningarfólk að taka ákvörðun um hvort það ætlar á RSNA þingið eða ekki. Forskráningu lýkur í þessum mánuði og einnig er mikilvægt að nýta tímann vel til undirbúnings. Yfirlitsmynd af sýningarsvæðinu og skrá yfir sýnendur hefur verið til staðar síðan í júní en er enn breytingum háð.
Þessi ráðstefna er einn allra stærsti atburður í heimi myndgreiningarinnar á ári hverju og sjálfsagt fyrir allt sanntrúað röntgenfólk að fara í pílagrímsferð til Chicago eins oft og kostur er. Starfsfélagar okkar í Bandaríkjunum reyna hvert ár að gera betur en á því síðasta og yfirlit um helstu nýjungar ráðstefnunnar árið 2003 er hægt að kynna sér á vefsetri RSNA. Skemmtilegur möguleiki er að nota „Virtual Briefcase“ til að setja saman sína eigin dagskrá á ráðstefnunni.
Fræðsludagskrá (Scientific Program) er að líta dagsins ljós og um hana er fjallað í grein George S. Bisset III, formanns fræðslunefndar, en yfirlit tæknisýningarinnar (RSNA´03 Buyers Guide: Radiology Products and Services) kemur inn á vefinn í nóvember. Nokkur atriði má sjá í grein eftir Michael C. Brunner, formann tæknisýningarnefndar.
Þátttakendalisti
Á síðasta ári birtum við lista hér á vefsetrinu yfir þátttakendur frá Íslandi og gaman væri að endurtaka það núna. Allir sem ákveða að fara eru hér með beðnir að senda póst til ritstjóra Arnartíðinda svo hægt sé að byrja á listanum!
Meira efni í vændum
Fleiri fréttir og greinar varðandi RSNA birtast á vefsetrinu á næstu vikum og einu sinni enn viljum við leggja áherslu á að öllum er velkomið að senda inn efni til birtingar í „Í fókus“.
06.10.03 Edda Aradóttir.