Fyrir 101 ári

Fyrir 101 ári, 9. janúar 1896, birti staðarblaðið í Wurzburg í Þýskalandi fyrst fréttir af uppgötvun þeirri sem heimamaðurinn Wilhelm Konrad Röntgen hafði gert tveim mánuðum fyrr. Þá hafði nær öll heimsbyggðin þegar frétt af geislunum undursamlegu sem gerðu mönnum kleift að sjá inn í mannslíkamann. Blaðamaðurinn í Wurzburg vann fréttina ekki betur en svo að allsstaðar var nafn Röntgens rangt stafsett. Ef til vill dæmi um að fáir eru spámenn í eigin föðurlandi.


#img 1 #Röntgen sjálfur auglýsti sig ekki mikið í tengslum við uppgötvunina. Til dæmis hélt hann aðeins einn opinberan fyrirlestur um geislana, þann 23. janúar 1896.
Hann auðgaðist heldur ekki á uppgötvun sinni, því hann vildi ekki sækja um einkaleyfi og hafnaði öllum viðskiptatilboðum. Í huga hans voru geislarnir ósýnilegu gjöf til mannkynsins.

Á þessu fyrsta röntgen-ári voru hinsvegar gefnar út yfir 50 bækur um efnið og á annað þúsund greinar og skýrslur.

Margvíslegar hugmyndir komu fram um not fyrir röntgengeislana. Til dæmis var læknir nokkur spurður hvort möguleiki væri að nota gegnumlýsingu til að leita að földum vopnum á viðskiptavinum spilavítis. Þar má segja að hafi fyrst komið fram sú hugmynd
#img 2 #sem síðar leiddi til uppsetningar gegnumlýsingartækja á flugvöllum, á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

Það tók gríðarlangan tíma að taka fyrstu myndirnar sem notaðar voru í læknisfræðilegum tilgangi, oftast 15 – 20 mínútur. Röntgenlamparnir höfðu engan fókus, heldur dreifðu geislum jafnt í allar áttir.

Árið 1896 var röntgenmynd fyrst lögð fram sem sönnunargagn í skaðabótamáli, þar sem dansara voru dæmdar bætur frá leikhúsinu sem hún vann við. Stúlkan hafði dottið í sýningu og brotið ristarbein.

Sama ár var röntgenmyndataka notuð til að ákvarða aldur pilts sem var ákærður fyrir líkamsárás. Pilturinn sagði lögreglu að hann væri 19 ára en þegar faðir hans gerði sér
#img 3 #grein fyrir hversu alvarleg ákæran var sagði hann að drengurinn væri aðeins 17 ára, í þeirri von að hann fengi dóm sem unglingur en ekki fullorðinn maður. Réttarlæknir lét taka röntgenmyndir af hendi, olnboga og mjöðm piltsins og bar þær saman við samskonar myndir af öðrum sem sannanlega var 17 ára. Vaxtarlínur þess sem ákærður var reyndust fullkomlega lokaðar og var þar með gengið út frá því að hann væri a.m.k. 18 ára.

Skömmu eftir uppgötvun Röntgens datt lækni einum í hug hvort ekki mætti nota geislana til að finna berklabreytingar í lungum. Hann
#img 4 #gerði rannsókn sína í líkhúsi, tók röntgenmyndir af lungum þeirra látnu og ef grunsamlegur blettur kom í ljós krufði hann það svæði í leit að berklabreytingum og fann í flestum tilvikum skemmd sem var svo lítil að hún sást ekki á ytra borði lungans.

Góðtemplarareglan í Bandaríkjunum hugði gott til glóðarinnar að sýna reykinga- og drykkjumönnum á röntgenmyndum hvernig eitrið skemmdi líkama þeirra.

Sumir vonuðust til þess að notkun röntgengeisla mundi binda endi á notkun tilraunadýra við vísindarannsóknir.

Í blaðagrein frá þessum tíma má sjá dæmi um óvenjuleg not fyrir röntgengeisla. Húsmóðir ein tók eftir því að giftingarhringurinn var horfinn af hendi hennar og grunaði að það hefði gerst við kökubakstur. Hún fór með kökurnar til apótekarans, sem einnig var ljósmyndari og tók röntgenmyndir. Á röntgenmyndum af kökunum kom í ljós að hringurinn var í einni þeirra.

Þegar almenningur frétti að röntgengeislar gætu valdið hárlosi kom fram sú hugmynd að nota þá í stað raksturs. Karlmenn gætu geislað andlit sitt að kvöldi og þvegið skeggið af sér að morgni.

Árið 1896 kostaði gott röntgentæki um 300 dollara (um 21.000 kr.) en færanleg tæki mátti
#img 5 #fá allt niður í 15 dollara (rúmlega 1000 kr.).

Stormað var með röntgentæki út á vígvellina fljótt eftir uppgötvun Röntgens. Herlæknar notuðu þau í stríði milli Grikkja og Tyrkja árið 1897 og milli Spánverja og Ameríkumanna 1898.

Strax og Thomas Edison frétti af uppgötvun Röntgens hóf hann tilraunir með röntgengeisla. Hann þróaði gegnumlýsingarbúnað (fluoroscope) og kynnti hann á The National Electrical Exposistion í New York árið 1896. Óralangar biðraðir mynduðust þar sem fólk beið þess að geta séð beinin í hönd sinni á skerminum. Eins og Röntgen hafnaði Edison því algerlega að fá einkaleyfi á hönnun sinni.

Edison var einn af þeim fyrstu sem gerðu sér grein fyrir hættulegum áhrifum röntgengeisla. Hann lýsti mjög slæmum sársauka sem hann fékk í augu eftir að hafa unnið tímunum saman við gegnumlýsingarbúnað. Samstarfsmaður hans, Clarence Dally, er líklega sá fyrsti sem lést af völdum geislunar frá röntgenbúnaði. Hann fékk alvarlegan húðbruna og skemmdir á líffærum sem drógu hann til dauða. Eftir það hætti Edison tilraunum með röntgengeisla.

#img 6 #
Tæki sem notuð voru í skóbúðum, til að sjá hvort skórinn passaði fætinum, gáfu fólki háan geislaskammt. Þau voru ekki bönnuð fyrr en árið 1953.

Frumherjar í röntgenrannsóknum gerðu sér ekki grein fyrir hættunni sem þeim stafaði af geislunum og margir þeirra létust af völdum geislunar. Við St. Georg General Hospital í Hamborg, Þýskalandi er steinn til minningar um þá sem létu lífið við rannsóknir á röntgengeislun. Á hann eru letruð á þriðja hundrað nöfn.

Snarað úr Radiologic Technology, Vol. 67, nr. 2, nóv/des 1995.
08.01.07 Edda Aradóttir   edda@raforninn.is
  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *